Hoppa yfir valmynd
8. maí 2023 Matvælaráðuneytið

Veiðar á stórhvelum samræmast ekki markmiðum laga um velferð dýra skv. niðurstöðu Matvælastofnunar

Sumarið 2022 setti matvælaráðherra reglugerð sem veitti Matvælastofnun heimild til að viðhafa reglubundið eftirlit við hvalveiðar. Tilgangur eftirlitsins var að stuðla bættri velferð dýra við hvalveiðar.

Niðurstaða Matvælastofnunar á grundvelli þeirra gagna sem söfnuðust við eftirlitið er að óásættanlega hátt hlutfall þeirra veiddu hvala sem eftirlitið náði til, þjáðist við aflífun.

Stofnunin telur veiðar á stórhvelum því ekki samræmast markmiðum laga um velferð dýra og vekur það spurningar um framtíð starfseminnar. Matvælastofnun felur nú fagráði um velferð dýra að rýna fyrirliggjandi gögn og meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra.

Samkvæmt lögunum er þeim sem stunda veiðar skylt að standa að þeim þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Þeirra skylda er að bregðast við eftirlitsskýrslunni og tryggja að gætt sé að dýravelferð við veiðarnar og ábyrgðin ótvíræð þegar niðurstaðan liggur nú fyrir.

Matvælastofnun veitir frekari upplýsingar, eftirlitsskýrslu stofnunarinnar má nálgast hér.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum