Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Þjónustusamningur um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna til 2018

Fulltrúar innanríkisráðuneytis, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Siglingastofnunar hafa skrifað undir þjónustusamning um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna. Markmið skólans er að auka öryggi sjómanna með fræðslu um slysavarnir á sjó og er tilgangur samningsins að efla öryggisfræðslu sjómanna með kraftmiklu skólastarfi sem uppfyllir íslenskar og alþjóðlegar kröfur um þjálfun sjómanna.

Þjónustusamningur innanríkisráðuneytis og Slysavarnafélagsins Landsbjargar undirritaður.
Þjónustusamningur innanríkisráðuneytis og Slysavarnafélagsins Landsbjargar undirritaður.

Samningurinn gildir fyrir árið 2013 og til ársins 2018. Samkvæmt honum greiðir innanríkisráðuneytið rúmar 60 milljónir í ár en fjárhæðin mun taka almennum verðlagshækkunum í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir samningstímann. Fjárhæðir í samningnum eru settar fram með fyrirvara um ákvörðun Alþingis um fjárveitingu annars vegar og hins vegar ákvarðanir stjórnvalda um aðrar viðmiðanir við undirbúning fjármála vegna aðstæðna í ríkisfjármálum hverju sinni. Samningurinn er gerður á grundvelli laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins og laga nr. 33/1991 um Slysavarnaskóla sjómanna.

Í samningnum er kveðið á um ábyrgð samningsaðila, svo sem að skólinn skuli fullnægja viðeigandi kröfum og skilyrðum sem sett eru vegna öryggisfræðslu sjómanna og skal leggja áherslu á faglegan metnað í því skyni. Innanríkisráðuneytið skipar skólanum fimm manna skólanefnd til fjögurra ára í senn og hefur ráðuneytið eftirlit með framkvæmd samningsins ásamt Siglingastofnun Íslands.

Samninginn undirrituðu þeir Hannes Frímann Sigurðsson, stjórnarmaður SL, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri.

Þjónustusamningur innanríkisráðuneytis og Slysavarnafélagsins Landsbjargar undirritaður.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum