Hoppa yfir valmynd
11. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að breytingu á reglugerð um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum. Unnt er að gera athugasemdir við drögin og skulu þær berast ráðuneytinu eigi síðar en 18. desember næstkomandi á netfangið [email protected].

Forsaga málsins er sú að ráðuneytinu hefur borist ábending um að nýlegar breytingar á reglugerð nr. 348/2007, sem fela í sér kröfu um að öryggis- og verndarbúnaður barna í ökutækjum skuli uppfylla ECE kröfur, leiði til þess að notkun ákveðins verndarbúnaðar fatlaðra barna sem ekki sé til ECE-viðurkennd staðgönguvara fyrir verði óheimil. Nauðsynlegt sé að heimila annars konar viðurkenndan búnað í tilvikum þegar börn geta ekki vegna fötlunar notað ECE viðurkennda bílstóla.

Lagt er til í drögunum að með nýrri málsgrein í lok 6. gr., er fjallar um öryggi barna í ökutækjum, verði bætt við undanþáguákvæði sem sambærilegt er við undanþáguákvæði f-liðar 5. gr. reglugerðarinnar varðandi notkun öryggisbelta. Er þannig undanþágan bundin þeim skilyrðum að heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður liggi að baki, slíkt grundvallist á læknisvottorði viðkomandi barns og að framvísa beri því vottorði sé eftir því óskað.

Ráðuneytið og Samgöngustofa telja að hér sé að finna ákjósanlegustu lausnina til að bregðast við erindi því sem barst ráðuneytinu fyrr á árinu. Í fyrsta lagi er um að ræða útfærslu sem felur í sér undanþáguheimild þá sem kallað er eftir. Í öðru lagi er talið að með þessu sé verið að færa reglugerðina til frekara samræmis við tilskipun ESB.

Reglugerðin hefur stoð í 71. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og er gert ráð fyrir að hún öðlist þegar gildi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum