Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um íslensk vegabréf

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneyti drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um íslensk vegabréf. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 4. júlí næstkomandi á netfangið [email protected]

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um íslensk vegabréf eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Um er að ræða breytingatillögur er lúta að því að ekki megi breyta útliti umsækjanda á mynd sem ætluð er í vegabréf, heimilt sé í ákveðnum tilvikum að bera höfuðfat á mynd í vegabréfi, gildistíma vegabréfa, vegabréfaskrá o.fl. 

Breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

Myndir í vegabréfum
Þegar sótt er um vegabréf er heimilt, samkvæmt gildandi reglum, að nota mynd sem umsækjandi leggur fram sjálfur á rafrænu formi, enda uppfylli hún kröfur sem gerðar eru til stafrænna mynda í vegabréfum.

Nokkuð er um að með umsóknum um vegabréf hafi fylgt myndir sem augljóslega hefur verið átt við með myndvinnslu og útliti umsækjenda breytt á einhvern hátt. Tilgangur myndar í vegabréfi er að hægt sé að bera saman handhafa vegabréfsins og myndina við framvísun þess. Ef búið er að eiga við mynd, t.d. láta aðila líta út fyrir að vera yngri en hann er, fela auðkenni svo sem fæðingarbletti, ör, hrukkur o.s.frv., og vegabréfið er nýútgefið þá er hætta á að vegabréf þjóni ekki þeim tilgangi sínum að tryggja örugga auðkenningu einstaklings.

Leggur ráðuneytið því til að mælt verði fyrir um það í reglugerð að óheimilt sé að breyta útliti umsækjanda á mynd með hvers konar tölvu- og myndvinnslu.

Höfuðföt á myndum
Til að tryggja örugga auðkenningu einstaklings er almennt óheimilt að bera höfuðföt á myndum nema vegna trúarlegra ástæðna. Lagt er til að einnig verði mælt fyrir um heimild til að bera höfuðfat í myndatöku vegna heilsufarsástæðna. Slíkt hefur viðgengist í framkvæmd og er það jafnframt í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (e. International Civil Aviation Organization) um vegabréf.

Gildistími vegabréfa
Með breytingu á lögum um vegabréf frá 2006, með lögum nr. 72/2006, var gildistími vegabréfa færður niður í fimm ár frá útgáfudegi óháð aldri manna, þar sem margir framleiðendur örflaga á þessum tíma treystu sér ekki til að ábyrgjast að þær entust í tíu ár. Árið 2012 var fengin átta ára reynsla af notkun örflögunnar og því var gildistími vegabréfa færður upp í tíu ár fyrir 18 ára og eldri og fimm ár fyrir einstaklinga undir 18 ára með lögum nr. 153/2012.

Er því lagt til að ákvæði reglugerðarinnar verði færð til samræmis við lögin.

Miðlun vegabréfaskrár/skilríkjaskrár
Fram hafa komið ábendingar um að miðla upplýsingum um gildistíma vegabréfa á heimasíðunni island.is til handhafa íslenskra vegabréfa. Talið er að hagræði geti verið í slíkri miðlun upplýsinga og er því lagt til að bæta við heimild til slíkrar miðlunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum