Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2015 Dómsmálaráðuneytið

Auka á samstarf stofnana vegna fjölgunar ferðamanna

Innanríkisráðherra vinnur að því í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurlandi, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að koma á skilvirku samstarfi stjórnvalda og félagasamtaka sem miði að því að auka öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila hér á landi. Þá hefur ráðherra nýverið ritað nokkrum stofnunum sem sinna þessum verkefnum og óskað upplýsinga um hvort og hvernig aukinn fjöldi ferðamanna hefur haft í för með sér fleiri verkefni og nýjar áskoranir.

Bréfið fengu ríkislögreglustjóri, Vegagerðin, Landhelgisgæslan, Samgöngustofa, Neyðarlínan, Isavia og Slysavarnafélagið Landsbjörg. Þess er óskað að upplýsingarnar liggi fyrir eigi síðar en 15. september.

Tilefni þessarar athugunar eru fleiri útköll samfara auknum fjölda ferðamanna til landsins, bæði á háannatíma en ekki síður utan hans. Hefur þetta leitt til aukins álags fyrir björgunarsveitir, lögreglu og Landhelgisgsæsluna, auk þess sem kostnaður hefur aukist. Björgunarsveitir, sem eru mannaðar sjálfboðaliðum, standa frammi fyrir nýjum áskorunum og umfangi sem þarf að takast á við.

Dregið verði úr áhættu

Áætlanir gera ráð fyrir að áfram fjölgi erlendum ferðamönnum á Íslandi og því er mikilvægt að þeir aðilar sem koma að björgun, stjórn aðgerða, forvörnum og stefnumótun í þeim málaflokkum sem hér eru undir stilli saman stengi sína og vinni saman að því að auka öryggi ferðamanna. Verkefnið miðar að því að draga úr áhættu með greiningu og forgangsröðun aðgerða m.a. að tryggja að fullnægjandi heimildir lögreglu til að loka svæðum eða takmarka aðgang vegna hættu.

Skipaður verður formlegur stýrihópur um öryggi ferðamanna til fimm ára og verður verkefni hans að samhæfa aðgerðir, gera aðgerðaráætlanir og tillögur um forgangsröðum og fjármögnun verkefna. Þá myndi hópurinn fjalla um ábendingar um það sem betur má fara og gera tillögur sem miða að því að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Gert er ráð fyrir að í hópnum eigi sæti fulltrúar innanríkisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Lögreglustjórafélagsins, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar. 

Stýrihópnum til aðstoðar yrði samráðshópur skipaður fulltrúum ýmissa aðila, svo sem umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, Neyðarlínunnar og samtaka útivistarfélaga. Í innanríkisráðuneytinu er unnið að mótun nánari áætlunar fyrir verkefnið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum