Hoppa yfir valmynd
26. júní 2014 Dómsmálaráðuneytið

Starf formanns kærunefndar útlendingamála laust til umsóknar

Innanríkisráðuneytið hefur auglýst starf formanns kærunefndar útlendingamála laust til umsóknar.

Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem sett er á laggirnar í samræmi við breytingar á útlendingalögum sem tóku gildi í lok maí. Kærunefndin úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð á grundvelli laga um útlendinga.

Undirbúningur umræddrar nefndar er liður í því að gera stjórnsýsluna skilvirkari, tryggja enn frekar mannréttindi hælisleitenda og stytta málsmeðferðartíma en átak þess efnis hefur staðið yfir frá því í ágúst 2013. Markmiðið með skipan nefndarinnar er meðal annars að mæta gagnrýni á það fyrirkomulag sem ríkt hefur að innanríkisráðuneytið endurskoði ákvarðanir Útlendingastofnunar þar sem ráðuneytið geti ekki talist óháður og óhlutdrægur aðili. Hefur sú gagnrýni bæði komið frá innlendum og erlendum fagaðilum og hefur innanríkisráðherra tekið undir þá gagnrýni.

Formaður kærunefndar útlendingamála hefur yfirstjórn hennar með höndum, fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Um frekara hlutverk vísast nánar til ákvæða í 3.gr. a í lögum um útlendinga. Formaður nefndarinnar skal hafa starfið að aðalstarfi.

Umsækjendur um starfið skulu uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara skv. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 og vera sérfróðir um málefni útlendinga sbr. 3. gr. a laga nr. 96/2002 sbr. lög nr. 64/2014. Viðkomandi skal búa yfir samskipta- og skipulagsfærni, hafa mjög góða þekkingu á stjórnsýslu og gott vald á íslenskri tungu. Góð þekking á ensku og einu norðurlandamáli er æskileg.

Umsóknarfrestur er til 7. júlí nk. Miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 1. október 2014, samkvæmt umsögn sjálfstæðrar þriggja manna valnefndar sem metur hæfi umsækjenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum