Hoppa yfir valmynd
12. september 2013 Dómsmálaráðuneytið

Íslendingar tóku þátt í leitar- og björgunaræfingu við Grænland

Fjölmargir fulltrúar íslenskra leitar- og björgunaraðila tóku þátt í árlegri æfingu á Grænlandi nýverið, SAREX Greenland Sea 2013. Æfingin gekk út á að bjarga fólki í nauð úr 200 manna skemmtiferðaskipi sem hafði strandað á eyjunni Ellu (Ella Island), undan austurströnd Grænlands en um borð var auk farþega 48 manna áhöfn. Hafði eldur kviknað um borð í skipinu. 

Íslendingar tóku þátt í björgunaræfingu á Norðurslóðum sem haldin var við Grænland.
Íslendingar tóku þátt í björgunaræfingu á Norðurslóðum sem haldin var við Grænland.

Æfingin var haldin á grundvelli samnings milli Norðurskautsríkjanna um leit og björgun á Norðurslóðum en tilgangur hennar var að þjálfa aðgerðir leitar- og björgunaraðila þjóðanna átta sem eiga aðild að samningnum.

Frá Íslandi tóku þátt fulltrúar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sem sendi meðal annars sjálfboðaliða til að leika farþega sem slasast höfðu um borð, og Landhelgisgæslu Íslands en flugvélin TF-Sif og varðskipið Týr auk björgunarbátsins Ægis tóku þátt í æfingunni. Æfingin hófst með því að skemmtiferðaskipið hætti að senda frá sér staðsetningarboð innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins. Björgunarmiðstöðin í Nuuk hafði í kjölfarið samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð. Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð á Íslandi og höfðu ýmsir aðilar innanlands einnig aðkomu að aðgerðunum svo sem fulltrúar frá ISAVIA, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglu, Umhverfisstofnun og Landspítalanum. Fallhlífastökkvarar úr Flugbjörgunarsveitinni stukku úr TF-Sif auk stökkvara frá kanadíska flughernum sem stukku úr flugvél hersins og lentu í sjónum nálægt slysstað.  

Æfingin gekk í alla staði vel. Stjórnendur og skipuleggjendur æfingarinnar voru almennt mjög ánægðir með frammistöðu íslensku þátttakendanna í æfingunni og höfðu sérstakt orð á því. Jafnframt verður að teljast ánægjuefni það frumkvæði fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar að hafa meðferðis möstur og tetra kerfið sem þeir virkjuðu á staðnum og hinir björgunaraðilarnir þurftu oftar en ekki að leita í til að geta sent upplýsingar m.a. til Nuuk. Ein stærsta áskorunin við að stunda leitar- og björgunarstörf á þessum slóðum er einmitt sú hve erfitt er að ná fjarskiptasambandi milli landshluta vegna hárra fjalla og erfiðleika við að ná sambandi við gervitungl.

Samhliða leitar- og björgunaræfingunni voru æfð viðbrögð við mengunarslysi sem orðið hafði í kjölfar strandsins. Æfð voru viðbrögð fulltrúa Umhverfisstofnunar hér heima á Íslandi með hliðsjón af mengunaraðgerðum í kjölfar slyssins.

Íslendingar tóku þátt í björgunaræfingu á Norðurslóðum sem haldin var við Grænland.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum