Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2008 Dómsmálaráðuneytið

GRECO, samtök ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu, samþykkja tvær skýrslur um Ísland

GRECO, samtök ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu, samþykktu á fundi sínum 4. apríl síðastliðinn tvær skýrslur um Ísland; annars vegar um innleiðingu á mútuákvæðum Evrópuráðssamnings gegn spillingu á sviði refsiréttar og hins vegar um gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi á Íslandi.

GRECO, samtök ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu, samþykktu á fundi sínum 4. apríl síðastliðinn tvær skýrslur um Ísland. Önnur þeirra fjallar um innleiðingu á mútuákvæðum Evrópuráðssamnings gegn spillingu á sviði refsiréttar. Hin skýrslan fjallar um gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra lagði á ríkisstjórnarfundi í morgun fram minnisblað þar sem farið er yfir efni skýrslnanna og þau atriði sem lagt er til að stjórnvöld bregðist við.

Í skýrslu GRECO um innleiðingu mútuákvæða Evrópuráðssamnings gegn spillingu á sviði refsiréttar kemur m.a. fram að íslensk löggjöf sé í megindráttum í samræmi við þær skuldbindingar, sem leiða megi af samningi Evrópuráðsins um málið. Þó megi bæta úr nokkrum atriðum og beinir GRECO tilmælum til stjórnvalda í nokkrum liðum þar um, s.s. að auka refsingar vegna mútubrota í starfsemi einkaaðila. Mikilvægt sé að þjálfa lögreglu í að rannsaka mútubrot og leggja aukna áherslu á rannsókn, saksókn og refsingu fyrir slík brot. Auk þess þurfi að tryggja að ákvæði um mútubrot í almennum hegningarlögum nái einnig til alþingismanna. Þá þurfi að skýra með viðeigandi hætti hvað skuli teljast vera viðeigandi og óviðeigandi gjafir í sambandi við mútubrot. Óskað er eftir skýrslu frá íslenskum stjórnvöldum ekki síðar en 31. október 2009 um það hvernig hafi gengið að hrinda tilmælunum í framkvæmd.

Því er fagnað í skýrslu GRECO um gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi hér á landi að sett hafi verið lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Þau endurspegli í stórum dráttum kröfur Evrópuráðsins eins og þær birtast í tilmælum nr. (2003)4 um sameiginlegar reglur gegn spillingu í fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu. Beint er nokkrum tilmælum til stjórnvalda, m.a. að settar verði reglur sem tryggi gagnsæi fjármögnunar framboða til forsetakosninga. Þá verði leitað leiða til að upplýsa kjósendur um fjármögnun kosningabaráttu áður en kosningar fara fram. Óskað er eftir skýrslu frá íslenskum stjórnvöldum ekki síðar en 31. október 2009 um það hvernig hafi gengið að hrinda tilmælunum í framkvæmd.

Skýrslurnar eru liður í 3. úttekt á vegum GRECO og eru þær byggðar á heimsókn matsmanna í nóvember 2007. Fundi GRECO sátu fyrir Íslands hönd fulltrúar forsætisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

Minnisblað dóms- og kirkjumálaráðherra.

Skýrsla GRECO um innleiðingu mútuákvæða Evrópuráðssamnings gegn spillingu á sviði refsiréttar.

Skýrsla GRECO um gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi á Íslandi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum