Fréttir innanríkisráðuneytisins 2011-2017

Breyting á reglugerð um miðlun upplýsinga vegna flutninga á sjó til umsagnar

7.4.2017

Með drögunum er lagt til að innleidd verði ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum. Markmið hennar er að einfalda og samræma stjórnsýslumeðferð sem gildir fyrir flutninga á sjó með því að gera rafræna sendingu upplýsinga að reglu og með því að einfalda formsatriði við skýrslugjöf.

Með drögunum er lagt til að skipstjóra, rekstraraðila eða umboðsmanni útgerðar verði skylt að afhenda vaktstöð siglinga upplýsingar sem veita ber vegna komu og brottfarar skipa samkvæmt ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla þar að lútandi. Upplýsingarnar skulu veittar í gegnum sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga. Um er að ræða upplýsingar um komu skipa, upplýsingar vegna Schengen samstarfsins, tilkynningar vegna hættulegs eða mengandi varnings, upplýsingar sem tíundaðar eru í stöðluðum eyðublöðum og yfirlýsing um heilbrigði sæfarenda. Með því að senda þessar upplýsingar á einn stað með rafrænum hætti má draga til muna úr stjórnsýslubyrði skipafélaga.