Fréttir

Tveir ráðherrar í innanríkisráðuneyti

11.1.2017

  • Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
    Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Tveir ráðherrar verða í innanríkisráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tók við í dag: Jón Gunnarsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra. Eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum tóku þau bæði við lyklum að innanríkisráðuneytinu nú síðdegis hjá fráfarandi innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal.

Dómsmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður frá 2015 og hefur áður setið á nokkrum þingum sem varaþingmaður.

Sigríður Á. Andersen tekur við lyklavöldum frá Ólöfu Nordal.Sigríður er fædd 1971 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1999. Sigríður var lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands árin 1999-2005, sat í dómstólaráði 2004-2009 og héraðsdómslögmaður hjá Lex árin 2007-2015. Sigríður sat í stjórn Andríkis, útgáfufélags, 1995–2006, í ritstjórn Vefþjóðviljans 1995–2006, stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1996–1997, í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2005–2009. Þá var hún formaður Félags sjálfstæðismanna í vestur- og miðbæ 2006–2009, formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins 2007–2011 og í stjórn Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins frá 2013. Sigríður var einn stofnenda og talsmanna Advice, félags sem hafði það að markmiði að miðla upplýsingum um mikilvægi þess að hafna Icesave lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Maður hennar er Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og eiga þau tvær dætur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Jón Gunnarsson hefur verið þingmaður Suðvesturkjördæmis frá 2007 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal.Jón er fæddur 1956. Hann lauk prófi frá málmiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík 1975 og prófi í rekstrar- og viðskiptafræðum frá endurmenntun Háskóla Íslands 1996. Hann var bóndi árin 1981-1985, var yfirmaður auglýsinga- og áskriftadeildar Stöðvar 2 1986–1990, markaðsstjóri Prentsmiðjunnar Odda 1991–1993, rak ásamt eiginkonu sinni innflutningsfyrirtækið Rún ehf. 1994–2004 og var framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2005–2007. Jón hefur gegnt ýmsum félagsstörfum, var m.a. formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sat í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur frá árinu 1995 verið formaður Sjávarnytja, félags áhugamanna um skynsamlega nýtingu sjávarafurða. Þá hefur Jón setið í ýmsum þingnefndum og var formaður atvinnuveganefndar árin 2013-2016. Kona hans er Margrét Halla Ragnarsdóttir verslunarkona og eiga þau þrjú börn.

Breytingar á forsetaúrskurði

Nokkrar breytingar hafa orðið á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta. Þannig færast verkefni byggðamála til innanríkisráðuneytis frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og neytendamál hafa verið færð frá innanríkisráðuneytinu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Sigríður Á. Andersen fer með málefni er varða ákæruvald, dómstóla, réttarfar, lögreglu, fangelsi, lögmenn, almannavarnir, landhelgisgæslu, vopnamál, mannréttindi, útlendinga, sýslumenn, kosningar og kirkju- og trúmál.

Jón Gunnarsson fer með málefni á öllum sviðum samgangna, fjarskiptamál, málefni upplýsingasamfélagsins og sveitarstjórnar- og byggðamál.

Fjölmiðlafólk ræðir við nýja ráðherra.

Fjölmiðlafólk vildi ræða við nýju ráðherrana.

 

 

Til baka Senda grein