Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Viðrar hugmynd um að komið verði á fót alþjóðlegum dómstól fyrir fjármálaglæpi

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hélt í gærkvöldi ræðu við lagadeild South Asian háskólann Nýju Delhi á Indlandi. Þetta er önnur ræðan sem innanríkisráðherra heldur við háskóla í borginni í heimsókn sinni til landsins.

Innanríkisráðherra hélt fyrirlestur í háskóla í Nýju Dehli.
Innanríkisráðherra hélt fyrirlestur í háskóla í Nýju Dehli.

Líkt og í fyrri ræðu fjallaði innanríkisráðherra meðal annars um þær áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir á sviði umhverfis- og félagsmála í hinu alþjóðlega samhengi. Hann sagði að Indverjar hefðu öðlast sjálfstæði frá Bretum um svipað leyti og Íslendingar fengu sitt sjálfstæði. Hann staldraði við framvinduna á tuttugustu öldinni. Samstaða hafi verið um það hjá öllum flokkum að byggja upp velferðarkerfi sem tryggði landsmönnum heilbrigðis- og velferðarþjónustu og menntun. Hagkerfið hafi verið blandað, ríki og sveitarfélög haft sitt hlutverk og einkaaðilar annað. Síðan hafi á á 9. og 10. áratugnum hafist ferli einkavæðingar á Íslandi, bankar verið seldir og eignir og stofnanir í opinberri eigu einkavædd. Í máli hans kom fram að allt traust hafi verið sett á hin einkavæddu fyrirtæki, þau áttu að skapa velferð og vöxt fyrir alla. Þessu ferli lauk síðan í hruninu og síðan hefur það verið verkefni skattgreiðenda á Íslandi, almennings, að taka til eftir skipbrotið og endurreisa samfélagið, með tilheyrandi þrengingum og niðurskurði.

Innanríkisráðherra hélt fyrirlestur í háskóla í Nýju Dehli.Innanríkisráðherra taldi að eina leiðin fyrir Íslendinga út úr hruninu og inn í framtíðina væri að byggja á réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir lögum. „Þannig er hægt að byggja upp trú almennings á því erfiða verkefni sem við eigum við að glíma, að við verðum að taka öll í árarnar, en þá verða menn að vera á sama báti. Það er verkefni íslenskra stjórnmálamanna nú um stundir, að tryggja að svo sé og að raunverulegt réttlæti og jafnrétti sé forsendan og að enginn sé hafinn yfir lögin.“

Nemendur skólans lögðu margar spurningar fyrir ráðherrann að ræðu lokinni, m.a. var talsvert spurt um hvernig Íslendingar hafi tekið á vandamálum tengdum hruninu og hvernig misgjörðir fjármálafyrirtækja væru rannsakaðar. Greindi ráðherra frá ráðgjöf Evu Jolie við skipulag rannsókna á efnahagsbrotum og hlutverki sérstaks saksóknara í því sambandi. Gat ráðherra þess að við alþjóðlegt vandamál væri að glíma, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, hér væru engin landamæri. Viðraði innanríkisráðherra þá hugmynd að með sama hætti og alþjóðasamfélagið hefur sett á fót sameiginlegar stofnanir til að taka á glæpum, t.d. stríðsglæpadómstól, væri full ástæða til að ræða grundvöll fyrir því að komið yrði á fót sérstökum alþjóðadómstól eða rannsóknarteymi sem aðstoða myndi ríki við að vinna gegn og taka á fjármálaglæpum.

Innanríkisráðherra hélt fyrirlestur í háskóla í Nýju Dehli

Í lok fundar lýsti Yogesh Tyagi, rektor skólans, hrifningu sinni á Íslendingum meðal annars fyrir baráttu þeirra fyrir réttindum smærri ríkja í alþjóðasamfélaginu en hann rannsakaði þorskastríð Íslendinga, baráttu þeirra fyrir stækkun landhelginnar og áhrif hennar á þróun viðhorfa í alþjóðarétti. Alls munu um 90 nemendur og kennarar hafa hlýtt á ræðu innanríkisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum