Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um þjóðskrá til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um þjóðskrá er nú til kynningar hjá ráðuneytinu en með því eru lögð til ný heildarlög um þjóðskrá. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 22. janúar næstkomandi. Markmið frumvarpsins er að fá fram skýrar lagaheimildir fyrir Þjóðskrá Íslands til þess að stofnunin geti sinnt verkefnum sínum á traustum grunni og með fullnægjandi fjármögnun.

Frumvarpið er unnið í samstarfi við Þjóðskrá Íslands. Núgildandi lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, eru ekki í takt við samfélagið og tæknibreytingar undanfarinna áratuga. Lögin voru samin við aðra þjóðfélagshætti, viðhorf, stjórnsýslu og tækniumhverfi en nú er. Framfarir á sviði upplýsingatækni og auknar kröfur til stofnunarinnar hafa gert það að verkum að hún hefur þurft að sinna ýmsum verkefnum sem ekki er skýrt gert ráð fyrir í lögum. Snúa þessi verkefni aðallega að upplýsingamiðlun, þ.e. hvaða upplýsingum skuli eða megi miðla og til hverra. Þá eru gjaldtökuheimildir stofnunarinnar afar takmarkaðar og því hefur hún neyðst til að veita ýmiskonar þjónustu, meðal annars einkaaðilum, langt undir kostnaðarverði.

Orðið er aðkallandi að fá fram skýrar og nægjanlegar lagaheimildir til að Þjóðskrá Íslands geti sinnt verkefnum sínum á traustum grunni. Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarin ár, þar með talin greining á regluverkinu, þarfagreining, skoðun samsvarandi löggjafar í nágrannaríkjunum o.s.frv. Þessi vinna fór meðal annars fram í nefnd sem skipuð var af ráðuneytinu árið 2010 og starfaði fram á árið 2011. Hefur því verið haft samráð við ýmsa aðila er málið varðar.

Frumvarpsdrögin skiptast í fjóra kafla sem eru eftirfarandi:

I. kafli - Almenn ákvæði

Kaflinn inniheldur ákvæði um markmið, stjórnsýslu, skilgreiningar og hlutverk Þjóðskrár Íslands. Efni ákvæðanna endurspeglar starfsemi stofnunarinnar í dag.

II. kafli - Þjóðskrá

Þessi kafli frumvarpsdraganna hefur að geyma skýra upptalningu á því hvaða upplýsingar skuli skrá um þá einstaklinga sem eru í skránni og hvaða upplýsingar heimilt er að skrá samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð. Þá er jafnframt fjallað um með hvaða hætti tilkynnt skuli um skráningu/breytingar á skráningu og ábyrgð á slíkri upplýsingagjöf.

III. kafli - Miðlun þjóðskrár og útgáfa vottorða

Þjóðskrá Íslands veitir í dag í gegnum miðlara aðgang að upplýsingum úr þjóðskrá bæði einkaaðilum og opinberum aðilum. Um er að ræða veigamikinn þátt í þeirri þjónustu sem stofnunin veitir en reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að skýra þær lagareglur sem um hana gilda. Gert er ráð fyrir að sú starfsemi sem nú á sér stað, þ.e. að miðla upplýsingum í gegnum miðlara með samningi, haldi áfram. Samningsskilmálar séu skýrir og birtir á vef Þjóðskrár Íslands.

IV. kafli - Ýmis ákvæði

Í þessum lokakafla er að finna ýmis ákvæði sem eru nýmæli varðandi t.d. mat og kröfur til erlendra gagna, gjaldtöku, refsingar (t.d. við rangri upplýsingagjöf og brotum er varða miðlun upplýsinga) og síðast en ekki síst gjaldtöku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum