Hoppa yfir valmynd
5. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kortleggur hættu vegna eldgosa í samstarfi við vísindamenn

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum á síðustu dögum um hættu af eldsumbrotum á höfuðborgarsvæðinu og nýlega áhættuskoðun almannavarna tekur innanríkisráðuneytið eftirfarandi fram:

Í umræddum fréttum er vísað í Áhættuskoðun almannavarna 2011 sem unnin var í samstarfi við allar almannavarnanefndir á Íslandi og kom út í byrjun árs 2012. Þar er kortlögð sú hætta sem talin er ógna lífi, heilsu, umhverfi eða eignum á Íslandi. Markmiðið var að ná saman yfirliti yfir þær hættur sem talið var að þyrfti að skoða sérstaklega. Niðurstöður áhættuskoðunarinnar voru flokkaðar eftir landsvæðum og er nú unnið að forgangsröðun verkefna samkvæmt ráðgjöf vísindamanna og í samræmi við þá fjármuni sem varið er til almannavarna.

Hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra starfa nú sjö sérfræðingar á sviði almannavarna. Deildin vinnur náið og skipulega með vísindamönnum jarðvísindastofnunar HÍ og Veðurstofunnar, sem hafa á að skipa fremstu vísindamönnum í heiminum á sínu sviði. Unnið er m.a. að gerð heildstæðs hættumats vegna eldgosa á Íslandi og rannsóknum á eldgosahættu og vöktun eldfjalla í samstarfi við fleiri aðila, t.d. Vegagerðina og Landgræðslu ríkisins. Í fyrsta forgangi eru eldstöðvar undir jökli, sprengigos, eldgosahætta í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi og þar með mat á hættu sem steðjað getur að höfuðborgarsvæðinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum