Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2014 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjallað um net- og upplýsingaöryggi og rafræna þjónustu á ráðstefnu UT dagsins

Gegnsæ stjórnsýsla, net- og upplýsingaöryggi, rafrænar undirskriftasafnanir og árangur í fjarskiptum var meðal umfjöllunarefna á ráðstefnu UT dagsins, Byggjum, tengjum og tökum þátt, sem var í Reykjavík í dag. Auk ráðstefnunnar var haldinn fræðslufundur fyrir vefstjóra um upplýsingaöryggi og varnir opinberra vefja gegn hvers kyns tölvuárásum.

Ráðstefna UT dagsins var haldin í Reykjavík í dag.
Ráðstefna UT dagsins var haldin í Reykjavík í dag.

Að ráðstefnu UT dagsins standa Samband íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélagið auk innanríkisráðuneytisins. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, var ráðstefnustjóri og sagði hún í upphafsávarpi sínu að heiti ráðstefnunnar vísaði til stefnu stjórnvalda um upplýsingatækni sem nefndist Vöxtur í krafti netsins – Byggjum, tengjum og tökum þátt. Hún sagði ráðstefnuna fjalla um það sem efst væri á baugi í rafrænum samskiptum og rafrænni stjórnsýslu. Dagskráin væri fjölbreytt og fjallað yrði um stöðu lykilverkefna í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem unnið væri að hjá opinberum aðilum. Rakti hún því næst nokkur verkefni sem unnið væri að á vegum innanríkisráðuneytisins.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, var ráðstefnustjóri.

Öryggi opinberra vefja metið

Meðal verkefna væru umbætur á opinberum vefjum og yrði í næstu úttekt á þeim í fyrsta sinn metið hvernig öryggi vefjanna væri háttað. Þá nefndi hún verkefni um gagnasamskipti innan réttarvörslukerfisins en fyrsta áfanga þess væri að ljúka og hefði hann snúist um kortlagningu á gögnum sem fara milli stofnana innan kerfisins. Þá sagði hún ráðgert að leggja fyrir Alþingi frumvarp um lénamál sem stuðla ætti meðal annars að öruggri og skilvirkri umsýslu með íslenskum höfuðlénum. Einnig nefndi hún verkefnið um að styðja við hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum svo og endurskoðun fjarskiptaáætlunar.

Þá kom fram í máli Ragnhildar að drög að stefnu um net- og upplýsingaöryggi yrðu sett á vef innanríkisráðuneytisins á morgun til umsagnar. Tengt því máli væri lagafrumvarp um flutning netöryggissveitar frá Póst- og fjarskiptastofnun til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem yrði væntanlega lagt fyrir Alþingi á næstunni.

Undir lok ávarps síns nefndi ráðuneytisstjórinn verkefni um upplýsingatæknimiðstöð sem snýst meðal annars um að kanna hvort fýsilegt sé að Þjóðskrá Íslands taki að sér hlutverk upplýsingatæknimiðstöðvar sem þjóni ríkisstofnunum og jafnvel sveitarfélögum ef áhugi er fyrir því.

Opin og gegnsæ stjórnsýsla

Meðal umfjöllunarefna ráðstefnunnar var erindi Tryggva Björgvinssonar um opna og gegnsæja stjórnsýslu og tvö erindi um skipulag, öryggi og samvirkni. Um það ræddu þeir Hermann Ólason, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Tryggingastofnunar, en erindi hans hét landsarkitektúr fyrir opinber kerfi og Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, sem fjallaði um net- og upplýsingaöryggi og hvað stjórnvöld væru að gera í málinu. Hjörtur Þorgilsson, formaður ICEPRO, ræddi um rafræna reikninga og mikilvæg skref til hagræðingar með rafrænum viðskiptum og undir yfirskriftinni lýðræði ræddu þau Arnar Pálsson, ráðgjafi hjá Capacent, um virka samráðsferla á netinu og Halla Björg Baldursdóttir, um öruggar rafrænar undirskriftasafnanir.

Fjölmargir fyrirlestrar voru flutti á ráðstefnu UT-dagsins í dag.

Sjúklingagáttin Vera komin í loftið var erindi Inga Steinars Ingasonar frá Embætti landlæknis og Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur hjá ríkisskattstjóra kynnti rafræna fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Síðasta erindið var um árangur í fjarskiptum sem Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs, flutti. Kom meðal annars fram í máli hennar að búið væri að gefa út leiðbeiningar um ljósleiðarauppbyggingu og ríkisstyrki sem væru sveitarfélögum mjög mikilvægar í því verkefni þeirra. Einni sagði hún að nú stæði  yfir endurskoðun á fjarskiptaáætlun 2015 til 2026.

Kynningar ráðstefnunnar verða birtar á vef Skýrslutæknifélags Íslands.

Á fræðslufundi vefstjóra um upplýsingaöryggi og opinbera vefi sem fram fór fyrir hádegi var fjallað um öryggisþætti sem hafa þarf í huga við val á vefumsjónarkerfum og hýsingarfyrirtækjum, stjórnun aðgangs, öryggisafritun og mikilvægi öryggisprófana á veflausnum. Fundinn sat á sjöunda tug vefstjóra svo og aðrir sem sinna þróun vefmála. Leiðbeinandi var Svanur Ingi Hermannsson, sérfræðingur í tölvuöryggi.

Frá fræðslufundi um upplýsingaöryggi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum