Hoppa yfir valmynd
21. mars 2013 Dómsmálaráðuneytið

Eiga stjórnvöld að fjalla um klám?

Netsía fyrir Ísland: Vænleg leið til að stemma stigu við klámi og óværum? var yfirskrift fundar Skýrslutæknifélags Íslands miðvikudaginn 20. mars um möguleg úrræði til að stemma stigu við aðgangi á netinu að klámi eða öðru efni sem talið er óæskilegt. Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, flutti erindi á fundinum sem hún nefndi: Eiga stjórnvöld að fjalla um klám?

Auk Höllu fjallaði Theódór R. Gíslason, hjá Syndis, um hvort það væri tæknilega framkvæmanlegt að takmarka aðgengi að ofbeldisfullu klámi á netinu, Bjarni Rúnar Einarsson, hjá The Beanstalks Project, ræddi um reynslu annarra ríkja í þessum efnum og Torfi Frans Ólafsson, hjá CCP, fjallaði um áhrif á nýsköpun.

Í upphafi máls síns bar Halla Gunnarsdóttir fundarmönnum kveðju Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem boðin hafði verið þátttaka en gat ekki þegið það þar sem hann var meðal ræðumanna á málþingi sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir á sama tíma um almenningssamgöngur. Hún þakkaði einnig Skýrslutæknifélaginu fyrir að efna til þessa fundar og sagði aðkomu félagsins að umræðunni til fyrirmyndar. Hún lagði þó einnig áherslu á að yfirskrift fundarins væri eilítið villandi, umræðan þyrfti að eiga sér stað á víðari grundvelli til að reyna að skilgreina og ná sem víðtækastri sátt um markmiðið og í framhaldinu að finna leiðir til að komast þangað.

Ítarlegt samráðsferli

Halla svaraði síðan spurningunni um hvað hefði leitt til þess að klám hefur verið sett á hina pólitísku dagskrá. Haustið 2010 hefði Ögmundur Jónasson, þá sem dómsmála- og mannréttindaráðherra, efnt til ítarlegs samráðsferlis um meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu. ,,Á sama tíma stóð fyrir dyrum fullgilding á samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu gegn börnum. Liður í þeim samningi er að efna til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi og hefur sú vitundarvakning náð til allra grunnskóla landsins, þar með talið með sérstökum málþingum sem haldin voru í öllum landshlutum fyrir kennara og annað starfsfólk skóla,” sagði Halla.

Halla sagði að fram hefði komið að fólk sem starfar með börnum hefði áhyggjur af áhrifum kláms á börn og unglinga, þar með talið á virðingu þeirra fyrir sjálfum sér og öðrum og hugmyndir þeirra um kynlíf, samskipti kynjanna, klæðaburð og útlit. Fólk sem starfar í tengslum við kynferðisofbeldi – svo sem við lögreglurannsókn, ákærumeðferð, heilbrigðisþjónustu og meðferð fyrir barnunga og fullorðna þolendur – teldi að áhrifa ofbeldisfulls kláms gætti í auknum mæli í kynferðisofbeldi hér á landi. Fleiri ráðuneyti og ýmsir aðilar hafi verið kallaðir til umræðu um þetta með það að markmiði að leita svara við spurningunni: Eiga stjórnvöld að fjalla um klám? Hún sagði myndina hafa skýrst frekar:

„Íslensk börn eru að meðaltali 11-12 ára gömul þegar þau sjá klám í fyrsta sinn. Það efni sem mest er dreift felur í sér ofbeldi og vanvirðandi meðferð, einkum gagnvart konum, í sumum tilfellum hreinar pyntingar. Klámframleiðendur keppast við að finna upp á nýjum aðferðum til að tengja saman niðurlægingu, ofbeldi og kynlíf. Þetta efni er orðið að einni helstu „kynfræðslu“ barna en þau geta nálgast það á 20-30 sekúndum á netinu, sum í leit að því, önnur sem eru alls ekki í leit að því. Klámneysla er jafnframt mjög kynjuð en samkvæmt samnorrænni rannsókn horfa tæplega 93% íslenskra stúlkna aldrei eða nánast aldrei á klám á móti 24% pilta. Stærstur hluti pilta á aldrinum 16-19 ára horfir hins vegar oft á klám og um 20% daglega.“

Á borðum innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis liggja sundurliðaðar tillögur sem byggjast á þessu samráði. Sérstaklega er tekið fram að stefnumótun í málaflokknum þurfi að taka mið af því að vernda börn fyrir skaðlegum áhrifum kláms, þ.m.t. fyrir því að sjá klámefni án þess að hafa aldur eða þroska til að velja eða hafna. Sporna þurfi við því að klám sé fyrsta og jafnvel helsta „kynfræðsluefni“ barna og ungmenna, auk þess sem taka þurfi mið af mögulegum skaðlegum áhrifum kláms á fullorðna neytendur.

Sagði Halla þær tillögur sem beint var til innanríkisráðuneytisins hafa fengið hvað mesta athygli. „Samkvæmt almennum hegningarlögum er hvers konar dreifing kláms og birting þess á prenti refsiverð. Framfylgni þessara laga er takmörkuð en fyrir því eru einkum nefndar tvær ástæður. Í fyrsta lagi að það skorti á lagaskilgreiningu á hugtakinu „klám“ og í öðru lagi að lögregla hafi hvorki nægileg úrræði né bolmagn til að fylgja lögunum eftir, sérstaklega þegar kemur að dreifingu á internetinu.

Því var þeim tillögum beint til innanríkisráðuneytisins að bregðast við þessu.

Hvað fyrra atriðið áhrærir þá hefur refsiréttarnefnd nú með höndum það verkefni að vinna frumvarp til almennra hegningarlaga sem þrengi og skerpi á skilgreiningu kláms með vísan til efnis þar sem ofbeldi og niðurlæging er sett í samhengi við kynlíf. Í þeirri vinnu hefur refsiréttarnefnd verið uppálagt að líta til lagaumhverfis nágrannaríkja okkar. 

Varðandi síðara atriðið hefur verið settur á laggirnar starfshópur með aðkomu innanríkisráðuneytisins, lögreglu og ríkissaksóknara, í náinni samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun og fjarskiptafyrirtæki. Hópurinn skal kortleggja úrræði lögreglu vegna dreifingar kláms á netinu og gera tillögur að breytingum – lagalegar og tæknilegar – einkum með tilliti til mikilvægis þess að börn hafi ekki aðgang að grófu efni.

Hefur þetta sætt nokkurri gagnrýni, sumpart þar sem fólk hefur gefið sér að málið sé komið mun lengra en raun ber vitni eða er ósammála því að eitthvað eigi að aðhafast, en líka frá þeim sem telja að umræðan ein og sér eigi ekki að leyfast. Hún sé jafnvel hættuleg og ámælisverð. Því síðarnefnda vil ég hafna, enda eru þeir hagsmunir sem hér eru húfi svo ríkir að það er nærri því að okkur beri skylda til að ræða þessi mál og leggja niður tillögur að úrbótum.”

Ræða þarf ólík blæbrigði netsins

Lokaorð Höllu voru þessi: ,,Tæknilega umræðan á hins vegar að fjalla um þau úrræði sem eru fyrir hendi og þau úrræði sem gætu verið í þróun á næstu árum, kosti og galla við að nýta slík úrræði, kostnað og mögulegan ávinning. Og lagalega umræðan verður að taka mið af grundvallarreglum réttarríkisins, innviðum þess og þeim verndarhagsmunum sem við höfum til umfjöllunar.

Í framhaldinu heldur hin pólitíska umræða áfram: Hvað erum við tilbúin að gera og hvernig viljum við standa að því? Hversu miklu má til kosta? Þar verða skoðanir eflaust skiptar.

Eitthvað segir mér þó að kannski sé ekki eins langt á milli ólíkra sjónarmiða og ætla má við fyrstu sýn. Og ef við látum vera að stökkva ofan í skotgrafirnar er aldrei að vita nema að við getum fundið góðar lausnir, sem gæti ríkt nokkuð breið samstaða um. Ég tel að Ísland hafi alla burði til að vera í fararbroddi í heiminum í að kljást við þessar spurningar og setja fram tillögur að svörum. Til þess þurfum við að geta rætt ólík blæbrigði internetsins, fegurðina og skuggahliðina, með skilningi á því að við erum á æskuárum netsins, ekki við endapunkt þróunar þess. Þetta er ekki einföld umræða og hún býður ekki upp á patentlausnir. En við skulum í það minnsta sýna kjarkinn til að ræða málin.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum