Hoppa yfir valmynd
10. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra flutti ávarp áráðstefnu um fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti í dag setningarávarp ráðstefnunnar fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands stóð fyrir ásamt Nasdaq Iceland, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafræðideild HÍ. Flutt voru nokkur erindi og endað á pallborðsumræðum.

Ráðstefna um góða stjórnarhætti var haldin í Háskóla Íslands í dag.
Ráðstefna um góða stjórnarhætti var haldin í Háskóla Íslands í dag.

Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við HÍ, bauð gesti velkomna í upphafi og sagði þetta í annað sinn sem efnt væri til ráðstefnu af þessum toga.

Ólöf Nordal setti ráðstefnu um stjórnarhætti.Innanríkisráðherra sagði meðal annars í setningarávarpi sínu að rannsóknarstarf á stjórnarháttum þyrfti að ná til allra sviða þjóðfélagsins, atvinnulífs og hins opinbera, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Ráðherra rifjaði upp að á vegum stjórnvalda hefði margt verið gert á sviði fræðslu um stjórnarhætti með útgáfu leiðbeininga, ráðstefnuhaldi og námskeiðum. Sagði ráðherra að fyrirtæki sem væri vel stjórnað leggðu grunninn að störfum og verðmætasköpun og að til lengri tíma litið ykju góðir stjórnarhættir hagvöxt og velferð í samfélaginu. Ráðherra sagði tilgang með rannsóknum og eflingu góðra stjórnarhátta miða að því að hið opinbera, atvinnulífið og vísindasamfélagið myndu skapa þannig umgjörð og samfélag að það gæti staðist öðrum ríkjum snúning.

Undir lok ávarps síns sagði innanríkisráðherra: ,,Stjórnarhættir þurfa alltaf að vera til skoðunar. Við þurfum að stunda rannsóknir og sjálfskoðun, þurfum sífellt að líta í eigin barm og muna að þetta er eilífðarverkefni. Við getum ekki hallað okkur aftur í stólnum einn daginn og sagt að þetta sé allt harla gott. Nei, við þurfum að halda áfram. Gera betur í dag en í gær og kanna hvort við getum ekki gert enn betur á morgun. Þess vegna er Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti nauðsynleg og þess vegna er nauðsynlegt að koma saman og heyra um nýja strauma og stefnur á þessu sviði.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum