Hoppa yfir valmynd
17. desember 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Umsóknarfrestur um embætti forstjóra Þjóðskrár Íslands til 13. janúar

Embætti forstjóra Þjóðskrár Íslands hefur verið auglýst laust til umsóknar og er umsóknarfrestur til og með 13. janúar. Forstjóri Þjóðskrár Íslands stýrir starfi stofnunarinnar og er ábyrgur gagnvart ráðherra og stjórn á starfsemi hennar.

Þjóðskrá fer með yfirstjórn fasteignaskráningar, heldur fasteignaskrá, metur fasteignir fasteignamati og brunabótamati og annast rannsóknir á fasteignamarkaðnum. Stofnunin annast almannaskráningu, heldur þjóðskrá og sér um útgáfu vottorða, skilríkja og vegabréfa. Þjóðskrá rekur gáttina island.is og stuðlar að aukinni rafrænni stjórnsýslu í samvinnu við önnur stjórnvöld og veitir þeim þjónustu á því sviði.

Forstjóri Þjóðskrár Íslands skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Að minnsta kosti fimm ára starfsreynsla í stjórnun er æskileg, sem og reynsla í opinberri stjórnsýslu. Viðkomandi þarf að hafa reynslu af alþjóðasamstarfi og mjög gott vald á íslensku og ensku og þekking á einu norðurlandamáli er æskileg. Áhersla er lögð á styrkleika í samvinnu og samskiptum sem og frumkvæði og metnaði til að ná árangri í starfi. Með umsókn skal skila inn framtíðarsýn umsækjanda á starfsemi Þjóðskrár.

Konur jafnt sem karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Innanríkisráðherra skipar forstjóra Þjóðskrár Íslands til fimm ára í senn, sbr. 8. gr. laga, nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið frá og með 1. maí 2013. Um laun og starfskjör forstjóra fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð nr. 47/2006.

Upplýsingar um starfið veitir Guðný E. Ingadóttir, mannauðsstjóri í innanríkisráðuneytinu, í síma 545 9000. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík eða á [email protected].

Umsóknarfrestur er til og með 13. janúar 2013. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum