Hoppa yfir valmynd
17. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um Landhelgisgæsluna til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006. Markmið lagabreytingarinnar er að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar og kveða skýrt á um heimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér verkefni erlendis, meðal annars í ljósi þess að umfang slíkra verkefna hefur aukist undanfarin ár. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um reglugerðardrögin til og með 25. september n.k. og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Í núgildandi lögum um stofnunina segir í 5. grein að henni sé heimilt að gera þjónustusamninga um einstök verkefni og þegar sérstaklega standi á megi semja um ólögbundin verkefni í samráði við ráðherra. Ríkisendurskoðun benti á að nauðsynlegt væri að innanríkisráðuneytið hefði markvisst eftirlit með því að erlend verkefni Landhelgisgæslunnar verði ekki það umsvifamikil að stofnunin geti ekki sinnt hlutverki sínu hér við land í samræmi við lög og markaða stefnu.

Í frumvarpinu er jafnramt kveðið á um að Landhelgisgæslan geri innanríkisráðherra grein fyrir umfangi erlendra verkefna hverju sinni enda verður stofnunin að geta sinnt með fullnægjandi hætti lögbundnum verkefnum á borð við eftirlit á hafsvæðinu við Ísland og leitar- og björgunarþjónustu. Kröfur um öryggi og þjónustu innanlands stýra því þannig í hve miklum mæli stofnunin tekur þátt í erlendum verkefnum. Landhelgisgæslan á einnig að meta þá hættu sem þátttaka í þessum verkefnum hefur í för með sér fyrir áhafnir og tækjakost.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum