Hoppa yfir valmynd

29 Fjölskyldumál

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Forsætisráðuneytið
Heilbrigðisráðuneytið
Mennta- og barnamálaráðuneytið
Dómsmálaráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, forsætisráðherra og dómsmálaráðherra.

Málefnasviðið skiptist í sjö málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

 

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Aðbúnaður og réttindi barna eru ávallt í fyrirrúmi. Byggt verður upp samfélag þar sem fjölskyldur og börn eru hjartað í kerfinu. Forsendur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga að vera rauður þráður í starfsemi hins opinbera og endurspeglast í viðhorfum og ákvörðunum þeirra sem vinna með og fyrir börn á einn eða annan hátt. Sjónarmið og hagsmunir barna eru þannig leiðarstef í allri vinnu stjórnvalda. Áfram verður stutt við foreldra með öflugu fæðingarorlofskerfi.

Aukin áhersla verður lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir frá fyrstu árum ævinnar sem miða að því að valdefla börn og fjölskyldur þeirra, byggja upp seiglu og koma í veg fyrir áföll og erfiðleika þar sem það er hægt. Með því að veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu við hæfi án hindrana er stuðlað lífsgæðum barna og barnafjölskylda og samfélagslegum ávinningi til framtíðar. Í því skyni er stefnt að því að fullnægjandi þjónusta og úrræði þvert á kerfi verði í boði þegar þeirra er þörf og að þjónustukerfi komi saman til að tryggja samþætta þjónustu við börn og barnafjölskyldur í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Íslenska þjóðin er að eldast og með hliðsjón af því þarf að þróa fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir sem gera fólki kleift að búa sem lengst heima. Stefnt verður að samþættingu þjónustu fyrir eldra fólk svo að heimahjúkrun og önnur stuðningsþjónusta vinni saman. Markviss, samþætt og einstaklingsmiðuð stuðningsþjónusta veitir eldra fólki fleiri tækifæri til að njóta lífsgæða á efri árum og lifa sjálfstæðu lífi sem lengst.

Áfram verður unnið að því að jafna tækifæri til félagslegrar þátttöku og virkni í íslensku samfélagi óháð þjóðerni og uppruna.

Fjármögnun

Fjárheimildir málasviðsins hækka um 9,2 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Helst ber að nefna aðgerðir stjórnvalda til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði í mars 2024. Vegna þeirra hækka framlög til barnabóta árið 2025 um 5 ma.kr. Sömuleiðis hækkar hámarksgreiðsla úr fæðingarorlofssjóði 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og 1. janúar 2026 í 900.000 kr. Heildaraukning framlaga til fæðingarorlofssjóðs er um 8 ma.kr. Á tímabili áætlunarinnar falla niður tímabundin framlög hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti vegna félagslegra aðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, í heildina um 900 m.kr. Einnig falla niður tímabundin framlög að fjárhæð 2.750 m.kr. vegna málefna innflytjenda og flóttafólks.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

 

Helstu áherslur 2025–2029

Fjárfest í fólki

 

29.1 barnabætur

Verkefni

Barnabætur eru tekjutengdar bætur sem greiddar eru með börnum yngri en 18 ára. Fjárhæð barnabóta ræðst af fjölda og aldri barna á heimili, hjúskaparstöðu foreldra og tekna þeirra. Barnabætur eru tekjutengdar til að ná því fram að stuðningur barnabóta sé mestur hjá þeim fjölskyldum sem þurfa mest á stuðningi að halda en meginmarkmið barnabóta er að jafna kjör barnafjölskyldna og vinna gegn fátækt meðal barna. Barnabætur byggjast á A-lið 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og annast Skatturinn umsýslu barnabóta.

Undanfarin ár hefur barnabótakerfið verið eflt og einfaldað. Sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings langtímakjarasamningum á vinnumarkaði í mars 2024 var m.a.  ákveðið að efla barnabótakerfið enn frekar á árunum 2024 og 2025 sem felur í sér hærri barnabætur, hærri skerðingarmörk og lægri skerðingarhlutföll. Af því leiðir að þeir sem fá barnabætur fá hærri bætur og um 10 þúsund fleiri foreldrar munu eiga tilkall til þeirra. Gera má ráð fyrir að um 75% þeirra sem eigi börn undir 18 ára aldri muni eiga tilkall til barnabóta á árunum 2024 og 2025.

Helstu áskoranir

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er markmið stjórnvalda að tryggja betur fjárhagslega stöðu barnafólks í gegnum skatta og bótakerfið og sérstaklega er ætlunin að efla barnabótakerfið. Áskoranir tengdar málaflokknum eru annars vegar að auka stuðning við tekjulága foreldra þar sem megintilgangur barnabótakerfisins er að vinna gegn fátækt meðal barna og því mikilvægt að líta til þess í hve miklum mæli barnabætur auki ráðstöfunartekjur tekjulægri fjölskyldna. Hins vegar að auka einföldun og skilvirkni á barnabótakerfinu en jafnvægi þarf að ríkja milli þess að tekjutengingar verði til þess að stuðningurinn fari til þeirra tekjulægri en á sama tíma hafi skerðingarhlutföll tekjutenginga ekki neikvæð áhrif á of marga. Auk þess breytist lýðfræðileg þróun yfir tíma sem hefur áhrif á fjölda barna sem eiga tilkall til barnabóta. Á skömmum tíma geta fjölskylduaðstæður breyst, tekjur og þarfir. Mikilvægt er því að barnabótakerfið sé í sífelldri endurskoðun svo það fangi það markmið sitt að ná til þeirra sem þurfa.

Tækifæri til umbóta

Í núverandi barnabótakerfi tekur greiðsla barnabóta mið af fjölda barna í lok síðastliðins árs. Foreldrar janúarbarna þurfa því að bíða í þrettán mánuði þar til barnabætur eru greiddar út í fyrsta sinn í febrúar ári síðar. Tækifæri er til umbóta með því að koma til móts við þennan hóp á þann hátt að tímanleiki barnabóta verði aukinn og biðtími eftir þeim verði aldrei lengri en fjórir mánuðir. Nánar er fjallað um tækifæri til umbóta í fjármálaáætlun 2024–28 bls. 372–373.

Áhættuþættir

Verði ekki brugðist við þeim áskorunum sem við blasa og ekki ráðist í fyrirhuguð umbótaverkefni má gera ráð fyrir því að barnabótakerfið nái ekki markmiðum sínum að vera markviss stuðningur við lífskjör lág- og millitekjufólks.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Auka stuðning við tekjulága foreldra.

1.2

Hlutfall barna í neðstu fimm tekjutíundum af heildarfjölda barna sem barnabætur eru ákvarðaðar fyrir.

7,4%

7,0%

6,5%

Gagnsætt og fyrirsjáanlegt barnabótakerfi.

1.2

Fjöldi ákvörðunarþátta við ákvörðun barnabóta.

13

7

5

29.2 fæðingarorlof

Verkefni

Lög nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar en samkvæmt lögunum fellur réttur til fæðingarorlofs niður er barn nær 24 mánaða aldri. Fæðingarorlofssjóður annast greiðslur til foreldra sem nýta rétt sinn til greiðslna í fæðingarorlofi á grundvelli laganna og er sjóðurinn í vörslu Vinnumálastofnunar.

Helstu áskoranir

Helsta áskorun innan fæðingarorlofskerfisins er að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi án þess að það hafi í för með sér verulega röskun hvað varðar þátttöku hvors foreldris um sig á vinnumarkaði. Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof er tvíþætt, annars vegar að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf en reynslan hefur sýnt að einn af lykilþáttum þess að báðir foreldrar eigi jafna möguleika á að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf er að þeir eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs.

Það er jafnframt ein helsta áskorunin innan fæðingarorlofskerfisins að tryggja að röskun á tekjum foreldra verði sem minnst þegar þeir þurfa að leggja niður störf vegna fjölgunar í fjölskyldunni. Í því sambandi má ætla að tekjur fjölskyldunnar eigi stóran þátt í ákvarðanatöku foreldra í tengslum við nýtingu þeirra á rétti til fæðingarorlofs en almennt þykir mikilvægt að auka líkur á að foreldrar sjái hag í að fullnýta rétt sinn innan fæðingarorlofskerfisins.

Tækifæri til umbóta

Tölulegar upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að síðustu tólf ár hafi orðið hægfara breyting á hlutfallslegum fjölda feðra af fjölda mæðra sem nýtt hafa rétt sinn til fæðingarorlofs. Á árunum 2011–2015 stóð þetta hlutfall nokkuð í stað í um 81%. Í október 2016 hækkuðu mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi úr 370.000 kr. á mánuði í 500.000 kr. á mánuði. Gögn benda til þess að í kjölfarið hafi hlutfall feðra af mæðrum, sem nýttu rétt sinn til fæðingarorlofs, aukist en hlutfallið fór í 86,5% vegna fæðingarársins 2017. Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hækkuðu aftur fæðingarárið 2019 í 600.000 kr. á mánuði og í kjölfarið fór hlutfall umsókna feðra af umsóknum mæðra í 88% vegna fæðingarársins 2019. Hlutfallið breyttist ekki mikið milli áranna 2019 og 2020 en árið 2020 fór hlutfall umsókna feðra af umsóknum mæðra, sem nýttu rétt sinn til fæðingarorlofs, í 90%. Í ljósi framangreinds má ætla að í því skyni að viðhalda öflugu fæðingarorlofskerfi sé mikilvægt að mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra, sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs, haldi í við launaþróun í landinu þannig að foreldrar sjái hag í að fullnýta fæðingarorlofsréttinn og takmarki ekki nýtinguna vegna of mikillar röskunar á tekjum foreldra meðan á fæðingarorlofi stendur.

Í lok árs 2020 var undirritaður samstarfssamningur þáverandi félagsmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Háskóla Íslands til þriggja ára um samstarf vegna rannsóknarinnar Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum og hvar kynnu að vera tækifæri til breytinga. Niðurstöður rannsóknarinnar liggja enn ekki fyrir en gera má ráð fyrir að í niðurstöðunum gætu falist tækifæri til umbóta í fæðingarorlofskerfinu.

Í mars 2024 lögðu ríkisstjórn Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga sameiginlega fram aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Meðal þess sem þar kemur fram er að til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verði hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 úr 600.000 kr. á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. á mánuði.

Áhættuþættir

Helsti áhættuþáttur innan málaflokksins er að foreldrar, þá sérstaklega feður, sjái sér ekki fært að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en samkvæmt bráðabirgðatölum Vinnumálastofnunar hafa tæplega 90% feðra nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs vegna barna eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2022 og er hlutfallið tæplega 81% vegna fæðingarársins 2023. Um bráðabirgðatölur er að ræða þar sem foreldrar hafa 24 mánuði frá fæðingu barns til þess að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið 600.000 kr. á mánuði og hefur fjárhæðin verið  óbreytt frá árinu 2019. Með aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði í mars 2024 verða mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr sjóðnum hækkaðar þann 1. apríl 2024 í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Jöfn nýting foreldra á rétti til fæðingarorlofs.

8.8

Hlutfall umsókna feðra af umsóknum mæðra sem nýttu rétt sinn til fæðingarorlofs.

89,5%*

89,5%

89,5%

8.8

Fjöldi daga sem hvort foreldri nýtir í fæðingarorlofi.

Nýting mæðra 213 dagar og nýting feðra 131 dagur.**

Nýting feðra verði a.m.k. 135 dagar.

Nýting feðra verði a.m.k. 145 dagar.

*Um er að ræða nýtingu mæðra og feðra á rétti til fæðingarorlofs vegna barna sem fæddust árið 2021. Þar sem foreldrar hafa 24 mánuði til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs liggja einungis fyrir bráðabirgðatölur fyrir árin 2022 og 2023.

**Síðari mælikvarðinn kemur nýr inn frá fyrri fjármálaætlun til að ná fram víðtækara mati svo að ekki eingöngu sé skoðað hvort að feður nýti rétt sinn til töku fæðingarorlofs heldur einnig fjölda daga.  

29.3 bætur skv. Lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur

Málaflokkurinn tekur til greiðslna skv. lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Um er að ræða heimildargreiðslur sem eru háðar mati hverju sinni. Málaflokkurinn tekur til mæðra- og feðralauna og endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf. Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd málaflokksins. Að öðru leyti er eðli málaflokksins með þeim hætti að ekki er fjallað um markmið og mælikvarða varðandi starfsemi hans.

29.4 annar stuðningur við fjölskyldur og börn

Verkefni

Undir málaflokkinn falla verkefni hjá fjórum ráðuneytum. Af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis fellur framkvæmd þingsályktunar um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, framkvæmd laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og framkvæmd barnaverndarlaga, þ.m.t. framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Auk þess fellur starfsemi Barna- og fjölskyldustofu og Ráðgjafa- og greiningarstöðvar undir ábyrgðarsvið mennta- og barnamálaráðuneytis. Verkefni sem eru á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytis eru starfsemi umboðsmanns skuldara, starfsemi Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sorgarleyfi, umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Þingsályktun um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023–2027, Gott að eldast, tilheyrir einnig verkefnum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Starfsemi umboðsmanns barna fellur einnig undir málaflokkinn en embættið er á ábyrgð forsætisráðuneytisins. Að lokum falla útgjöld vegna meðlagsgreiðslna sem eru verkefni dómsmálaráðuneytisins, undir málaflokkinn. Að öðru leyti er vísað til ítarlegrar umfjöllunar á bls. 374 í fjármálaáætlun 2024–2028.

Helstu áskoranir

Í samræmi við stjórnarsáttmála og viljayfirlýsingu félags- og vinnumarkaðsráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara var samþykkt þingsályktun um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023–2027, Gott að eldast.

Áskoranir við aðgerðaáætlunina felast m.a. í því að um er að ræða fjölbreytta þjónustu sem veitt er á mörgum þjónustustigum af ríkinu, sveitarfélögum og einkaaðilum. Einstaklingurinn á að hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.

Ólíkt lífshlaup karla og kvenna hefur áhrif á tekjur og heilsu fólks á efri árum. Til dæmis lifa konur að jafnaði lengur en karlar en eiga færri ár við góða heilsu. Eldri karlar taka minni þátt í félagsstarfi eldra fólks en konur. Því eru margþættar kynjaáskoranir í þjónustu við eldra fólk sem hafa þarf í huga þegar endurskoðun á þjónustu við eldra fólk er hrint í framkvæmd og tækifæri til að draga úr kynjamun.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 eða svonefnd farsældarlög tóku gildi 1. janúar 2022. Meginmarkmið laganna er að búa til umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, þvert á kerfi, án hindrana.

Í stjórnarsáttmála er áhersla lögð á að gera enn betur í þjónustu við börn og ungmenni. Þar á meðal að tryggt verði að börn og barnafjölskyldur fái nauðsynlega þjónustu innan tiltekins ásættanlegs biðtíma, að staða barna og barnafjölskyldna sem lenda í áföllum verði styrkt, að áætlun með fyrirbyggjandi aðgerðum í þágu barna verði innleidd og að unnið verði að því að greina og endurskoða þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur fyrstu ár ævinnar með það að markmiði að auka þjónustu við þennan hóp. Falla þessar áherslur vel innan markmiða fyrrgreindrar farsældarlöggjafar. Til þess að þau markmið náist þarf með markvissum hætti að innleiða löggjöfina og það sem henni fylgir auk þess að tryggja fullnægjandi aðgengi að viðeigandi úrræðum sem börn og fjölskyldur þeirra þurfa.

Umboðsmaður barna safnar og birtir reglulega yfirlit yfir þann fjölda barna sem bíða eftir margvíslegri sérhæfðri þjónustu í samvinnu við ýmsa aðila. Upplýsingarnar eru uppfærðar reglulega til að fylgjast með þróuninni. Umboðsmaður barna mun halda áfram að kalla eftir þessum upplýsingum til þess að hægt sé að fylgjast með því hver staðan er hverju sinni. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns barna að stuðla að því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé virtur og innleiddur að fullu, sbr. d-lið, 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994.

Tækifæri til umbóta

Markmið aðgerðaáætlunar um þjónustu við eldra fólk er að bæta lífsgæði þess með markvissri, samþættri og einstaklingsmiðaðri félags- og heilbrigðisþjónustu sem veitt er á þeim tíma og á þeim stað sem hennar er þörf. Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með því að nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Leggja þarf sérstaka áherslu á heilsueflandi aðgerðir, m.a. til að sporna við félagslegri einangrun og einmanaleika. Þessar áherslur eru í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um andlegt heilbrigði og þjónustu við almenning. Með aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk, Gott að eldast, er m.a. stefnt að því að samþætta þjónustu stofnana og fyrirtækja við eldra fólk í heimahúsi. Með aðgerðaáætluninni er ráðgert að samþætta þjónustu sem veitt er til eldra fólks í heimahúsum á m.a. grunni laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Samþættingin felur í sér að stjórnun fjármagns og mannafla við þjónustuveitinguna verði á einni hendi en í núverandi skipulagi er félagslega þjónustan og heilbrigðisþjónustan veitt annars vegar af sveitarfélögum og hins vegar af ríkinu. Samfélagslegur ávinningur af slíkum breytingum er verulegur en fyrir utan aukin lífsgæði eldra fólks eru miklir fjárhagslegir hagsmunir af því að fjölga þeim einstaklingum sem virkan þátt taka í samfélaginu og draga úr þörf fyrir flutning á hjúkrunarheimili eða sjúkrahús. Samþættingu heimaþjónustu er einnig ætlað að eyða gráum svæðum í þjónustu. Í tengslum við hana er gert ráð fyrir að skilvirkni þjónustunnar mundi létta óvissu og auka fyrirsjáanleika gagnvart aðstandendum með tilliti til umönnunarábyrgðar og einnig að draga úr umönnunarbyrði aðstandenda með samfelldari, öruggari og skilvirkari þjónustukeðju.

Aðgerðaáætlunin er leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.

Við innleiðingu farsældarlaganna er unnið markvisst að því að formfesta samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna og skapa skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Með lögunum er kveðið á um stigskiptingu þjónustu og gert ráð fyrir að öll þjónusta í þágu farsældar barna sé veitt á þremur þjónustustigum og að öll þjónusta sé flokkuð á viðkomandi stig með setningu reglugerða. Sjá nánar á bls. 425 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Unnið er að heildarendurskoðun barnaverndarlaga sem hefur það að markmiði að tryggja að öll börn njóti verndar, umönnunar og fái viðeigandi þjónustu.

Þá er unnið að heildstæðri greiningu á þjónustu og stuðningi við ólíkar gerðir barnafjölskyldna út frá jafnréttissjónarmiðum. Almennt má þó ganga út frá að bætt samþætt þjónusta við barnafjölskyldur hafi jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Áhrifin eru fjölbreytt og margþætt. Sem dæmi má nefna að börn í viðkvæmri stöðu, þar á meðal börn sem búa á tekjulágum heimilum, eru líklegri til að njóta góðs af slíkri þjónustu. Sjá nánar á bls. 426 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Embætti umboðsmanns barna hefur á síðustu árum í tvígang framkvæmt könnun meðal opinberra aðila um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sú síðari var gerð árið 2022. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að tækifæri séu til úrbóta hvað varðar fræðslu til starfsfólks stofnana ríkisins um þær skuldbindingar sem aðild að samningnum felur í sér fyrir íslenska ríkið. Umboðsmaður barna hefur útbúið leiðbeiningar um framkvæmd matsins á því sem börnum er fyrir bestu skv. 3. gr. samningsins, sbr. lög nr. 19/2013, sem ætlað er að vera liður í áframhaldandi innleiðingu sáttmálans og um leið stuðla að bættri ákvarðanatöku í málefnum barna. Nú er unnið að því að gera fræðsluefnið aðgengilegt á vef embættisins auk þess sem unnið er að gerð fræðsluefnis um notkun þess.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir aðgerðaáætlunar um þjónustu við eldra fólk er sú fjölbreytta þjónusta sem veitt er á mörgum þjónustustigum af ríkinu, sveitarfélögum og einkaaðilum. Til að samþætting á þjónustu við eldra fólk, Gott að eldast, verði árangursrík þurfa allar viðkomandi stofnanir að taka þátt í breytingunni. Skortur á mannafla getur verið hindrun í að samþætting á þjónustu nái fram að ganga. Þá er áhætta fólgin í því að fullnægjandi fjármögnun sé til staðar bæði frá ríki og sveitarfélögum.

Við undirbúning farsældarlöggjafar var unnið hagrænt mat á áhrifum þess að innleiða samþætta þjónustu í þágu barna með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtækan stuðning til að koma í veg fyrir að börn lendi í áföllum og aðstoða þau við að þróa með sér seiglu til að takast á við áföll. Sjá nánar á bls. 425 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Þá má ætla að ef ekki er unnið markvisst að innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé hætta á að hann verði ekki innleiddur með fullnægjandi hætti hjá stjórnvöldum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Bætt lífsgæði eldra fólks.

 

Hlutfall 67 ára og eldri á landsvísu, sem eiga kost á samþættri heimaþjónustu.*

34%

40%

60%

3

Fjölgun eldra fólks sem stunda reglubundna

hreyfingu 4–6 sinnum í viku.

 

55,7%

(2020)

60%

65%

 

Dagleg spjaldtölvunotkun eldra fólks.

65%

(2020)

72%

79%

Stigskipt þjónusta fyrir börn og fjölskyldur endurskipulögð.

1.5

3.4

3.5

4.1

4.2

Hlutdeild fyrsta stigs í þjónustu við börn sem fá stuðning.

69%

70%

71%

1.5

3.4

3.5

4.1

4.2

Hlutdeild annars stigs í þjónustu við börn sem fá stuðning.

27%

26,5%

25,5%

3.4

3.5

4.1

16.2

Hlutdeild þriðja stigs í þjónustu við börn sem fá stuðning.

4%

4%

4%

Ásættanlegur biðtími fyrir þjónustu fyrir börn.

4.1

4.2

Mesti biðtími 2–6 ára barna eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð.

18,4

mán.

15

mán.

11

mán.

16.2

16.3

Mesti biðtími eftir þjónustu Barnahúss.

1,5

mán

1,4

mán.

0,5

mán.

*Mælikvarði um fjölda svæða með samþætta stuðningsþjónustu tekin út og í staðinn settur inn mælikvarði um fjölda íbúa 67 ára og eldri sem eiga kost á samþættri heimaþjónustu.

29.5 bætur til eftirlifenda

Málaflokkurinn tekur til barnalífeyris vegna andláts foreldris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá tekur málaflokkurinn til maka- og umönnunarbóta, dánarbóta og barnalífeyris vegna menntunar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þar er um að ræða heimildargreiðslur sem eru háðar mati hverju sinni. Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd málaflokksins. Að öðru leyti er eðli málaflokksins með þeim hætti að ekki er fjallað um markmið og mælikvarða varðandi starfsemi hans.

29.6 bætur vegna veikinda og slysa

Málaflokkurinn er á ábyrgð heilbrigðisráðherra og tekur til bóta skv. lögum um ­­lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, og lögum um sjúklinga­tryggingu, nr. 111/2000, sbr. einnig lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

Verkefni

 Markmið laga um slysatryggingar almannatrygginga er að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna vinnuslysa eða annarra tiltekinna slysa og atvinnusjúkdóma óháð tekjum hins slysa­tryggða, sbr. einnig lög um almannatryggingar og önnur lög eftir því sem við á. Af þeim breyt­ingum sem fjallað var um í fjármálaáætlun 2024–2028 hefur reglugerð um atvinnu­sjúk­dóma tekið gildi, sbr. reglugerð nr. 390/2023. Ráðuneytið hefur unnið að nýjum heildarlögum um sjúklingatryggingu sem stefnt er að verði samþykkt á yfirstandandi löggjafarþingi.

Helstu áskoranir

Helsta áskorunin í málaflokknum hefur verið að bætur samkvæmt lögum um sjúklinga­tryggingu eru of lágar. Þar sem hámarksbætur bæta ekki að fullu tjón sumra einstaklinga sem leita þá iðulega til dómstóla til að fá fullnaðarbætur með tilheyrandi kostnaði. Breytingar voru gerðar á lögum um slysatryggingar almanna­trygg­inga árið 2022 sem fólu m.a. í sér rýmri skil­grein­ingu á hugtakinu slys, að bætur fyrir varan­legt líkamstjón eru nú miskabætur samkvæmt skaða­bóta­lögum nr. 50/1993, að skýrt sé að trygginga­vernd laganna nái jafnframt til atvinnu­sjúk­­dóma, auk umtalsverðra kerfisbreytinga á lögum um slysa­­tryggingar almannatrygginga, m.a. rof á tengingu milli bóta slysatrygginga almanna­trygg­­inga og bóta samkvæmt lögum um almanna­tryggingar.

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­Á heildina litið falla fleiri karlar en konur undir lögin sem málaflokkurinn tekur til og fleiri karlar en konur fá greiðslur vegna slysatrygginga almannatrygginga. Fleiri konur tilkynna þó um atvinnusjúkdóma en karlar. Með breytingum á lögum um slysatryggingar almannatrygg­inga, sem tóku gildi 1. janúar 2022, jukust réttindi slysatryggðra og tryggðu þannig betur stöðu þeirra ef slys verða. Með breytingunum teljast fleiri slysatryggðir samkvæmt lögunum auk þess sem bætur verða að jafnaði hærri. Breytingarnar gætu leitt til aukinnar tryggingaverndar þeirra sem sinna umönnunarstörfum en þar eru konur í miklum meiri hluta. Hlutfallslega slasast fleiri konur við störf á heilbrigðisstofnunum og á heimilum (heimilishjálp o.fl.) meðan hlutfallslega fleiri karlmenn slasast við vinnu í iðnaði og á byggingavinnusvæðum. Karlmenn lenda oftar í alvarlegum vinnuslysum.

Tækifæri til umbóta

Til að mæta framangreindum áskorunum á sviði sjúklingatryggingar hefur heilbrigðisráð­herra mælt fyrir frumvarpi til nýrra laga um sjúklingatryggingu. Markmiðið með frumvarpinu er að samræma og einfalda kerfi sjúklingatryggingar og auka skilvirkni málsmeðferðar. Lagt er til að hámarksfjárhæð bóta vegna tjóns verði hækkuð svo ekki verði þörf til að sækja hluta bóta fyrir dómstólum og afnema þá aðgreiningu sem gerð hefur verið eftir því hvort tjónsatvik hafi orðið hjá opinberum aðila eða hjá einkaaðila. Í þeim tilgangi að bæta réttarstöðu sjúklinga er því lagt til að afnema þann greinarmun sem nú er gerður og málsmeðferð alfarið færð til Sjúkratrygginga Íslands. 

Áskoranir sem eftir standa er að greina hvort þeim markmiðum sem að er stefnt hafi verið náð, m.a. aukin tryggingavernd þeirra sem sinna umönnunarstörfum, en þar eru konur í miklum meiri hluta og mögulegri aukningu í umsóknum varðandi atvinnusjúk­dóma. Varðandi lög nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga vísast að öðru leyti til umfjöllunar í fjármálaáætlun 2024–2028.

Áhættuþættir

Helsta áhættan varðandi nýja reglugerð um atvinnusjúkdóma er að upp geti komið vafa­mál þar sem sjúkdóm er ekki að finna á lista yfir bótaskylda atvinnusjúkdóma í við­auka með reglu­gerð­inni. Framkvæmdin mun leiða í ljós hvort gera þurfi breytingar á löggjöf eða reglu­gerðum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Auka tryggingavernd þeirra sem sinna umönnunarstörfum.

5

Hlutfallsleg fjölgun umsókna um bætur vegna slysa við umönnunarstörf milli ára.

Mæli­kvarði í þróun.

100%

100% (ekki umfram viðmið 2025)

Markmið um að efla úrbætur og forvarnir vegna atvinnusjúkdóma fellur fremur undir almenna heilsuvernd á vinnustöðum og þar með Vinnueftirlitið sem heyrir undir félags- og vinnumarkaðs­ráðu­neyti. Þar sem markmiðið snertir starfsemi heilbrigðisráðuneytis ekki með beinum hætti er það fellt brott.

29.7 málefni innflytjenda og flóttafólks

Verkefni

Sá hluti málaflokksins sem fellur undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins tekur annars vegar til innflytjenda sem koma hingað til lands vegna atvinnuþátttöku, náms eða fjölskylduaðstæðna og hins vegar til flóttafólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Flóttafólk er ýmist fólk sem veitt hefur verið vernd hér á landi eftir umsókn um slíka vernd sem fengið hefur dvalarleyfi í kjölfar fjölskyldusameiningar eða sem fengið hefur vernd eftir að hafa verið sérstaklega boðið til landsins af stjórnvöldum. Hefur þessi hluti málaflokksins vaxið margfalt á undanförnum árum, bæði vegna fjölgunar innflytjenda almennt en einnig vegna fordæmalausrar fjölgunar á umsækjendum um alþjóðlega vernd á árunum 2022 og 2023 og verndarveitinga í kjölfarið. Undir málaflokkinn falla einnig endurgreiðslur  til sveitarfélaga. Annars vegar eru það endurgreiðslur vegna fjárhagsaðstoðar og annarrar þjónustu við erlenda ríkisborgara samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem falla undir verkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Hins vegar eru það endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna þjónustu sem sveitarfélög veita fylgdarlausum börnum á flótta. samkvæmt barnaverndarlögum en þær endurgreiðslur eru á forræði mennta- og barnamálaráðuneytis.

Helstu áskoranir

Þann 1. janúar 2023 voru 71.424 innflytjendur á Íslandi og voru þeir 18,4% mannfjöldans samanborið við 16,2% árið áður og nemur fjölgunin rétt tæplega 10.300 manns. Hlutfall innflytjenda eykst hvað hraðast hér á landi í samanburði við önnur lönd innan OECD og má einkum rekja fjölgunina til stöðunnar á íslenskum vinnumarkaði. Í ljósi þess að horfur á vinnumarkaði eru áfram taldar almennt góðar má gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun innflytjenda hér á landi en mikill meirihluti innflytjenda kemur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins, eða um 80% hópsins. Á árinu 2023 sóttu 4.159 einstaklingar um alþjóðlega vernd hér á landi og veitt voru 1.986 dvalarleyfi. Er það fækkun frá fyrra ári þegar 3.455 einstaklingar fengu dvalarleyfi hér á landi í kjölfar umsóknar um alþjóðlega vernd.

Í lok árs 2022 var komið á nýjum samningum milli ríkis og sveitarfélaga vegna félagslegs stuðnings við flóttafólk á grundvelli samræmdrar móttöku og jókst fjöldi sveitarfélaga sem kemur að slíkum stuðningi eftir að nýr samningur lá fyrir og voru þau orðin 14 í lok árs 2023. Ætla má að frekari þróun á skilvirkum stuðningi við flóttafólk í tengslum við inngildingu þess hér á landi verði brýnt verkefni til næstu ára.

Hvað varðar málefni flóttafólks sem kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda þá er það stefna stjórnvalda að viðhalda móttöku flóttafólks með slíkum hætti þar sem áhersla er lögð á einstaklinga og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Á árinu 2023 var ekki tekið á móti sérstökum hópum í boði íslenskra stjórnvalda en árið var hins vegar nýtt til að aðstoða fólk til landsins sem áður hafði fengið boð um búsetu á Íslandi en hafði ekki komist til landsins af ýmsum ástæðum.

Unnið er að gerð stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks og var af því tilefni gerð ítarleg greining á stöðunni í málaflokknum. Í kjölfarið var birt grænbók í nóvember 2023 en þar er fjallað um tíu lykilviðfangsefni sem telja verður til helstu áskorana á sviði málaflokksins til framtíðar litið.

Hinn 20. febrúar 2024 sammæltist ríkisstjórnin um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Á grundvelli þeirra aðgerða er ætlunin að tekið verði utan um málefni hópsins með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd verkefna sem varða flóttafólk og innflytjendur.

Tækifæri til umbóta

Gera má ráð fyrir að með gerð ítarlegs stöðumats og í kjölfarið grænbókar í tengslum við málefni innflytjenda og flóttafólks skapist tækifæri til að vinna markvisst að úrbótum innan málaflokksins þar sem litið verður til helstu áskorana sem þar koma fram. Stefnt er að því að hvítbók eða drög að stefnu stjórnvalda í málaflokknum liggi fyrir í lok maí 2024 auk þess sem stefnt er að því að unnin verði ný framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda sem nái til næstu fimm ára. Gert er ráð fyrir að samhliða verði gerðar breytingar á lögum um málefni innflytjenda til að ná fram þeim markmiðum sem að verður stefnt í fyrirhugaðri stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Fram að því verður áfram unnið að aðgerðum í gildandi framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi um mitt ár 2022. Að vinnu við gerð stefnu stjórnvalda í málaflokknum hafa þegar komið um 400 manns og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja að rödd innflytjenda sjálfra fái að heyrast við mótun á lausnum til framtíðar og þannig hefur verið stuðlað að því að aðgerðir taki mið af raunverulegum þörfum byggðum á mati þeirra sem málið varðar með beinum hætti. Með heildarstefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttafólks má gera ráð fyrir að tækifæri skapist til skýrrar markmiðssetningar og markvissra aðgerða til að ná fram tilætluðum árangri.

Á árinu 2023 sameinuðust Fjölmenningarsetur og Vinnumálastofnun í eina stofnun en báðar stofnanirnar höfðu áður veitt innflytjendum og flóttafólki víðtæka þjónustu. Með sameiningu stofnananna er gert ráð fyrir að unnt verði að efla enn frekar en áður stuðning við innflytjendur og flóttafólk og tryggja aðgengi að upplýsingum og þjónustu um allt land. Ætla verður að verkefni Vinnumálastofnunar á þessum vettvangi muni eflast og vaxa í framtíðinni í takt við ætlaða fjölgun meðal innflytjenda og flóttafólks hér á landi.

Áhættuþættir

Ætla má að helstu áhættuþættir varðandi málaflokkinn séu ófyrirsjáanleiki þegar kemur að fjölda umsókna um alþjóðlega vernd, staðan á húsnæðismarkaði hér á landi og vaxandi vopnuð átök og pólitískur óstöðugleiki víðs vegar í heiminum. Áhrifa stríðsins í Úkraínu gætir enn og ekki er séð fyrir endann á þeim átökum með tilheyrandi fólksflótta. Erfiðleikar við að útvega bæði flóttafólki sem og öðrum innflytjendum varanlegt húsnæði og umsækjendum um alþjóðlega vernd tímabundið húsnæði hafa verið viðvarandi. Álag á innviði, s.s. heilbrigðisþjónustu, skólaþjónustu og sértæka þjónustu fyrir fólk í kjölfar áfalla geta valdið því að erfitt reynist að ná fram settum markmiðum í vinnu með innflytjendum og flóttafólki. Hröð aukning bæði hvað varðar fjölda innflytjenda og fjölda flóttafólks getur þannig valdið tímabundnum áskorunum vegna skorts á fagfólki auk þess sem móttökuáætlanir og móttökukerfið í heild er hannað fyrir mun fámennari hóp en þarf nú á þjónustu að halda.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Aukin tækifæri flóttafólks til félagslegrar þátttöku og virkni í íslensku samfélagi.

10.3

Hlutfall flóttafólks sem nýtir íslenskunámskeið á fyrsta ári eftir verndarveitingu.

75%

80%

90%

16.1

Hlutfall flóttafólks sem fær, samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk, Landnemann.

39%

70%

90%

Hækkandi hlutfall flóttafólks sem nýtur þjónustu í samræmdri móttöku flóttafólks.

16.1

Hlutfall flóttafólks sem nýtur þjónustu í samræmdri móttöku flóttafólks á fyrsta ári eftir verndarveitingu.

108%*

70%

80%

* Vegna tafa á tilvísunum í samræmda móttöku á árinu 2022 var 2.142 einstaklingum vísað í samræmda móttöku á árinu 2023 en heildarverndarveitingar á árinu voru 1.986 sem leiðir til skekkju í mælikvarða ársins 2023.

Mælikvarðar tóku breytingum frá og með síðustu fjármálaáætlun. Enn hafa ekki verið mótaðir nýir mælikvarðar er varða málefni innflytjenda í stað þeirra sem felldir voru brott sökum þess að þeir þóttu ekki nægjanlega lýsandi. Nýir mælikvarðar verða mótaðir samhliða gerð stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Fyrri markmið um flóttafólk sem hingað kemur í boði íslenskra stjórnvalda eru ekki endurvakin á meðan unnið er að heildarstefnumótun í málaflokknum. Þá er bætt við mælikvarða í tengslum við markmið um samfélagsþátttöku flóttafólks og því stuðst við tvo mælikvarða (íslenskukennslu og samfélagsfræðslu) í stað eins í fyrri áætlun.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum