Hoppa yfir valmynd
17. október 2014 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra lagði áherslu á náið samstarf ríkis og sveitarfélaga á ársþingi SSNV

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í gær en meðal umfjöllunarefna ársfundarins auk aðalfundarstarfa var erindi um landsskipulagsstefnu, stefnumörkun og aðkomu sveitarfélaga, um stöðu og framtíð Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og um sóknaráætlanir landshluta. Auk ráðherra ávörpuðu fundinn þeir Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.

Innanríkisráðherra flutti ávarp á ársþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
Innanríkisráðherra flutti ávarp á ársþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Í ávarpi sínu ræddi ráðherra meðal annars um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem hún sagði mikilvæg og sagði dyr sínar alltaf standa opnar fyrir sveitarstjórnarfulltrúum. Hanna Birna sagði unnið að hvítbók í sveitarstjórnarmálum til að styrkja samráð og samskipti ráðuneytisins og sveitarfélaga og yrðu drög hennar tilbúin undir áramót og þá verða rædd á vettvangi sveitarstjórnarstigsisns.

Ráðherra þakkaði fyrir gott samstarf og samskipti vegna breytinga á umdæmum sýslumanna og lögreglustjóra og sagði að lögð hefði verið mikil áhersla á það í aðdraganda þeirra breytinga, sem koma til framkvæmda um áramótin, að ríkt samráð yrði haft við sveitarfélög, Samband íslenkra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Hún fjallaði um fjarskipti og sagði ljóst að nokkuð vantaði uppá uppbyggingu í þeim málaflokki og taldi brýnt að auka samstarf ríkis og sveitarfélaga á því sviði svo og að auka samstarfið við fjarskiptafyrirtækin. Stefna ætti að því að Ísland verði meðal fremstu þjóða í fjarskiptamálum.

Hanna Birna sagði minnkandi kosningaþátttöku vera áhyggjuefni og minnti á að nú stæði yfir rannsókn í samvinnu ráðuneytisins og fræðimanna til að leita skýringa á þeirri þróun sem vinna þyrfti úr í samvinnu við sveitarfélögin. Í lokin drap hún á þá hugmynd að stefna að því að auka samstarf ríkis og einkaaðila varðandi samgönguframkvæmdir og væri ætlunin að leita nýrra leiða til að fjármagna framkvæmdir á sviði vegamála og jafnvel á fleiri sviðum samgöngumála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum