Hoppa yfir valmynd
10. október 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra heimsótti Fangelsismálastofun og Litla-Hraun

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í dag Fangelsismálastofnun ríkisins í Reykjavík og fangelsið að Litla-Hrauni við Eyrarbakka ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Páll E. Winkel fangelsismálastjóri og samstarfsmenn hans og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, skýrðu frá starfseminni og því sem framundan er í starfinu.

Innanríkisráðherra heimsótti Litla-Hraun og Fangelsismálastofnun í dag.
Innanríkisráðherra heimsótti Litla-Hraun og Fangelsismálastofnun í dag.

Fangelsi landsins eru í dag 6 að tölu og alls eru fangarýmin 165. Litla-Hraun er aðal fangelsi landsins og þar eru rými fyrir 87 fanga en starfsmenn á Litla-Hrauni og að Sogni eru nærri 70. Mikill árangur hefur náðst í endurhæfingu fanga og er Ísland nú annað í röðinni á Norðurlöndunum yfir lægstu endurkomutíðni fanga. Páll sagði að frá hruni 2008 hefði fjárveiting til stofnunarinnar lækkað um 20% en hann kvaðst stoltur af því að tekist hefði að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Hann kvaðst horfa björtum augum til framtíðarinnar og að menn horfðu til þess að hægt yrði að leggja af tvö löngu úr sér gengin fangelsi með tilkomu nýs fangelsis á Hólmsheiði.

Margrét Frímannsdóttir sýndi ráðherra húsakostinn á Litla-Hrauni og lýsti hún ánægju sinni með að ráðherra skyldi heimsækja staðinn og kynna sér starfsemina. Fangar á Litla-Hrauni geta sinnt margs konar störfum en nokkuð hefur dregið úr umfangi verkefna meðal annars á sviði númeragerðar fyrir bíla. Þá sagði hún að æ fleiri fangar stunduðu nám meðan á refsisvist stæði og  það væri mjög ánægjuleg þróun en þar nytu fangar góðrar þjónustu frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði augljóst að starfsfólk á Litla-Hrauni ynni gott og mikilvægt starf undir stjórn Margrétar sem hún sagði eiga miklar þakkir skildar fyrir. Hún sagði breytingar og uppbyggingu framundan í málefnum fanga meðal annars með tilkomu fangelsis á Hólmsheiði. Hún lagði einnig áherslu á að starfsemin á Litla-Hrauni yrði jafn mikilvæg eftir sem áður og nauðsynlegt væri að halda áfram að styrkja hana í hvívetna.

Innanríkisráðherra kynnti sér starfsemina á Litla-Hrauni í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum