Hoppa yfir valmynd
24. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Vilja fá íslenska lögreglumenn til Frakklands vegna Evrópumótsins

Frönsk stjórnvöld hafa óskað eftir því við íslensk stjórnvöld að sendir verði átta íslenskir lögreglumenn til starfa í Frakklandi í tengslum við Evrópumótið í knattspyrnu sem þar fer fram dagana 10. júní til 10. júlí næstkomandi. Gert er ráð fyrir að tveir lögreglumenn starfi í miðstöð alþjóðlegrar lögreglusamvinnu og hinir sex fari milli borga í Frakklandi þar sem íslenska landsliðið spilar leiki sína.

Áætlað er að milli 15 og 20 þúsund Íslendingar verði í Frakklandi í tengslum við mótið miðað við upplýsingar Knattspyrnusambands Íslands. Innanríkisráðuneytið hefur átt samráð við embætti ríkislögreglustjóra um viðbrögð við erindi franskra stjórnvalda en fulltrúi embættisins tekur þátt í samstarfi Evrópuríkja sem Ísland á aðild að á grundvelli Evrópusamnings um ofbeldi og ótilhlýðilega hegðun áhorfenda á íþróttamótum, einkum á knattspyrnuleikjum.

Umbeðin aðstoð við frönsk yfirvöld mun m.a. felast í því að vera í sambandi við íslensku stuðningsmennina og veita þeim aðstoð, vera þeim innan handar vegna mála sem hugsanlega geta komið upp, s.s. ef rýma þarf leikvang, eða gefa fyrirmæli um einhverjar breytingar á áætlun. Íslensku lögreglumennirnir munu fá allar upplýsingar frá fyrstu hendi og geta miðlað þeim áfram til stuðningsmanna eftir atvikum og veitt þá aðstoð sem þarf hverju sinni.

Ljóst er að ekki er hægt að sinna þessu verkefni nema til komi sérstök fjárveiting. Kostnaður mun ráðast af því hversu langt landsliðið nær í keppninni. Innanríkisráðherra lagði fram upplýsingar um málið á ríkisstjórnarfundi í dag og var samþykkt að veita allt að 20 m.kr. af fjáraukalögum. Verður embætti ríkislögreglustjóra falið að annast framkvæmd málsins á grundvelli samþykktrar kostnaðaráætlunar í samráði við innanríkisráðuneytið.

Þá má geta þess að vegna mótsins fór fram öryggisráðstefna átakshóps innanríkisráðuneytis Austurríkis þann 12. maí 2016 í Vín með fulltrúum ríkja sem eru með Austurríki í riðli. Fulltrúar innanríkisráðuneyta, knattspyrnusambanda og lögregluembætta Ungverjalands, Íslands, Portúgal og Austurríkis sátu fundinn og undirbjuggu öryggisráðstafanir fyrir riðlakeppnina. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, sat ráðherrafundinn fyrir hönd ráðherra en sérfræðingafundinn sat Vilhjálmur Gíslason, fulltrúi ríkislögreglustjóra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum