Hoppa yfir valmynd
2. maí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Breyttar reglur um kaup EES borgara á fasteignum hér á landi

Innanríkisráðherra undirritaði þann 17. apríl reglugerð um breytingu á reglugerð sem varðar kaup útlendinga með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu á fasteignum hér á landi. Reglugerðin er sett með stoð í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966 og hefur hún þegar öðlast gildi.

Með reglugerðinni er skýrt mælt fyrir um það að rétturinn til frjálsra fjármagnsflutninga sé ekki sjálfstæður réttur heldur einungis liður í í því að EES aðilar geti öðlast fasteignaréttindi hér á landi í tengslum við hina þrjá þætti fjórfrelsisins, þ.e. frjálsa för fólks, staðfesturétt og þjónustustarfsemi. Það þýðir að erlendum aðila með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að kaupa land nema kaupin séu sannanlega liður í því að hann nýti rétt sinn til að hafa hér á landi lögmæta dvöl eða starfsemi. Takmarkanir eru því gerðar á rétti EES ríkisborgara sem ekki er búsettur hér á landi til að eignast fasteign sem væri honum ekki nauðsynleg vegna atvinnustarfsemi hans eða til að halda þar heimili. Þetta á einnig við um lögaðila á evrópska efnahagssvæðinu.

Réttarstaða samkvæmt reglugerð nr. 697/1995 er tekin upp á nýjan leik og er hún þá í meginatriðum sú sama og hún er í dönskum rétti hvað varðar EES borgara. Vísað er til þess að með reglugerðinni árið 2002 hafi verið gengið lengra en skylt var í aðlögun íslensks réttar að EES-rétti í kjölfar þess að íslenska ríkið tókst á hendur skyldur samkvæmt EES-samningnum.

Reglugerðin varðar eingöngu fasteignaréttindi EES borgara og því þurfa fasteignakaup annarra útlendinga áfram heimild ráðherra samkvæmt lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum