Fréttir innanríkisráðuneytisins 2011-2017

Drög að reglugerðum um vegabréfsáritanir og um för yfir landamæri til umsagnar

15.2.2017

Vegabréfsáritanir

Núgildandi reglugerð um vegabréfsáritanir var upphaflega unnin á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 80/2010 um bandalagsreglur um vegabréfsáritanir sem telst til Schengengerða og því skuldbindandi fyrir Ísland. Í reglugerðinni er kveðið á um verklagsreglur og skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana af hálfu Íslands til gegnumferðar eða fyrirhugaðrar dvalar á Schengen-svæðinu til 90 daga eða skemmri á 180 daga tímabili. Reglugerðinni fylgja 11 viðaukar sem varða m.a. umsóknareyðublöð og fylgiskjöl, lista yfir ríki þar sem ríkisborgurum er skylt að hafa vegabréfsáritun við komu til Íslands, lista yfir undanþágu frá þessari skyldu og lista yfir ríki og staði þar sem sækja má um vegabréfsáritun.

Þær breytingar og/eða uppfærslur sem nú hafa verið gerðar á reglugerð um vegabréfsáritanir eru eftirfarandi:

  • Ný ákvæði hafa verið sett í V hluta reglugerðarinnar er varða íslenskan hluta upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir (VIS), þar á meðal ákvæði er varða persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga í því kerfi.
  • Orðalag er uppfært þannig að dvöl á landinu er talin í dögum en ekki mánuðum.
  • Viðaukar 9 og 10 hafa verið uppfærðir með tilliti til þess að mörg þeirra ríkja sem talin eru upp á lista yfir áritunarskyld ríki eiga nú að vera á lista yfir ríki sem hafa undanþágu frá áritun.
  • Viðurkennd eru persónuskilríki sjómanna sem gefin eru út af yfirvöldum í ríki sem er aðili að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 185.

För yfir landamæri

Núgildandi reglugerð um för yfir landamæri var upphaflega unnin á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 562/2006 um för yfir landamæri sem gengur jafnan undir nafninu Schengen Borders Code og er skuldbindandi fyrir Ísland. Birtist sú reglugerð hér uppfærð til umsagnar. Í reglugerðinni er kveðið á um för yfir innri eða ytri landamæri Schengen-svæðisins við komu til landsins og brottför frá landinu.

Þær breytingar og/eða uppfærslur sem nú hafa verið gerðar á reglugerð um för yfir landamæri eru eftirfarandi:

  • Dvalartími er nú skilgreindur í dögum en ekki mánuðum líkt og áður.
  • Viðauki I hefur verið uppfærður með tilliti til landamærastöðva.
  • Fellt er brott ákvæði um skyldu flutningsaðila til eftirlits með ferðaskilríkjum einstaklinga vegna farar um innri landamæri í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.