Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Samgönguþing 19. febrúar 2015 í Reykjavík

Samgönguþing fimmtudaginn 19. febrúar 2015 í Reykjavík
Haldið í Norðurljósasal Hörpu klukkan 13 til 17


Ágætu fulltrúar á samgönguþingi

Verið velkomin á þennan mikilvæga fund þar sem við förum yfir stefnu og áherslur í samgönguáætlun framtíðarinnar. Við fjöllum í dag fyrst og fremst  um tólf ára áætlun 2015 til 2026 en einnig um fjögurra ára verkefnaáætlun 2015 til 2018 sem ætlað er að stuðla að markmiðum samgönguáætlunar. Í ávarpi mínu mun ég ræða um helstu áherslur sem ég hef lagt fyrir samgönguráð nú í lokaferlinum. Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs, fjallar á eftir nánar um vinnu ráðsins við gerð samgönguáætlunar og það víðtæka samráðsferli sem þar er viðhaft.

Ég vil í upphafi leggja áherslu á mikilvægi þess að við horfum á samgöngukerfið allt sem eina heild. Samgöngukerfi okkar á að þjóna íbúum landsins og atvinnulífinu og hlutverk okkar hverju sinni er að leita leiða til að styrkja núverandi kerfi, útvíkka það og tryggja að það geti sinnt bæði öryggis- og þjónustuhlutverki sínu.

Við höfum á undanförnum árum séð margföldun í aukningu ferðamanna til landsins og hefur sú atvinnugrein reynst okkur happafengur eftir þrengingar síðustu ára. Samgöngukerfi okkar í heild er í raun tannhjól í þeirri vél sem atvinnugreinin er og mikilvægur hlekkur í atvinnuuppbyggingu í landinu. Þessi mikli straumur fólks hefur fært aukið álag á vegakerfið með tilheyrandi skemmdum – og því er nauðsynlegt að horfa sérstaklega til viðhalds og uppbyggingar kerfisins í heild. Þetta samspil innviða samgöngukerfa, atvinnulífs og byggðar í landinu er hornsteinn þeirrar stefnu sem ég stend fyrir.

Fjármögnun

Fjármögnun verkefna samgönguáætlunar er einna erfiðasti þátturinn í því að leggja fram metnaðarfulla áætlun enda vitum við að það er erfitt að sameina áætlun um víðtæk og nauðsynleg verkefni og þá stöðu sem ríkissjóður horfist í augu við þessi árin. Á slíkum tímum er enn brýnna en áður að forgangsraða en ég geri mér grein fyrir að forgangsröðun er erfið þegar við sjáum  langan lista af verkefnum sem öll eru nauðsynleg. Gildir einu hvort við horfum til uppbyggingar og nýrra framkvæmda, endurnýjunar eldri samgöngumannvirkja, viðhalds eða þjónustu og að ég tali nú ekki um öryggismál.

Við erum öll sammála um að samgönguframkvæmdir í víðu samhengi eru yfirleitt arðbærustu framkvæmdir sem við fjárfestum í. Bættar samgöngur greiða fyrir möguleikum íbúa landsins að sækja þjónustu, skóla og að stunda atvinnu.  Bættar samgöngur greiða fyrir  aðgengi atvinnufyrirtækja að hæfu starfsfólki og að koma vörum á markað.  Þær stækka atvinnu- og skólasóknarsvæði og þannig auka hagsæld, skapa ný tækifæri og tryggja byggðir.  Samgönguframkvæmdir eru þjóðþrifaverkefni.

Við þurfum að kanna aðkomu einkaaðila í einhverri mynd að uppbyggingu og rekstri innviða landsins, sérstaklega þegar kemur að stórum nýframkvæmdum. Það getur meðal annars orðið með samstarfi við opinbera aðila. Við þurfum að skoða fýsileika samstarfs einkaaðila og hins opinbera þar sem ríkið leggur fram fé í þeim tilgangi að tryggja arðsemi verkefna. Í þeim tilvikum þar sem slíkri samvinnu ríkis og einkaaðila verður viðkomið,  þarf að kanna með gjaldtöku fyrir afnot af nýjum mannvirkjum ef það má verða til þess að hægt verði að ráðast í framkvæmdina.

Á síðustu árum hefur orðið sú jákvæða þróun að fjöldi vistvænna og sparneytinna ökutækja hefur aukist hratt. Að sama skapi hefur dregið úr þeim gjöldum sem verið hafa undirstaða fjármögnunar framkvæmda, viðhalds og þjónustu vegakerfisins. Öll þessi ágætu farartæki þarfnast vega til að aka á því er ljóst að á tímabilinu verður komið á nýju kerfi þjónustugjalda ásamt því sem núverandi kerfi eldsneytisskatta verður aðlagað að nýjum veruleika svo í það minnsta að jafnræðis verði gætt í gjaldtöku fyrir notkun á samgöngukerfinu.

Hér á eftir mun ég fara yfir helstu atriði í áherslum mínum sem ég hef kynnt í bréfi til samgönguráðs.

Flugsamgöngur innanlands

Innanlandsflugið þjónar afar mikilvægum almanna- og öryggishagsmunum. Þetta kom glöggt fram í niðurstöðum félagshagfræðilegrar greiningar sem unnin var í samræmi við gildandi samgönguáætlun. Með hliðsjón af þeim niðurstöðum var samgönguráði falið að móta stefnu um þjónustu sem atvinnuvegum og almenningi skuli standa til boða þannig að rekstur innanlandskerfisins verði sem bestur og ávinningur fyrir land og þjóð verði sem mestur. Ég legg áherslu á að horft verði sérstaklega til samþættingar á samgöngukerfi á landi og í lofti. Við þurfum því að skilgreina hvar ríkið á að koma inní og styrkja þetta svið almenningssamgangna og hvar markaðurinn getur sjálfur séð um þessa þjónustu. Einnig er mikilvægt að skilgreina hlutverk einstakra flugvalla og lendingarstaða  út frá þjónustu- og öryggishlutverki þeirra og móta tillögur um forgangsröðun fjármuna á þeim grundvelli.

Almenningssamgöngur á landi

Í gildi eru samningar við landshlutasamtök sveitarfélaga um fjárstuðning við almenningssamgöngur á viðkomandi svæðum. Lokið er úttekt á rekstri landshlutasamtakanna á almenningssamgöngum á grunni þessa samninga. Endurskoða skal aðkomu ríkisins að þessum rekstri með það að markmiði að fjárframlög ríkisins stuðli að jafnræði og heildstæðu kerfi almenningssamgangna um allt land. Í því sambandi skal taka tillit til sérstaks hlutverks flugsamgangna í heildarkerfinu, sem er að tryggja að notendur komist á áfangastað og til baka samdægurs. 

Einnig er miðað við að samningur ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verði endurskoðaður á tímabilinu með hliðsjón af árangri og framkvæmdum sem sveitarfélögin leita eftir að ráðist verði í. Með samningi innanríkisráðherra við samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 var veitt fé úr ríkissjóði í uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegn frestun ákveðinna stórframkvæmda í vegamálum. Hann skal endurskoðaður á tveggja ára fresti og er nú komið að því að það verði gert.

Í ljósi áherslu minnar á samþættingu innviða og atvinnulífs er samgönguráði falið að leggja heildstætt mat á það hvaða þættir í samgöngukerfinu þarf að skoða sérstaklega með tilliti til þróunar ferðaþjónustunnar. Þá er samgönguráði falið að skilgreina þá hluta samgöngukerfisins sem þjóna fjölmennum ferðamannastöðum, kanna þörf á uppbyggingu þeirra og mögulegar leiðir til að fjármagna hana. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á nauðsyn framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og bendi sérstaklega á Sundarbraut og Vesturlandsveg.

Öryggi og umhverfi

Að síðustu vil ég fjalla um öryggismál og umhverfismál. Hluti af samönguáætlun er öryggisáætlun allra greina samgangna sem samgönguráð skal einnig vinna. Öryggi í samgöngum á Íslandi er með því besta sem þekkist um víða veröld og er þar sama hvort litið er til siglinga, flugs eða umferðar. Samt sem áður er ennþá verk að vinna á þessum sviðum. Við verðum sífellt að halda vöku okkar. Og við getum líka metið áhættu í samgöngum og gripið til margs konar aðgerða til að draga sem mest úr þeirri áhættu sem siglingar, flug og akstur hafa í för með sér. Rannsóknir almennt eru mikilvægar fyrir áhættumat auk þess sem rannsóknarnefnd samgönguslysa vinnur mikilvæga vinnu við að greina slys og óhöpp og benda á hvað má betur fara á þessum sviðum öllum. Öryggisáætlun allra greina samgangna er byggð á tölfræðirannsóknum og er ætlað að stýra kröftunum til þeirra verkefna sem best undirbyggja samgönguöryggi. Við núverandi mikinn vöxt  ferðaþjónustunnarvil ég nefna sérstaklega að litið verði  mikilvægi þess að okkar erlendu gestir búi við öruggar samgöngur

Þá vil ég minna á að rétt er að leita fjölbreyttra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að stuðla að vistvænum samgöngum eins og unnt er.. Í því sambandi skal horft til ólíkra samgöngumáta og ólíkra orkugjafa. Samgönguáætlun hefur í för með sér ákveðin umhverfisáhrif – um það er engum blöðum að fletta. Þessi áhrif eru metin sérstaklega og lýkur því ferli á næstu vikum.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég hef nú farið yfir helstu áherslur ráðherra varðandi samgönguáætlun. Framundan er lokasprettur í mótun samgönguáætlunar næstu ára. Ég er sannfærð um að við erum hér á réttri leið. Við viljum gera sem mest og sem víðast í uppbyggingu samgöngumannvirkja og þjónustu samgöngukerfisins. Fjármagnið ræður hér miklu en metnaðinn vantar ekki. Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða....

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum