Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2015 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra flutti ræðu á Hólahátíð

Hólahátíð 16. ágúst 2015 – ræða Ólafar Nordal innanríkisráðherra

Ágætu hátíðargestir.

Það er mér mikill heiður að vera hér að Hólum í dag.

Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll
lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur
já menn og alla hluti sem huga minn gleðja

hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til
ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun
sem teflir þessum fjöllum fram, þessu hafi
fjarlægð og nálægð, öllu - lífi og dauða

leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi?

 

Svo mælti Hannes Pétursson í ljóði sínu, Umhverfi. Þessi orð leita á hugann þegar maður hugsar hingað heim að Hólum.

Hólar eru merkur staður, með allri sinni menningu og náttúrufegurð hér í Skagafirði, þar sem fortíðin tvinnast við nútíðina, þar sem litríkar persónur setja svip á söguna, með djúpar rætur í allri þjóðfélagsgerð okkar Íslendinga.

Hólahátíð hefur verið fastur liður á dagatali landsmanna allt frá upphafi en það má rekja til vígslu kirkjuturnsins árið 1950 og var hátíðin síðar fest í sessi á þessum árstíma, kringum sautjándu helgi sumars. Það var myndarlegt af Skagfirðingum að hafa  forgöngu um að reisa turninn í minningu Jóns biskups Arasonar og sona hans.

Þegar við rifjum upp fyrir okkur sögu Hólastaðar þarf ekki að staldra lengi við til að sjá að það er átakasaga. Hér var settur biskupsstóll og hér ríktu biskupar við misjafnar vinsældir og við misjafnt gengi bæði í kirkjusögunni og í hinum veraldlega heimi. Og hér hefur ávallt verið skóla- og menningarsetur. Frá Hólum áttu menn samskipti og viðskipti út í heim. Biskupar stunduðu fræðimennsku og rannsóknir, fylgdust með þróun heimsmála og framförum í búskap, byggingum og fjölmiðlun. Þeir tóku tæknina í sína þjónustu og héðan streymdu bækur og rit sem enn eru mörg hver varðveitt og sum hver geymd hér á staðnum. Má í þessu sambandi minna á sýninguna á Biblíum sem nú stendur hér í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags sem full ástæða er til að skoða.

En hingað er ekki hægt að koma nema til að líta til baka og hér er ekki hægt að vera án þess að horfa fram.

Hér varð bylting þegar Jón biskup Arason keypti prentsmiðju kringum 1530 sem starfaði meira og minna fram undir 1800 þegar hún var seld suður í land. Prentaðar voru rúmlega 460 bækur í Hólaprentinu. Fyrsta bókin kom út 1534 og sú þekktasta er auðvitað gersemin, Guðbrandsbiblía, sem gefin var út árið 1584. Eitt eintak hennar er í eigu Hóladómkirkju. Það voru íslenskir bókagerðarmenn sem gengust fyrir kaupum á biblíunni, til að minnast fimm alda afmælis Gutenbergs árið 1940. Þeir hópuðust heim að Hólum með þennan ágætasta prentgrip sem unninn var í Hólaprentinu og færðu hann kirkjunni. 

Útgáfa Guðbrands biskups á Biblíunni sem við hann er kennd, er talin hafa skipt sköpum fyrir íslenska tungu, enda gátu Íslendingar því snemma lesið Biblíuna á sínu eigin tungumáli. Hún var líka gefin út í 500 eintökum og sumar bækur síðar jafnvel prentaðar í enn stærra upplagi. Guðbrandur var afkastamestur allra biskupa hér í bókaútgáfunni og var þessi starfsemi öll ekkert annað en bylting. Og það eru ekki aðeins bækurnar sjálfar sem eru til vitnis um þessa starfsemi alla heldur hafa þær fornleifarannsóknir sem hér hafa verið stundaðar fært okkur heim sanninn um það. Þær hafa lokið upp fyrir okkur að hér á Hólum var fyrirmyndar prenthús, hlaðið úr grjóti og torfi, stórt, upphitað og þiljað að innan. Hér hafa fundist fjölmargir prentstafir, gólfflísar og gler. Allt þetta er til marks um að hér voru framsýnir menn að verki sem nýttu tækni og þekkingu samtímans og í þágu upplýsingarinnar.

Hvað er það annað en bylting að fá hingað til lands prentsmiðju og standa fyrir umsvifamiklu útgáfu- og menningarstarfi um aldir? Hvað er það annað en þor og framsýni að taka strax í þjónustu þá tækni sem var fjölmiðlun þess tíma og sem leiddi til þess að nánast allur almenningur hafði aðgang að því fjölbreytta efni sem héðan kom?

Áhrifin hafa vafalaust ekki látið á sér standa. Héðan streymdu ekki bara guðsorðabækur, passíusálmar  eða sálmabækur. Hér var Jónsbók prentuð 1578, latnesk kennslubók í ræðugerð 1616, alþingisbækur, stafrófskver, stærðfræðikver, fornmannasögur og ljóðakver. Þessar bækur fóru víða um land og áttu sinn þátt í að við erum enn Íslendingar. Ég man enn mynd af prentverki í sögubók barnæskunnar, barnið áttaði sig ekki á mikilvægi þessa atburðar og kannski ekki einu sinni samferðarmenn þessara frumkvöðla, en nú er það öllum löngu ljóst.

Í dag erum við stödd í annars konar byltingu. Einhvern tímann hefði einhver sagt að mannkynið væri búið að uppgötva allt. Þeir sem upplifðu þá byltingu sem raflýsingin var, svo dæmi sé tekið, hafa eflaust talið að lengra væri varla hægt að ganga – en svo fór maðurinn til tunglsins. Hugviti, framsýni og hugmyndaflugi virðast engin takmörk sett. Á grundvelli forvitni, þekkingar og menntunar virðist maðurinn fær um að færast stöðugt nýtt í fang, að fara út fyrir allt það sem fyrirfram þykir mögulegt. 

Núna eru það lendur internetsins og upplýsingamiðlunar - og byltingin heldur áfram. Byltingin sem leiðir okkur í áttina til enn meira frjálsræðis. Nýjar aðferðir í samskiptum, atvinnustarfsemi, fjármálum, menningu og listum – hvert sem litið er – geta aukið kynslóðabilið og leiða til minni skilnings milli kynslóða. Það er ögrandi að takast á við þá ótal möguleika sem þessi tækni færir fram og fyrir okkur sem eldri erum, að skilja til þrautar hvaða möguleikar þarna eru á ferðinni. Þessar nýju aðferðir eru fagnaðarefni og verkefni okkar er að þær leiði til þess að ungir og aldnir  nái betur saman en ekki öfugt. Við viljum skilja unga fólkið og aðferðir þess. Það fer nokkuð fyrir því að samfélagsmiðlarnir séu mest ræddir út frá bloggskrifum og slíkum hlutum en þeir eru svo miklu miklu meira.
 

En  aftur hingað aðHólum þar sem ekki var alltaf friður og eindrægni. Hvorki fyrr né síðar. Hér hafa menn deilt um auð og völd, um stefnur og strauma, um áhrif og mannaforráð. Og ekki bara deilt heldur tekist á eða jafnvel vegist og barist og ekki hikað við að vega mann og annan. Sem betur fer heyrir allt slíkt sögunni til, en vissulega er tekist á, oft harkalega og ekki bara hér heldur í öllum kimum þjóðfélagsins. 

Enginn veit núna hvernig sagan mun dæma átök liðinna ára á Íslandi eða daginn í dag, þá ekki síst á hvikulu sviði stjórnmálanna, eflaust verður sagt að menn hafi tekist á, með óvægnum hætti kannski, en ég vona að sá árangur náist að tekist sé á með rökum þegar deilt er um einstök mál og minna fari fyrir óvæginni umræðu um einstaklinga sem á stundum hefur borið á.

Þjóðfélagið kraumar nefnilega allt. Það er suðupottur. Mannlífið allt – stjórnmálin, atvinnulífið, stéttarfélög, fjármál, mannréttindi, samskiptin við útlönd, náttúran – gjöful eða grimm. Allt er á hreyfingu. Það er deilt um hagsmuni, innbyrðis og við önnur ríki. Deilt um skiptingu þjóðarkökunnar og allt sem henni tilheyrir. Þung átök um kaup og kjör og nýtingu náttúruauðlinda og allt þar á milli. Í umræðunni lenda hópar einatt saman og stundum er eins og okkur líði best þegar einstaklingar deila og hópar stríða.

Stundum er eins og hér sé ekki eitt þjóðfélag, ekki ein þjóð í einu landi.

Orðræðan er á stundum óvægin svo ekki sé meira sagt. Ekki síst á samfélagsmiðlunum sem við öll erum að feta okkur inn á. Hætt er við að þar sé fleira látið flakka á lyklaborðinu fyrir framan tölvuskjáinn en gert yrði augliti til auglitis. Umræðan á spjallþráðum getur því á stundum orðið býsna hörð. Kannski hefur þessi þróun leitt af sér, að minnsta kosti í bili, afslappaðri samskipti en áður, sem í sjálfu sér kann að vera af hinu góða innan skynsamlegra marka.
 

Auðvitað erum við ekki sammála um allt og við eigum ekkert að vera það og það er ekkert eðlilegra en að umdeild mál fái mikla og þunga umræðu og gagnrýni – það má alls ekki skilja orð mín á þann veg að ég sé að kvarta undan henni, það geri ég ekki, en ég og við öll verðum alltaf að reyna að gagnrýna án þess að meiða. Það er ekki hægt að ná samkomulagi um hluti sem við erum fullkomlega ósammála um. Þá gilda reglur lýðræðisins, að fyrir hendi sé lýðræðislegur meirihluti sem fer fyrir sinni stefnu, þó með fullri virðingu fyrir sjónarmiðum og rétti minnihlutans til að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Óhætt er að segja að mikil hreyfing sé á fylgi flokka um þessar mundir. Kjósendur eru hvikari en kannski fyrr, fólk tekur sínar ákvarðanir á grundvelli hugmynda sem settar eru fram og ekki síst, held ég, á grundvelli þess að það trúi því að þeir sem bera þær hugmyndir fram, komi þeim til framkvæmda. Kjósendur eru ekki einhver stokkur sem er fastur á einum flokki eða öðrum, heldur verða stjórnmálaflokkar, nýir jafnt sem gamlir, að leggja sig fram við að setja fram skýra stefnu um sínar áherslur til lengri tíma og tala skýrt fyrir þeim.

Og nú kallar fólk eftir nýjum áherslum. Flokkar bjóða sig fram af því að þeir hafa ólíkar hugmyndir um hvernig helst á að stjórna landinu. Hvaða leiðir séu farsælastar fyrir þjóðarskútuna. 

Nú sjáum við fram á bjartari tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá reynir á þolgæði okkar. Að hafa úthald til að bíða efir því að kornið safnist í hlöðurnar. Það skiptir öllu máli fyrir okkur Íslendinga á þessum tímapunkti að rasa ekki um ráð fram, heldur ljúka við að reisa efnahagslífið við eftir þær ágjafir sem við urðum fyrir í bankakreppunni. Að hafa þolinmæði og staðfestu til að taka á málum, standa gegn þenslu og auknum ríkisgjöldum en verja þess í stað þeim fjármunum sem til skiptanna eru til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og búa í haginn fyrir uppbyggingu komandi ára.

Um leið skulum við taka á móti nýjungum, nýta þá möguleika sem upplýsingabyltingin veitir okkur, á grundvelli þeirrar þjóðfélagsgerðar sem við byggjum á. Einn er sá lærdómur sem við getum dregið af frumkvöðlum hér að Hólum, og raunar öllum þeim sem á undan okkur gengu og lögðu grunn að þessu þjóðfélagi. Og það er viskan sem felst í því að hugsa langt fram í tímann. Sleppa því að hugsa bara fram að að næsta prófi, eða næstu mánaðamótum, næsta ári, nú eða næstu kosningum. Heldur langt fram og móta ákvarðanir dagsins í dag í ljósi þess hvaða þýðingu þær gætu haft fyrir komandi kynslóðir. Þannig er víst að okkur vegnar vel.

Við skulum minnast orða Hannesar Hafsteins:

Burt með holu hismisorðin,
hrokareiging, froðuspenning.

Burt með raga skríldóms-skjallið!
Skiljum heimsins sönnu menning.

Við Íslendingar höfum oft sýnt að við getum staðið saman þegar eitthvað bjátar á. Þjóðin þjappast saman þegar áföll dynja yfir, náttúruhamfarir og harðindi. Þá sýnum við samstöðu og leggjumst öll á eitt við að draga úr áfallinu og koma til aðstoðar þeim sem orðið hafa verst úti. Við þurfum ekki annað en nefna nýleg eldgos, snjóflóðin hörmulegu á Vestfjörðum og víðar og þannig mætti áfram telja. Þá stóðum við eins og einn maður að björgun, hjálp og uppbyggingu. Nægir að nefna það fórnfúsa starf sem bæði opinberir viðbragðsaðilar og sjálfboðaliðar um allt land vinna í björgunarsveitum þar sem allir eru ávallt boðnir og búnir að ganga í hvert það verkefni sem þarf til að bjarga mannslífum og verðmætum.

En hvað sem samstöðuna á friðartímum? Af hverju er orðræðan svo grimm? Þurfa allir að vera sammála? Baráttan er um hugmyndir. Við lifum ekki aðeins friðartíma heldur líka uppgangstíma. Það er vöxtur í hagkerfinu, minna atvinnuleysi, fleiri ferðamenn, batnandi velferð. Hér er falleg náttúra sem við njótum aldrei nógsamlega. Við erum að nálgast aftur þá velmegun sem var hér fyrir hrun. Á sama tíma þurfa allir að leggjast á eitt og bæta ásýnd Alþingis og ég er viss um að allir þeir sem þar sitja eru sammála um það. 

Alþingi er nefnilega einstakur staður, ég get ekki talað um það sem vinnustað í hefðbundnum skilningi, og þótt ég sitji þar ekki sjálf þekki ég það svo vel af eigin raun. Sú ásýnd sem birtist í fréttum sýnir ekki alltaf rétta mynd af því starfi sem þar fer fram og ég vildi óska þess að takist að bæta úr þannig að Íslendingar upplifi þá merku stofnun eins og hún er best.
 

Forystumenn hvarvetna verða að ræða þennn þátt af ábyrgð af því að við þurfum líka samstöðu á friðsælli tímum. 

Undanfarið hefur orðið talsverð endurnýjun í hópi þingmanna. Nýir flokkar verða til, nýtt fólk er kosið, ný sjónarmið koma inn og allt blandast þetta saman við þá reynslu og þekkingu sem fyrir er. Þetta er nauðsynleg þróun, endurnýjun og framfarir eru eðlilegt gangverk hvort sem er í huga hvers og eins eða í tækni og menntun

,,Enn sækja menn ,,heim að Hólum“ og er það vel,“ sagði Þórarinn Björnsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, í ræðu sinni á Hólahátíð fyrir réttum 50 árum (15. ágúst 1965). Stjórnendur og nemendur MA hafa alla tíð ræktað sambandið við Hóla með tíðum heimsóknum og samskiptum. Og enn sækja menn heim að Hólum – og Þórarinn skólameistari sagði líka: ,,Ef til vill hefir þess ekki verið meiri þörf en einmitt nú, þegar allt er á hverfanda hveli. Einn djúptækasti og erfiðasti vandi nútímans er sennilega sá, að við erum of margir, sem vitum ekki, hvar við eigum heima,“ sagði hann þá og ég spyr örlar ekki stundum á þessu hjá okkur? Hvað viljum við? Hvert ætlum við? Við þurfum að hafa skýra sýn og skýra stefnu og halda kúrs. 

Ég vitna aftur í Þórarin Björnsson: ,,Héðan væri hægt að horfa á þjóðfélagið úr hæfilegri fjarlægð, ef til vill tala um ágalla þes af góðvild og skilningi, hvort heldur væru skattsvik eða uppmælingartaxtar, svo að miðað sé við líðandi stund.“

Þetta var sagt fyrir 50 árum. Einsetjum okkur að bæta orðræðuna og ræða ágallana með góðvild og skilningi. Förum héðan með endurnýjuðu hugarfari og með nýjar fyrirætlanir. Förum héðan með nýja sýn og köllum eftir breytingum sem skipta okkur öll máli í bráð og lengd. 

Þá höfum við haft erindi heim að Hólum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum