Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Funduðu um samstarf og samræmingu meðal sýslumannsembætta

Þriggja manna nefnd sýslumanna fundaði nýlega í innanríkisráðuneytinu. - mynd
Nefnd þriggja sýslumanna fundaði nýverið í innanríksráðuneytinu en með nýlegum lögum um embætti sýslumanna er ákvæði um að þeir tilnefni árlega úr sínum hópi nefnd til að vinna með ráðuneytinu að stefnumótun fyrir embættin og fleira er varðar starfsemi þeirra. Nefndina skipa nú Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður á Vesturlandi sem jafnframt er formaður hennar, Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður á Suðurlandi, og Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.

Í lögum um sýslumannsembættin (lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði nr. 50/2014) segir í 6. grein að sýslumenn skuli árlega tilnefna úr sínum hópi nefnd þriggja manna er vinna skuli með innanríkisráðuneytinu að stefnumótun fyrir sýslumannsembættin og gera tillögur um hvaðeina sem getur orðið til úrbóta í störfum sýslumanna eða löggjöf sem um verkefni þeirra gildir. Einnig skal nefndin vinna að sameiginlegum verkefnum sýslumanna, svo sem útgáfu ársskýrslu fyrir embættin í heild, veita ráðgjöf um þróun starfs- og upplýsingakerfa embættanna, annast sameiginlega vefsíðu embættanna og stuðla að símenntun og þjálfun starfsmanna þeirra. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að tryggja gæði og samræmi í verkefnum embættanna og getur nefndin einnig falið einu embætti framkvæmd einstakra verkefna sem unnin yrðu undir stjórn nefndarinnar.


Á myndinni eru frá vinstri: Þórólfur Halldórsson, Anna Birna Þráinsdóttir og Ólafur K. Ólafsson.

Samið um sérfræðiráðgjöf og og sáttameðferð

Þá hafa sýslumenn, að undanskildum sýslumanninum á Suðurnesjum, samið um fyrirkomulag á vinnu og skipulagi á sérfræðiráðgjöf, sáttameðferð og álitsumleitunum sérfræðinga í málefnum barna á grundvelli barnalaga þess efnis að verkefnin verði skipulögð og unnin á landsvísu í samstarfi embættanna.

Samkvæmt samningnum heyrir verkefnið undir fagstjóra sáttameðferðar og sérfræðiráðgjafar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem mun halda utan um tölfræði og annað innra starf, svo sem fundi með sáttamönnum og sérfræðingum í málefnum barna. Einnig sér embættið um gerð upplýsingaefnis fyrir þá sem þurfa á þessari þónustu að halda og starfsmenn, námskeiðshald, skipulag handleiðslu fyrir sáttamenn ásamt því að eiga samskipti og samvinnu við verktaka út á landi. Ein staða tengd þessu verkefni verður hjá sýslumanni á Norðurlandi eystra á Akureyri.

Markmið samningsins er að embættin veiti sem besta þjónustu á ofangreindum sviðum með því að tryggja samræmda málsmeðferð á landsvísu og hámarks nýtingu fjárveitinga.

Þá má nefna að unnið er að gerð árangursstjórnunarsamninga milli ráðuneytisins og embætta sýslumanna og er samningur við sýslumann á Vesturlandi á lokastigi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum