Hoppa yfir valmynd
29. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um breytingar á hegningarlögum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Eru annars vegar lagðar til breytingar á íslenskum refsiákvæðum sem eru nauðsynlegar svo Ísland geti fullgilt samning Evrópuráðsins frá árinu 2011 um forvarnir og barráttu gegn ofbeldi gegn konum. Hins vegar er lagt til að sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum (heimilisofbeldi) verði sett í almenn hegningarlög. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 16. október næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum: Lagt er til að lögfest verði ákvæði þar sem áhersla er lögð á að í ofbeldi í nánum samböndum felist ekki einungis samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Athyglin er þannig færð á það ógnar- og óttaástand sem getur skapast og jafnframt á þá viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmátt sem þolandi upplifir við slíkar aðstæður.

Sérstakt ákvæði um þvingaða hjúskaparstofnun: Lagt er til að lögfest verði ákvæði um þvingaða hjúskaparstofnun sem geri það sérstaklega refsivert að neyða annan mann til að ganga í hjúskap eða undir aðra sambærilega vígslu sem ekki hefur gildi að lögum.

Að auki er að finna í frumvarpinu tillögur að breytingum á lögsögu- og fyrningarreglum almennra hegningarlaga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum