Hoppa yfir valmynd
10. mars 2016 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingu á vopnalögum til umsagnar

Drög að breytingu á vopnalögum eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Breytingarnar snúast um að styrkja lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar ESB og setningu reglugerðar er varða reglur um aðgengi og umráð efna sem nota má til að framleiða ólögleg sprengiefni. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um frumvarpsdrögin til og með 17. mars næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun svonefndra forefna sprengiefna felur í sér takmarkanir á notkun efna og efnablanda sem nota má til að framleiða ólögleg sprengiefni, eftirlit og skráningu. Ekki er fyrir hendi heimild í vopnalögum til að hafa eftirlit og takmarka notkun þessara forefna. Þá kveður reglugerðin einnig á um tilkynningaskyldu sem ber að hafa í lögum og það leiðir af reglugerðinni að framleiðsla heimatilbúinna sprengja sé bönnuð.

Þar sem slíkt bann er ekki fyrir hendi í íslenskum lögum er nauðsynlegt er að kveða á um það með lagabreytingunni sem hér er lögð til þar sem ekki er hægt án lagaheimildar að innleiða reglugerð Evrópusambandsins eingöngu með setningu reglugerðar hér á landi. Þá felur reglugerðin í sér kröfu um vinnslu persónuupplýsinga en nauðsynlegt er að gera því skil í lögum í stað reglugerða. Gert er ráð fyrir að ofangreind reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins verði að fullu innleidd með reglugerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum