Fréttir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

Drög að breytingu á reglugerð um upplýsingaþjónustu flugmála til umsagnar

19.5.2017

Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið kynnir drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um upplýsingaþjónustu flugmála. Umsagnir má senda ráðuneytinu á netfangið postur@srn.is til 25. maí næstkomandi.

Reglugerðin er nr.772/2010 og fela drögin í sér að heimilt verður að hætta prentaðri útgáfu flugmálahandbókar (AIP) og gefa hana út í rafrænu formi. Gert er ráð fyrir því að í kjölfar gildistöku reglugerðarinnar verði útgáfu á pappír hætt.

Á undanförnum árum hefur áskrifendum að prentaðri flugmálahandbók fækkað auk þess sem rafrænum lausnum hefur fjölgað, s.s. með útgáfu fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Er þetta til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á viðauka 15 við Chicago samninginn og reglugerðir um gæði flugmálagagna sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Í dag eru 49 áskrifendur að prentaðri flugmálahandbók og standa áskriftartekjur undir um 5% af kostnaði við prentun handbókarinnar en notkun á rafrænum útgáfum hefur aukist hratt á undanförnum árum.