Hoppa yfir valmynd
7. október 2015 Innviðaráðuneytið

Unnið að úrbótum vegna skuldbindinga um samevrópska loftrýmið

Eftirlitsstofnun EFTA gaf út í dag út rökstutt álit um að Ísland fullnægði ekki skuldbindingum samkvæmt reglum um samevrópska loftrýmið. Íslensk stjórnvöld hafa átt í samskiptum við eftirlitsstofnunina vegna þessa máls og unnið að úrbótum á þeim atriðum sem koma fram í álitinu. Höfðu íslensk stjórnvöld sent stofnuninni tímaáætlun um úrbætur sem unnið hefur verið eftir.

Samgöngustofa hefur kallað eftir umsókn Isavia ohf. um tilnefningu sem veitandi flugleiðsöguþjónustu. Verið er að vinna að þeirri tilnefningu þar sem skilgreind verða réttindi og skyldur þjónustuaðilans. Stefnt er að því að tilnefningu verði lokið fyrir janúarlok 2016. Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, hefur fallist á þá tímaáætlun íslenskra stjórnvalda.

Samgöngustofa hefur gert samkomulag við Isavia ohf. og Landhelgisgæslu Íslands vegna stjórnunar loftrýmis. Samkvæmt því skal Isavia tryggja að verkefnum svokallaðs vinnuhóps um stjórn loftrýmis sé sinnt. Isavia vinnur að verklagsreglum vegna þessa og var það ætlan að því yrði lokið og verkefnum ráðstafað fyrir lok febrúar 2016 og mun Samgöngustofa viðhafa eftirlit í kjölfarið. Flugöryggisstofnun Evrópu hefur fallist á framangreinda tímaætlun til úrbóta.

Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir auknum fjárheimildum til handa Samgöngustofu til að tryggja nægjanlega fjármuni til að sinna því eftirliti og þeim aðgerðum sem henni hafa verið falin. Innanríkisráðuneytið mun ásamt Samgöngustofu bregðast við áliti eftirlitsstofnunarinnar og meta hvort þörf sé á frekari aðgerðum en að ofan greinir til að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum