Hoppa yfir valmynd
4. september 2014 Innviðaráðuneytið

Lög og reglur, öryggismál og fjárveitingar til umræðu á hafnasambandsþingi

Meðal efnis á hafnasambandsþingi sem nú stendur yfir á Ólafsfirði er umfjöllun um fjárhagslega stöðu hafna sem Gunnlaugur Júlíusson ræddi og síðan ræddi Valur Rafn Halldórsson, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Hafnasambandsins, um efnhagsleg áhrif hafna. Kom meðal annars fram í máli hans að þó að beint framlag hafna væri aðeins 0,3% í landsframleiðslu væru óbein áhrif mun meiri og spurði hvar til dæmis væru stödd byggðarlög eins og Súðavík, Þorlákshöfn, Grenivík, Höfn eða Vestmannaeyjar ef ekki væru hafnir í þessum byggðarlögum.

Hafnasambandþing stendur í dag og á morgun á Ólafsfirði.
Hafnasambandþing stendur í dag og á morgun á Ólafsfirði.

Umföllunarefni Vals byggist á meistararitgerð hans um bein og óbein efnahagsleg áhrif hafna og hvernig þær gætu bætt fjárhag sinn. Hann sagði að þó að ekki væri hægt að alhæfa fyrir allar hafnir væri besta leið hafna til að bæta fjárhaginn samvinna eða sameining til að ná fyrirfram ákveðinni stærðarhagkvæmni. Mætti líka þeirri umræðu við sameiningu sveitarfélaga. Einnig benti hann á möguleika á auknum tekjum af ferðamönnum, t.d. hjá þeim höfnum sem gætu tekið á móti skemmtiferðaskipum og að auka mætti þjónustu vegna siglinga til Grænlands og um Norður-Atlantshafið. Sem dæmi um áhrifin benti Valur á að um 9 þúsund manns hefðu starfað árið 2012 við fiskveiðar eða fiskvinnslu, um 95 þúsund ferðamenn kæmu til landsins með skipum og fram hefði komið í könnun að um 39% allra ferðamanna sem til landsins kæmu færu í hvalaskoðun.

Undir liðnum hafnalög og reglugerðir ræddi Hreinn Haraldsson, forstjóri Vegagerðarinnar, um hlutverk Vegagerðarinnar og fjárveitingar til hafnamála, Þórólfur Árnason, forstjóri Samöngustofu, fjallaði um breytingar á starfsemi Samgöngustofu, Hermann Guðjónsson, sérfræðingur hjá Samgöngustofu, greindi frá neyðarhöfnum og öryggi í höfnum og Gísli Gíslason hafnarstjóri ræddi lagabreytingar frá síðasta hafnasambandsþingi og umhverfið framundan.

Uppbygging í einni heild

Hreinn Haraldsson minnti á mikilvægi þess að horfa á uppbyggingu samgöngugreina í einni heild eins og gert hefði verið, m.a. með tilkomu samgönguáætlunar árið 2002. Þá sagði að sameining vita- og hafnamála við Vegagerðina hefði að sínu mati tekist vel en stofnað var siglingasvið sem skiptist í tvær vitadeild og hafnadeild. Fór hann yfir fjárveitingar síðustu ára þar sem fram kom að fjárveiting fór mjög minnkandi eftir árið 2008 til allra sviða hafnamála. Einnig minnti hann á þýðingu þess að við gerð samgönguáætlana yrði horft meira til verkefna á sviði hafnamála en verið hefði. Helstu framkvæmdir á næstu tveimur árum sagði Hreinn vera endurbyggingu Brjótsins í Bolungarvík, sjóvarnir við Vík í Mýrdal, dælubúnaður og lenging innri garða Landeyjahafnar og fleira. Rannsóknarverkefni væru m.a. á sviði sandburðar við suðurströndina svo, öldukort, líkantilraunir og fleira.

Þórólfur Árnason ræddi breytingar á Samgöngustofu. Nefndi hann í upphafi að við stofnun Faxaflóahafna fyrir áratug hefði verið horft til alls svæðisins frá Reykjanestá að Arnarstapa og hann taldi mál standa öðruvísi ef Kópavogshöfn hefði átt aðild að Faxaflóahöfnum. Þórólfur sagði fyrirhugað að bjóða fulltrúum hafna til reglulegra funda til að ræða þau málefni hafna sem snúa að verkefnum Samgöngustofu og sagði hann lykilorðið í þessum samskiptum vera samvinnu. Hann sagði brátt verða af því að Samgöngustofa sameinaðist undir eitt þak við Ármúla í Reykjavík sem væri mikilvægt skref í því að þróa betri þjónustu.

Hermann Guðjónsson ræddi um neyðarhafnir og skipaafdrep en með skipaafdrepi er átt við skipalægi þar sem skip í erfiðleikum geta leitað skjóls. Sagði hann tilkomu þeirra meðal annars hafa orðið vegna skipsskaða í Evrópu um síðustu aldamót en langan tíma hefði tekið að koma þessu á fyrir utan það skref að stofna Vaktstöð siglinga árið 2004. Hermann sagði samning um aðgerðaráætlun hafa verið undirritaða í vor milli Samgöngustofu, Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar og í framhaldi af því hefði innanríkisráðuneytið boðað til fundar hafnarstjóra neyðarhafna sem eru sex talsins auk afdrepanna

Þá fór Gísli Gíslason yfir lagabreytingar sem orðið hafa frá síðasta hafnasambandsþingi og ræddi umhverfið framundan. Sagði hann mjög þýðingarmikið að fá fram breytingar á hafnalögum sem minnst hafði verið á fyrr á þinginu og sagði einnig brýnt að fylgjast vel með undirbúningi að gerð samgönguáætlana sem nú stæði yfir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum