Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2014 Dómsmálaráðuneytið

Hanna Birna sækir fund innanríkis- og dómsmálaráðherra Evrópuríkja

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sat í dag fund innanríkis- og dómsmálaráðherra Evrópuríkja sem haldinn er á Ítalíu. Helstu umræðuefni fundarins eru mannréttindi, málefni flóttamanna, ofbeldi gegn konum og almannavarnir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir er hér með starfsbræðrum sínum Vidar Brein-Karlsen frá Noregi og Tobias Billström frá Svíþjóð.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er hér með starfsbræðrum sínum Vidar Brein-Karlsen frá Noregi og Tobias Billström frá Svíþjóð.

Málefni flóttamanna og sameiginlegar aðgerðir Evrópuríkja voru í forgrunni á fundi ráðherranna í dag. Á síðustu misserum og árum hefur orðið mikil fjölgun í þeim hópi flóttamanna sem kemur til ríkja Evrópu en þau nýju verkefni og áskoranir sem því fylgja voru til sérstakrar umræðu. Samhliða því var rætt um þau tækifæri sem felast í því að taka á móti innflytjendum og nauðsyn þess að auka skilning og jákvæðari viðhorf til þeirra sem sækja til Evrópu annars staðar frá, í von um betra líf og aukin lífsgæði.

Hanna Birna fór á fundinum yfir þær umbætur sem nú er unnið að hér á landi í málefnum innflytjenda og hælisleitenda en sem kunnugt er miða þær breytingar að styttri málsmeðferðartíma, sjálfstæðri úrskurðarnefnd, fyrirhugaðri endurskoðun útlendingalaga og öflugu samstarfi við mannréttindasamtök á borð við Rauða krossinn. Hanna Birna fjallaði einnig um ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var á afmælisfundi ríkisstjórnarinnar þann 23. maí sl., að taka á móti fleiri flóttafjölskyldum frá Sýrlandi. Þá ítrekaði Hanna Birna þátttöku Íslands á vegum landamærastofnunar Evrópusambandsins (Frontex) en Landhelgisgæslan hefur á síðustu árum verið mikilvægur þátttakandi í því samstarfi með framlagi varðskips og björgunarflugvélarinnar TF-SIF og komið að björgun mörg hundruð flóttamanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum