Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2015 Dómsmálaráðuneytið

Greinargerð ríkislögreglustjóra um eflingu á viðbúnaði lögreglu

Ríkislögreglustjóri hefur tekið saman greinargerð um eflingu viðbúnaðar lögreglu þar sem fram koma ábendingar um nauðsynlegar úrbætur er varða búnað og þjálfun lögreglumanna. Fram kemur í greinargerðinni að lögreglan sé að jafnaði óvopnuð við dagleg störf og sé það í samræmi við stefnu ríkislögeglustjóra og sátt sé um það innan lögreglunnar. Ekki standi til að útvíkka núgildandi heimildir til að vopna almenna lögreglumenn.

Gerð er grein fyrir viðbúnaðarstigum lögreglu og þeim kröfum sem gerðar eru til lögreglunnar þegar takast þarf á við atvik sem krefjast vopnaburðar lögreglu. Þar er gerð grein fyrir athugun ríkislögreglustjóra og vinnuhópa á hans vegum um viðbúnaðargetu lögreglu. Við endurskoðun viðbúnaðarskipulags lögreglu fékk ríkislögreglustjóri m.a. aðstoð frá norskum lögregluyfirvöldum. Ráðleggingar Norðmanna voru þær að nauðsynlegt væri að vopna almenna lögreglu til þess að bregðast við vopnuðum árásum sem og vegna hækkunar vástigs. Þá lögðu Norðmenn áherslu á að auka vopna- og aðgerðaþjálfun lögreglumanna, gerð viðbragðsáætlana og samhæfingar með öðrum viðbragðsaðilum. Úttektir þær sem vísað er til í skýrslunni voru gerðar annars vegar vegna tveggja skotárása í skólum í Finnlandi og hins vegar Breivik-málsins í Noregi. Niðurstaða athugunarinnar var sú að viðbúnaðargeta lögreglu hér á landi væri óforsvaranleg og m.a. ekki hægt að gera viðbragðsáætlun vegna skólaskotárása vegna þess hversu vanbúin lögreglan er.

Þá er í skýrslunni fjallað um nauðsynlegar úrbætur, m.a. varðandi þörf á að vopna almenna lögreglu bæði til þess að bregðast við skotárásum og vegna hækkunar á vástigi/viðbúnaðarstigi og fjallað um vopnabúnað lögreglu og fjölda þeirra lögreglumanna sem æskilegt væri að vopna. Nauðsynlegt er að mati ríkislögreglustjóra að geta vopnað 150 lögreglumenn að lágmarki með ofangreindum búnaði og færð rök fyrir því. Best væri að hans mati ef hægt yrði að geta vopnað 260 lögreglumenn. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur fram að öryggi lögreglumanna í verkefnum og geta þeirra til að ráða við hlutverk sitt ráðist af fullnægjandi þjálfun og þeim búnaði sem þeir hafa. Um sé að ræða mikilvæg vinnuverndar- og öryggissjónarmið sem miða að því að tryggja öryggi lögreglumanna og að viðbúnaðargeta lögreglumanna sé fullnægjandi. 

Þá kemur fram að sú skipan að tryggja fjárveitingar til árlegrar aðgerðaþjálfunar lögreglumanna sé mikið framfaraskref en staðan sé ófullnægjandi varðandi sérbúnað lögreglu. Lagt er til í greinargerðinni að uppbyggingu á viðbúnaðargetu lögreglu verði hraðað og auknu fé veitt til þess að endurnýja og bæta sérbúnað lögreglu. Loks er gerð grein fyrir vöntun á búnaði til sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum