Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2016 Innviðaráðuneytið

Rætt um samstarf opinberra aðila og einkaaðila um innviðaframkvæmdir

Frá fundi um samstarf opinberra aðila og einkaaðila um innviðaframkvæmdir. - mynd
Samstarf opinberra aðila og einkaaðila um innviðaframkvæmdir var til umræðu á morgunverðarfundi Deloitte og Samtaka iðnaðarins í gær þar sem flutt voru nokkur erindi um efnið. Ólöf Nordal innanríkisráðherra ávarpaði fundinn og sagði að brýnt væri að auka opinbera fjárfestingu í innviðum og að við henni blasti að ráðast yrði í fjárfrekar vegaframkvæmdir.

Innanríkisráðherra sagði fjárfestingar í samgöngumannvirkjum hafa verið langt undir því sem talist gæti eðlilegt og að uppsöfnuð þörf væri orðin milli 50 og 60 milljarðar króna. ,,Þar við bætist að álagið á vegakerfið hefur aukist verulega síðustu árin. Mælt í eknum kílómetrum á ári hefur álagið meira en tvöfaldast frá árinu 1990. Þá er þungi bifreiða nú mun meiri en þá var. Þetta sýnir mér, og ég hef áður nefnt það, að við þurfum nýja hugsun þegar kemur að uppbyggingu vegakerfisins. Við þurfum að viðurkenna að notkun vegakerfisins er gjörbreytt – hverfa frá bútasaumi og horfa lengra fram á veginn. Ég sé fyrir mér að við þurfum að tvöfalda stóra vegarkafla á þjóðveginum þar sem umferðin er mest. Fyrir því eru sterk öryggis- og hagkvæmnisrök,“ sagði ráðherra einnig.

Ólöf Nordal flutti ávarp vði setningu fundarins.

Þá kom fram í máli ráðherra að hún hefði falið hópi sérfræðinga að fara yfir undirbúning og ákvarðanatöku vegna umfangsmikilla vegaframkvæmda og koma með tillögur að úrbótum. Sagði ráðherra að á grundvelli þeirrar vinnu yrði vonandi hægt að stíga afgerandi skref til að tryggja að forgangsröðun nýframkvæmda í vegakerfinu byggðist á vel skilgreindri kostnaðar- og ábatagreiningu.

Ráðherra sagði einnig að almennt megi ráða af greiningum að aðkoma einkaaðila að innviðafjárfestingum geti verið jákvæð fyrir einstök verkefni. Nauðsynlegt væri að rýna vel mögulega kosti og hvernig rétt væri að útfæra samvinnu opinberra aðila og einkaaðila hverju sinni. Lokaorð ráðherra voru þessi:

,,Það má þó ekki horfa eingöngu á einstakar framkvæmdir, það verður líka að horfa til ábata af því að hraða uppbyggingu þjóðhagslegra hagkvæmra innviða og annan þjóðhagslegan ábata af þátttöku einkaaðila – s.s. áhættudreifingu, fjölgun starfa á einkamarkaði o.fl. Það verður að horfa á heildarmyndina.“

Eftirfarandi erindi voru flutt á fundinum:

PPP – Raunhæfur valkostur fyrir ríki og sveitarfélög á Íslandi?: Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, Deloitte Ísland

Why should the public sector use PPP and what are the best practices in tender processes?: Rikke Beckmann Danielsen, Deloitte Danmörk

PPP experiences from the Danish Building and Property Agency‘s perspective: Njal Olsen, Danish Building and Property Agency

Sterkari innviðir – aukinn árangur: Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum