Hoppa yfir valmynd
9. september 2014 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Svar við bréfi umboðsmanns Alþingis frá 25. ágúst

Innanríkisráðherra hefur í dag svarað umboðsmanni Alþingis vegna bréfs hans frá 25. ágúst síðastliðnum. Bréfið fer hér á eftir:

Með bréfi 25. ágúst 2014 hafið þér borið fram spurningar við mig og óskað eftir afstöðu minni til málsatriða í máli því, sem þér tókuð að eigin frumkvæði til athugunar vegna umfjöllunar í DV, sbr. fyrri bréf yðar 30. júlí og 6. ágúst 2014. Varðar málið samskipti mín sem innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu (L) meðan fram fór rannsókn undir yfirstjórn ríkissaksóknara (R) á ætluðum leka á samantekt um málefni hælisleitenda úr ráðuneytinu í nóvember 2013.

Þessum fyrri bréfum yðar svaraði ég 1. og 15. ágúst 2014 og taldi mig þar veita þær upplýsingar sem þér óskuðuð eftir og skýringar mínar. Taldi ég svör mín staðfesta með fullnægjandi hætti að ég hefði ekki með nokkrum hætti reynt að hafa áhrif á rannsóknina sem málið varðar. Í tilefni af þessu nýjasta bréfi yðar tel ég rétt að fara fyrst yfir meginatriði þessa máls til að undirstrika að með mál þetta hefur frá upphafi verið farið hér í ráðuneytinu eftir lögum og góðum stjórnsýsluháttum (A). Að því búnu verður vikið að spurningum sem þér berið fram í lok bréfs yðar að svo miklu leyti sem svörin verða ekki þegar komin fram (B). Loks mun ég víkja nokkrum orðum að athugasemdum mínum vegna þess hvernig þér hafið valið að bera mál yðar fram gagnvart undirritaðri (C).

 A.

1. Í bréfi yðar fjallið þér ítarlega um lýsingu L á samskiptum við mig á þeim tíma sem framangreind rannsókn fór fram og leggið síðan út af þeirri lýsingu. Eins og ég kem að síðar ætla ég ekki og get ekki stöðu minnar vegna haft opinberlega orðrétt eftir samskipti mín við embættismenn, en get hins vegar fullyrt að upplifun mín af þessum samtölum við L var ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar.

Meginatriði þessa máls og það sem mestu skiptir er að L var ekki stjórnandi umræddrar rannsóknar. Hann tók ekki ákvörðun um rannsóknina, stjórnaði henni ekki, tók ekki einstakar ákvarðanir um aðgerðir og hafði ekki afskipti af henni frá degi til dags. Þessar ákvarðanir voru í höndum R sem bar ábyrgð á rannsókninni. 

Þetta var bæði mér og L fullljóst í öllum okkar samskiptum, því eins og haft er eftir honum sjálfum í bréfi yðar lá það fyrir í upphafi að R hefði formlega ábyrgð og stjórn á lögreglurannsókninni en embætti L legði til lögreglumenn til að vinna að rannsókninni.  Í bréfi yðar segið þér orðrétt:

,,Sjálfur (L) hefði hann hugað að hæfi sínu til að koma að málinu.  Hann hafi rætt þetta við ríkissaksóknara og það hefði orðið niðurstaðan að ríkissaksóknari hefði alltaf formlega ábyrgð og stjórn á lögreglurannsókninni en embætti lögreglustjóra legði til lögreglumenn til að vinna að rannsókninni. Ríkissaksóknari hefði sagst hafa fyrirkomulag rannsóknarinnar í þessu formi í ljósi stöðu L sem væri skipaður af ráðherra með tímabundna skipun en ekki stöðu eins og dómarar eða ríkissaksóknari sjálfur.  L tók fram að síðan hefði rannsókn farið í gang og hann hefði ekkert verið að fylgjast með henni frá degi til dags.”

Samskipti okkar verður því að skoða í þessu ljósi.

Þegar rannsóknin kom til tals í samtölum okkar var ég því fyrst og fremst að bera undir hann hvað væru eðlilegir hættir í slíkum rannsóknum og hvernig öryggi rannsóknargagna væri almennt tryggt. L kom ekki sjálfur að rannsókninni og vissi í raun lítið um efni hennar og framgang, líkt og hann sjálfur staðfestir. Er rétt að ítreka það í þessu samhengi að það kom margoft fram hjá L að honum þættu samtöl okkar á engan hátt óviðeigandi eða óþægileg eða til þess fallin að hamla störfum hans.

Sú ákvörðun R að haga yfirstjórn þessarar rannsóknar með þessum hætti, sem fól í sér frávik frá reglu 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, lá fyrir þegar í upphafi rannsóknarinnar 7. febrúar 2014. Var þessi ákvörðun sýnilega og eðlilega tekin vegna hins nána stjórnsýslusambands milli L og ráðuneytisins sem rannsókn sætti. Lá upp frá þessu ljóst fyrir í öllum samskiptum mínum við L að hann hefði ekki með höndum yfirstjórn rannsóknarinnar heldur annaðist R hana sjálfur. Í þessu fólst að R tók allar ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir og gaf fyrirmæli um þær. Svo virðist mega ráða af bréfi yðar nú að þér hafið áttað yður á þessu veigamikla atriði varðandi það mál sem þér hafið kosið að láta til yðar taka og nefnt er í upphafi þessa bréfs. Samkvæmt því geta ekki verið forsendur til að fylgja athugun þessari frekar eftir.

2. Í því að R hafði á hendi yfirstjórn rannsóknarinnar fólst, líkt og áður segir, að R tók ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir. Embætti R hefur samkvæmt lögum sjálfstæða stöðu, sbr. 20. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ég legg áherslu á að ég hafði aldrei samband við R um rannsóknina.  Ég gætti þess líka vel allan tímann að ráðuneytið yrði við öllum fyrirmælum um rannsóknaraðgerðir.

3. Í bréfi yðar nefnið þér til sögunnar reglur stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi. Ég taldi að þær reglur gætu ekki skipt máli um samskipti mín við L. Í II. hluta bréfs yðar, einkum 4. þætti, fjallið þér um aðild og sérstakt hæfi í stjórnsýslu. Kemur þar fram að þær reglur séu ekki alls kostar skýrar þegar um ræðir mál af þessum toga. Undir það get ég tekið. Mín skoðun var og er samt sú að slíkar reglur geti ekki átt við um samtöl mín við embættismenn um málefni sem hvorugt okkar hafði forræði yfir. Framkvæmd umræddrar rannsóknar var ekki stjórnsýslumál í ráðuneytinu. Öll stjórnsýsla í málinu var í höndum R sem fór með yfirstjórn rannsóknarinnar. Ráðuneytið var hins vegar andlag rannsóknarinnar og áttu stjórnendur þess í samskiptum við lögregluna vegna þess, eins og áður hefur komið fram.                                                                         

4. Ég vildi frá byrjun greiða fyrir þessari rannsókn og hafði ekki ástæðu til annars en að telja að þessu myndi ljúka á stuttum tíma, enda var í upphafi talað um tvær vikur eða svo. Í ljós kom hins vegar að rannsókninni lauk ekki á þeim tíma sem ætla mátti í byrjun. Ég var vel meðvituð um skyldur mínar og annarra starfsmanna ráðuneytisins til að greiða fyrir framgangi rannsóknarinnar, bæði í þágu hagsmuna af því að upplýsa málið en einnig í því skyni að ljúka mætti þessu inngripi í starfsemi ráðuneytisins á sem skemmstum tíma. Liggur fyrir að ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að stuðla að þessu.

5. Hafa verður í huga að starfsemi þessa ráðuneytis er afar viðkvæm fyrir rannsókn af þessu tagi þar sem utanaðkomandi aðili hefur fengið aðgang að gögnum í ráðuneytinu, sem oftast eru bundin ströngum trúnaði. Um leið og ráðuneytið vildi tryggja framgang umræddrar rannsóknar, varð að gæta þess í hvívetna að öryggi upplýsinga um önnur mál eða aðra aðila væri tryggt. Í því felast embættisskyldur mínar og skyldur ráðuneytisins einnig.

6. Í rannsókninni komu fljótlega upp atvik sem ég sem ráðherra og ráðuneytið taldi að óska þyrfti skýringa á hvernig tengdust umræddri rannsókn en hún fjallaði um samantekt um hælisleitanda sem ætlað var að hefði farið út úr ráðuneytinu tiltekinn dag. Svo dæmi séu nefnd fór fram víðtæk leit í öllu tölvupóstkerfi ráðuneytisins; tekið var afrit af málaskrá ráðuneytisins í heild; borðsímanotkun allra starfsmanna var könnuð; aðgangskort allra starfsmanna voru könnuð og farsímanotkun einstakra starfsmanna; vettvangsrannsókn var framkvæmd í skjalasöfnum ráðuneytisins svo aðeins séu nefndar almennar en ekki sértækar aðgerðir gagnvart einstaka starfsmönnum. Margt af þessum rannsóknaróskum náði langt út fyrir þann tíma sem atburðurinn átti að hafa átt sér stað; teygði sig í mánuði fyrir og eftir. Við öllum þessum beiðnum var orðið hratt og örugglega, ekki síst vegna þess að með skýringum sínum um eðli slíkra aðgerða sannfærði L ráðuneytið og mig um að tryggt væri að með engum þessum aðgerðum yrði trúnaður brotinn gagnvart öðrum málum eða öðrum einstaklingum.

7. Hafa verður ríkt í huga að tímalengd þessarar tiltölulega einföldu rannsóknar var sérstaklega erfið fyrir mig, meðal annars vegna þess að ég sætti látlausum árásum vegna málsins á opinberum vettvangi og hafði sjálf sagt í upphafi að ég myndi ekki tjá mig um málið fyrr en að rannsókn lokinni. Það sagði ég þegar ég taldi eðlilega að þessu myndi ljúka á tveimur vikum eða svo en ekki hartnær sex mánuðum eins og raun ber vitni.

8. Hafa verður í huga að ekki var neinum skráðum reglum eða hefðum til að dreifa um hvernig ráðherra við þessar aðstæður beri að bregðast við. Af málinu má hins vegar draga lærdóma um hvernig ætti að fara að þegar slík mál koma upp í framtíðinni. Varla getur talist athugavert að sá sem sæta þarf rannsókn á starfsemi sem hann stjórnar komi á framfæri slíkum áhyggjum og er vandséð hverjir aðrir en stjórnendur þessa ráðuneytis hefðu átt að benda á slík áhyggjuefni. Þess þarf hins vegar að gæta vandlega að slík aðkoma geti aldrei talist verða afskipti af rannsókn, síst af öllu til að draga úr virkni hennar og árangri. Ég taldi samskipti mín við L ekki geta haft nokkur slík áhrif, enda hefur það verið staðfest með lyktum rannsóknar og niðurstöðu rannsakenda og ríkissaksóknara um að rannsókn hafi verið ítarleg og fullnægjandi.

9. Þrátt fyrir þetta síðast nefnda taldi ég og tel enn nauðsynlegt að reynslan af þessu máli verði nýtt til að móta starfsreglur ef til sambærilegra atburða kæmi í framtíðinni. Af þessari ástæðu hafði ég uppi orð við L um að nauðsynlegt væri að athuga framkvæmd þessarar rannsóknar svo draga mætti af henni ályktanir um efni slíkra starfsreglna. Ekkert annað vakti fyrir mér með orðum í þessa átt. Nú hefur samtal mitt við L um þetta verið slitið úr öllu samhengi og sett í þann búning að í þessu hafi falist einhvers konar þvingun. Ekkert er fjær sanni. Samt sem áður er þetta sett fram með þessum hætti í bréfi yðar og það birt án þess að mér hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Rétt er að taka hér fram að L sagði sjálfur að þessi rannsókn væri án fordæma, líkt og fram kemur í bréfi yðar, auk þess sem hann hefur staðfest að engin óeðlileg afskipti hafi verið af rannsókninni.

10. Með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég ekki að tilefni hafi verið fyrir mig að víkja úr embætti við upphaf rannsóknarinnar, ekki síst í því ljósi að ákvörðun R um fyrirkomulag rannsóknarinnar tryggði sjálfstæði gagnvart ráðuneytinu. Ráðherra fór m.ö.o. ekki með neinar þær stjórnunar- eða eftirlitsheimildir í málinu sem kölluðu á að hann viki sæti. Tilefni til þess myndaðist heldur ekki síðar, enda fólust ekki í samtölum mínum við L nokkur afskipti af rannsókninni.  Skal ítrekað að ég taldi allan tímann að rétt væri að verki staðið hjá mér, sem og ráðuneytinu, L og öðrum sem hlut eiga að máli. Fráleitt er að telja mig hafa gert stöðu L gagnvart ráðuneytinu erfiða, enda vissi ég að L gat ekki brugðist sjálfur við þeim atriðum sem ég nefndi og að framan er lýst.  L vissi líka að mér var þetta ljóst.

11. Ástæða er til að nefna að þegar þessari umfangsmiklu rannsókn lauk kom fram að allt það sem hægt var að gera til að rannsaka umræddan atburð hafði verið gert. Sú afstaða er síðar staðfest með afgerandi hætti þegar R ákveður að gefa út ákæru á hendur aðstoðarmanni mínum á grundvelli rannsóknarinnar í stað þess að óska eftir frekari rannsókn áður en sú ákvörðun yrði tekin, eins og R hefði getað gert ef embættið hefði talið að einhver óeðlileg áhrif hefðu verið höfð á framgang rannsóknarinnar.

B.

Í VII. kafla bréfs yðar óskið þér eftir svörum við ellefu tölusettum liðum. Að verulegu leyti eru svör mín þegar komin fram. Allt að einu skal hér vikið að einstökum liðum.

1. Eins og ég hef áður nefnt ætla ég ekki og get ekki stöðu minnar vegna haft opinberlega orðrétt eftir samskipti mín við embættismenn, en get hins vegar fullyrt það að upplifun mín af þessum samtölum var í ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar.

2. Svarið við þessu felst í kafla A. Í samtölum mínum við L var rætt um löggæslu- og öryggismál almennt. Að auki áttum við nokkrum sinnum samtöl um rannsóknina sem um er fjallað í erindi yðar. Þegar rannsóknin barst í tal í okkar samtölum var ég að bera undir hann hvað væri eðlilegur háttur í slíkum rannsóknum og hvernig öryggi rannsóknargagna væri almennt tryggt. Í þessum samskiptum okkar lagði ég ekki fram neinar kröfur um hvernig rannsókninni skyldi háttað heldur óskaði ég leiðbeininga og upplýsinga um framgang rannsóknar sem þessarar. Þess vegna taldi ég að ekki væri ástæða til að hætta samskiptum við L umrætt tímabil. Það skal þó enn ítrekað að viðleitni mín var að greiða fyrir rannsókninni með því að veita aðgang að öllum gögnum sem um var beðið.  

3. Ég hef þegar veitt yður upplýsingar um þetta. Enn og aftur verð ég að taka fram að L gat engin efnisleg áhrif haft á rannsóknina og okkur var það báðum ljóst.

4. Svar mitt við þessum atriðum felst í kafla A að framan og svari við spurningu 2. Að mínum dómi reyndi ekki á reglur um sérstakt hæfi í samskiptum mínum við L þar sem hvorugt okkar fór með forræði rannsóknarinnar.  Ég gaf L hvorki fyrirmæli um hvernig umræddri rannsókn skyldi hagað né tók yfir höfuð nokkrar ákvarðanir sem vörðuðu rannsóknina.                                                               

5. Í þeim ákvæðum siðareglnanna sem þér nefnið felast almennar ólögfestar reglur um góða hætti í stjórnsýslu. Engu máli skiptir efnislega hvort þessar reglur séu taldar formlega í gildi. Mér bar að viðhafa góða stjórnsýsluhætti og gerði það í hvívetna eins og fram gengur af lýsingu minni hér að framan.

6. Sama svar og í 5.

7. Ætla má að svör við spurningum yðar í þessum lið felist í því sem þegar er komið fram í svörum mínum. Þannig kom fram í svari mínu frá 15. ágúst sl. að umrædd samskipti mín við L vörðuðu ekki tiltekin mál, sem formlega voru til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þessi samskipti féllu því utan reglna nr. 1200/2013. 

8.  Ég tók í meginatriðum sjálf ákvarðanir um samskipti mín við L, en líkt og áður sagði gerði ég það í samráði við hann sem hefur langa reynslu úr stjórnsýslunni, bæði hjá lögreglu og fyrrum dómsmálaráðuneyti. Ég treysti því staðfestingu hans á því að ekkert óeðlilegt væri að ræða ákveðna þætti málsins við hann, þar sem hann hefði ekki beina aðkomu að málinu. Þá skal það ítrekað að upplifun mín af þessum samtölum við L eru ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar. Að auki hefur sú lögfræðilega ráðgjöf sem ég hef fengið innan sem utan ráðuneytis verið á þá lund að samskipti mín við L, líkt og þeim er lýst hér að ofan, væru mikilvæg til að greiða fyrir framkvæmd rannsóknarinnar.  Ég sé ekki ástæðu til að nefna nöfn þeirra sérstaklega enda er ábyrgðin mín sem ráðherra.

9. Líkt og áður hefur komið fram, hef ég átt í reglulegum samskiptum við L vegna starfa hans. Á þeim tímapunkti sem þér nefnið hafði birst röng og ósönn frétt um meint áhrif mín á starfslok L. Eðlilega áttum við L samtal um það og vorum sammála um hversu fjarstæðukennd sú frétt væri. Annar aðstoðarmaður minn hefur tjáð mér að hann hafi rætt við L sem taldi enga ástæðu til að bregðast við þessari frétt eða þeim fjölmiðli sem flutti hana á umræddum tíma, þrátt fyrir að við höfum fyrir okkar leyti réttilega vísað henni á bug. Aðstoðarmaðurinn sagði það ekki rétt að hann hafi krafið hann um að senda út yfirlýsingu eða eitthvað slíkt enda hefur hann ekki boðvald yfir L.

10. Ég hef aldrei reynt að hindra L í að gefa embætti yðar þær upplýsingar sem hann kýs og þér óskið eftir.

11. Svo sem fram hefur komið á opinberum vettvangi hafði nafngreindur lögmaður, sem aðstoðaði mig, samband við L áður en bréf mitt 1. ágúst sl. til yðar var sent. Lögmaður þessi hafði símsamband við L, áður en bréfið var sent, og las fyrir hann lýsingu þess á samskiptum mínum við hann. Þetta var auðvitað gert til að tryggja að rétt væri frá greint. Staðfesti L í símtalinu við lögmanninn að svo væri.

C.

Að endingu get ég ekki látið hjá líða að gera alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun að neita mér um frest til að svara bréfi yðar 25. ágúst sl. áður en það var birt almenningi. Ekki verður séð að neinir opinberir hagsmunir hafi mælt með því að synja mér um þetta og verður ekki betur séð en þannig hafi verið farið á svig við reglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og andmælarétt.

Málið er og hefur verið til umræðu í samfélaginu, bæði á vettvangi stjórnmála og svo er reyndar einnig ljóst að ákveðinn þáttur þess mun koma til meðferðar fyrir dómi vegna ákæru sem R hefur gefið út á hendur öðrum aðstoðarmanna minna. Ekki verður séð hvaða tilgangi það þjónar að taka upp athugun á starfsháttum mínum og fjalla um hana fyrir opnum tjöldum án þess að um leið sé gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef fram að færa. Verður ekki séð að það sé í samræmi við 4. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Að lokum er vert að árétta það sem fram kom í upphafi að ákveðin grunnforsenda athugunar yðar líkt og ég hef lýst hér að framan er röng. L stjórnaði ekki umræddri rannsókn, þó að starfsmenn við embætti hans hafi unnið að henni. Þegar frá upphafi lá ljóst fyrir að þeir störfuðu undir beinni yfirstjórn R sem tók ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir. Út frá þessari staðreynd verður að skoða samskipti mín og L á umræddum tíma sem ég ítreka að voru ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar.

Ég óska þess af yður að þér takið mið af þessum staðreyndum og sjónarmiðum við athugun yðar.

Virðingarfyllst

Hanna Birna Kristjánsdóttir


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum