Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2011 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um skráð trúfélög til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999. Markmið breytinganna er að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga og að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra. Unnt er að senda athugasemdir við frumvarpsdrögin á netfangið [email protected] til 14. nóvember.

Auk þess að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og jafna þannig stöðu umræddra félaga á öllum sviðum samfélagsins. Með frumvarpinu verður meðal annars  heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum.

Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:

  • Staða skráðra lífsskoðunarfélaga verður jöfn stöðu skráðra trúfélaga.
  • Gerð eru sérstök sérstök skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags.
  • Ráðherra leitar álits sömu nefndar og þegar um er að ræða trúfélög og lífsskoðunarfélög en lagt er til að nefndin verði styrkt með því að bæta við fjórða fulltrúanum í nefndina. Skal sá nefndarmaður vera tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.
  • Forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Tilnefndir einstaklingar skulu starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns.
  • Lagt er til að barn geti frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:

1.  Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess. Sama gildir ef foreldrar eru utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

2.  Ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.

3.  Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess. Sama gildir ef foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

Til þess að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins eru í frumvarpinu einnig lagðar til breytingar á lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, hjúskaparlögum nr. 31/1993, lögum um mannanöfn nr. 45/1996, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962, lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005, lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum