Hoppa yfir valmynd
16. mars 2015 Innviðaráðuneytið

Ýmsar breytingar á umferðarlögum að ganga í gildi

Í lok febrúar samþykkti Alþingi ýmsar breytingar á umferðarlögum sem snerta meðal annars skilgreiningar ökutækja, reglur um akstur bifhjóla og skyldur til endurmenntunar atvinnubílstjóra. Lögin hafa þegar öðlast gildi nema ákvæði um létt bifhjól í flokki I sem taka gildi þann 1. apríl næstkomandi. Þá er gefinn frestur til 10. september 2018 fyrir atvinnubílstjóra til að ljúka endurmenntun.

Breytingin nú snýr einkum að ákvæðum sem fela í sér innleiðingu eða leiðréttingu á innleiðingu EES-gerða sem Ísland hefur skuldbundið sig til að veita gildi að landsrétti innan ákveðins frests. Helstu breytingarnar eru raktar hér á eftir.

Létt bifhjól

Breytt er skilgreiningunni á léttu bifhjóli á þann veg að til verða tveir flokkar, annars vegar létt bifhjól í flokki I (rafmagnsvespa) sem ekki er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og hins vegar létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. Heimilt er að aka léttu bifhjóli í flokki I á akbraut, gangstétt, hjólastíg eða gangstíg enda valdi það ekki hættu eða óþægindum en ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á því hjólastígnum. Létt bifhjól í flokki I verða jafnframt skráningarskyld hjá Samgöngustofu frá og með 1. apríl næstkomandi. Ekki þarf að hafa sérstök ökuréttindi til að aka þeim en ökumaður þarf að vera 13 ára gamall.

Endurmenntun atvinnubílstjóra

Þá er í lögunum nýmæli um að bílstjórar í farþega- og vöruflutningum í atvinnuskyni (réttindaflokkar C1, C, D1 og D) skuli gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti og má sú endurmenntun fara fram í fjarnámi. Setur ráðherra reglugerð um nánari tilhögun hennar. Í bráðabirgðaákvæði laganna segir að þessi skylda til endurmenntunar nái til þeirra sem hafa við gildistökuna réttindi til að stjórna ökutækjum í ofangreindum flokkum sem og þeirra sem hljóta þau eftir gildistökuna. Þann 10. september 2018 skulu allir sem hafa réttindi í áðurnefndum flokkum hafa undirgengist þessa endurmenntun. Bent er á í athugasemdum við lagafrumvarpið að ákvæðið sé ekki einungis íþyngjandi fyrir íslenska atvinnubílstjóra heldur veiti þeim einnig réttindi til aksturs í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Forsögu þessara breytinga má rekja allt til ársins 2007 þegar þáverandi samgönguráðherra skipaði nefnd um heildarendurskoðun umferðarlaga. Var frumvarp lagt fram á Alþingi 2009-2010 en var ekki útrætt og lagt aftur fram á næstu þingum lítillega breytt. Í haust var fallið frá því að leggja fram heildarfrumvarp en þess í stað lagt fram minna frumvarp með ákvæðum sem brýnt var talið að næðu fram að ganga.

Samgöngustofa annast framkvæmd breytinganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum