Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2015 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er 10. febrúar

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn verður haldinn á morgun, 10. febrúar, og er það í tólfta sinn sem öryggismál á netinu eru tekin til sérstakrar umfjöllunar. Í ár munu um 100 lönd standa fyrir skipulagðri dagskrá. Yfirskrift dagsins er: Gerum netið betra saman.

Samtökin SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni, sem er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi, vekur athygli á deginum og hefur sent skólum landsins dreifibréf til að minna á daginn og vekja athygli á nýju fræðsluefni. Eru skólar landsins hvattir til að fjalla um netöryggi í tilefni dagsins. Á vef SAFT eru margs konar leiðbeiningar um góðar netvenjur, meðal annars netorðin 5 og ýmis netheilræði.

Þá er að minna á vefinn netoryggi.is sem er vefur á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Er hann er fyrst og fremst ætlaður almenningi og inniheldur leiðbeiningar og fræðsluefni um öryggismál, neytendavernd, persónuvernd og siðferðileg álitaefni sem tengjast sívaxandi notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Einnig má minna á upplýsingamiðlun lögreglunnar á Facebook. Þar birtast iðulega ábendingar um netnotkun og ýmislegt sem getur þurft að varast. Í síðustu viku var til dæmis varað við svikahröppum sem nýta sér Netið til að komast í kynni við fólk, vinna trúnað þess og svíkja síðan út úr því fé.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum