Hoppa yfir valmynd
18. desember 2014 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi

Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í yfirlýsingunni segir að ráðherrarnir séu einhuga um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Þrír ráðherrar undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi.
Þrír ráðherrar undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi.

Ráðherrarnir hafa ákveðið að efnt verði til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds undir forystu ráðuneytanna þriggja og að undirbúin verði aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Þau Eygló Harðardóttir, Ólöf Nordal og Illugi Gunnarsson skrifuðu undir samstarfsyfirlýsinguna í innanríkisráðuneytinu. Við undirritunina lögðu ráðherrarnir áherslu á samstarf sem þetta væri mikilvægt til að ná sem mestum árangri í verkefninu.

Illugi Gunnarsson, Ólöf Nordal og Eygló Harðardóttir undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna.

Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til telst einnig hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns.

Eftirtöldum aðilum verður meðal annars boðið til samráðs vegna málsins:

Barnahúsi, Barnaverndarstofu, Fjölmenningarsetri, réttindavakt velferðarráðuneytis, Ríkislögreglustjóra, Ríkissaksóknara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmanni barna og Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Enn fremur verður leitað til frjálsra félagasamtaka sem koma að velferð þessara hópa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum