Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Ný reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða

Innanríkisráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða sem mun leysa af hólmi reglugerð nr. 326/1996 um könnun hjónavígsluskilyrða. Tekur hún gildi 1. febrúar næstkomandi.

Í nýju reglugerðinni er ekki lengur gerður áskilnaður um að ráðuneytið meti gildi lögskilnaðargagna þegar lögskilnaður hefur verið veittur utan Norðurlandanna.

  • Í þeim tilfellum þegar annað eða bæði hjónaefna eiga ekki lögheimili hér á landi skulu sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annast könnun á hjónavígsluskilyrðum í samræmi við 1. mgr. 14. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í þeim tilvikum myndu sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra jafnframt meta gildi lögskilnaðargagna þegar lögskilnaður hefur verið veittur utan Norðurlanda.
  • Í þeim tilvikum þegar bæði hjónaefni eiga lögheimili hér á landi og annað eða bæði hafa fengið lögskilnað utan Norðurlandanna ber könnunarmanni að senda Þjóðskrá Íslands gögnin til skráningar hafi það ekki verið gert.

Þá er ekki gerður áskilnaður í reglugerðinni um að könnunarvottorð verði aðeins gefið út fyrir hjónaefni með erlendan ríkisborgararétt, annan en norrænan, að það dveljist löglega í landinu. Einnig er að finna nánari reglur um form gagna sem lögð eru fyrir könnunarmann ásamt öðrum nauðsynlegum breytingum vegna lagabreytinga sem hafa átt sér stað.

Drögin voru send til umsagnar sýslumanna, Biskupsstofu, forstöðumanna skráðra trúfélaga, Þjóðskrár Íslands og Hagstofu Íslands. Voru þær umsagnir sem bárust hafðar til hliðsjónar við vinnslu reglugerðarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum