Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þriðja ár NorReg fjármagnað – Nærandi ferðaþjónusta til framtíðar

Mynd úr skýrslu um Nærandi ferðaþjónustu - sjá hér að neðan  - mynd

Norræna ráðherranefndin hefur samþykkt fjármögnun fyrir verkefnið „Nordic Regenerative Tourism“ (NorReg) í þriðja sinn. Verkefnið, sem ber íslenska heitið Nærandi ferðaþjónusta á Norðurlöndum, er stýrt af Íslenska ferðaklasanum fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Verkefnið er þróunarverkefni, fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni, sem hefur það að meginmarkmiði að styðja lítil og örsmá fyrirtæki (e. small and micro-sized enterprizes) í ferðaþjónustu við innleiðingu nærandi ferðaþjónustu í starfsemi sinni.


Hvað er nærandi ferðaþjónusta?

Nærandi ferðaþjónusta (e. regenerative tourism) er nálgun á uppbyggingu og þróun innan ferðaþjónustu með velsæld og jafnvægi að leiðarljósi. Íbúar, starfsmenn í ferðaþjónustu og gestir eru öll hluti af sama vistkerfinu og hafa því óhjákvæmilega áhrif á umhverfið og verða fyrir áhrifum af því.

Markmið nærandi ferðaþjónustu er að ferðaþjónustufyrirtæki og gestir þeirra hafi jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og náttúru en einnig að rekstur fyrirtækjanna og framboð afþreyingar og þjónustu geri gestum áfangastaðarins kleift og ljúft að taka þátt í að styrkja og leggja til áfangastaðarins til framtíðar. Markmiðið er að skilja við áfangastaðinn í betra ásigkomulagi en áður en til heimsóknarinnar kom. Það er hægt með markvissum leiðbeiningum og verkefnum innan áfangastaða sem aðstoða gesti við að láta jákvætt að sér leiða.


Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á eftirfarandi þætti:

• Innleiðing á Fyrsta skrefi (e. First Mile) aðferðafræðinnar í starfsemi fyrirtækja, en leiðarljós hennar er stuðningur til þess að stíga fyrstu skrefin í átt að sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu.

• Þátttaka gesta í lýðvisindum sem liður í afþreyingu og upplifun. Slíkt skapar tækifæri til þess að leggja af mörkum til staðarins og auðlindanna sem notið er í heimsókninni.

• Matsaðferðir fyrir nærandi ferðaþjónustu:
      Stuðningur við stefnumörkun, til að tryggja að sjónarmið nærandi ferðaþjónustu fái vægi í stefnumótun á öllum stigum og meðal allra hagsmunaaðila

• Tengslamyndun og skoðanaskipti



Á þriðja og síðasta þróunarári sínu mun NorReg leggja áherslu á að fjölga þátttakendum og bjóða upp á rafrænan vettvang fyrir skoðanaskipti, sem og frekari þróun stuðningsleiða og gagnamiðlunar.

Einnig verður lögð áhersla á að efla fyrirtækin enn frekar þegar kemur að vöruþróun og virkri þátttöku í verkefninu með því að bjóða uppá fræðslu í gegnum vinnustofur, opna verkfærakistur og nýja hugmyndabanka. Samvinna Norðurlandanna í þessu verkefni er einstök og fá fyrirtækin tækifæri á að spegla sig í hvert öðru og deila sinni þekkingu og reynslu.

Norræna ráðherranefndin hefur stutt verkefnið frá upphafi og og er framlag þeirra mikils metið. Menningar- og viðskiptaráðuneytið er eigandi verkefnisins en lykilþátttakendur ásamt Íslenska ferðaklasanum eru Visit Þórshöfn í Færeyjum, Svæðisgarðurinn Snæfellsnesi, Visit Lofoten í Noregi, Destination Trekanten og Dansk Kyst og Naturturisme í Danmörku, og Visit Skánn í Svíþjóð.

Tengiliður verkefnisins er Ólöf Ýrr Atladóttir, [email protected].



Í desember sl. kom út skýrsla um Nærandi Ferðaþjónustu sem má nálgast hér.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum