Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu prestastefnu

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp á prestastefnu sem sett var í Háteigskirkju í dag. Á prestastefnu er fjallað um málefni kirkju og starf presta og djákna og hefur prestastefna tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og mál sem annars heyra undir biskup og kirkjuþing.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er hér með sr. Þóri Stephensen og sr. Bernharði Guðmundsssyni við setningu prestastefnu í dag.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er hér með sr. Þóri Stephensen og sr. Bernharði Guðmundsssyni við setningu prestastefnu í dag.

Ögmundur rifjaði upp samskipti sín við þjóðkirkjuna þau tvö og hálft ár sem hann hefði gegnt embætti ráðherra kirkjumála og sagði í upphafi að byrjun og lok kjörtímabils mörkuðu ákveðin þáttaskil hjá stjórnmálamönnum. Hann varpaði því fram hvort tvö og hálft ár væru langur tími, sagði tímann afstæðan og að afstæði tímans hefði birst okkur skýrt á okkar tíð.

Ráðherra sagði kirkjuna stofnaða til að hafa áhrif ,,hún var stofnuð til þess að hafa áhrif á mannkynið til góðs – hræra strengi mennskunnar,” sagði ráðherra og minntist á hlutverk þjóðkirkju Íslands sem nyti stuðnings meirihluta þjóðarinnar. ,,Er það ekki að sýna forystu með breytni sinni, að sýna aðgát í nærveru sálar, að vera holdgervingur þeirrar aðgátar? Alla hluti mannlega þarf að finna upp aftur og aftur einsog þeir séu líkami sem eldist og hrörnar og deyr. Alla baráttu þarf að hefja að nýju, aftur og aftur, því hlutskipti mannsins er að geta ekki skilað næstu kynslóð reynslu hinnar eldri. Einungis hin formlega menning skilar sér. Ekki reynslan, ekki tilfinningalegur skilningur. Og siðferðið? Það er erfitt að kenna siðferði, ef siðferðisstyrkinn vantar.”

Prestastefnan var sett í dag.

Undir lok ræðunnar fjallaði innanríkisráðherra um fjármál kirkjunnar og sagði hana hafa verið aðþrengda undanfarin ár. Hann sagði fulltrúa kirkjunnar aldrei hafa vikið sér undan því að axla byrðarnar af efnahagshruninu og að samningar ríkis og kirkju hafi verið endurskoðaðir hvert ár. Síðan sagði ráðherra: ,,Hins vegar var á það bent að sóknargjöld kirkjunnar voru skorin meira niður en nánast allir aðrir þættir í rekstri en sóknargjöldin ganga sem kunnugt er til þess að fjármagna rekstur og starf á vegum kirkjunnar; starf sem allir skilja að kostar peninga – og þeir sem ekki vilja skilja það – gera það þegar á reynir, þegar náinn ættingi fellur frá og leika þarf á orgel undir söngnum í upphitaðri kirkjunni. Þessi  gjöld voru skorin niður meira en aðrir rekstrarþættir í þjónustu við landsmenn. Á þetta benti kirkjan og ég tók kalli hennar og í sameiningu unnum við að úttekt á þróun sóknargjalda í nefnd sem ég setti á fót undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra. Ráðuneytið kom vel að þessari vinnu og vil ég nefna nafn Odds Einarssonar sérstaklega  í því sambandi. Þessi nefnd skilaði skýrslu sem þegar hefur haft áhrif til góðs og á enn eftir að gera það þannig að sóknargjöldin verði færð í það horf sem lögin í reynd alltaf hafa gert ráð fyrir.

Fjölmenni var við setningu prestastefnu í dag.

Já, við getum talað um peninga. En við getum líka talað um hið góða, um breytni, siðferði og baráttuna fyrir betra mannfélagi. Að sjálfsögðu tölum við um allt þetta. Því íslensk þjóðkirkja er allt þetta. Hún er þúsund ára gömul.

Hún hefur sýnt að hún er ekki komin á leiðarenda. Hún kemst aldrei á leiðarenda. En hjá henni og hjá okkur sem eigum með henni samleið eins og ég hef átt sem ráðherra kirkjumála á undanförnum árum verða stundum tímamót. Og eins og ég gat um í upphafi míns máls þá stend ég nú á slíkum tímamótum. Hvað sem framtíðin ber í skauti sér vil ég nú þakka fyrir gott og gefandi samstarf á liðnum árum og óska Þjóðkirkjunni velfarnaðar á sinni braut.”

  • Ávarp Ögmundar Jónassonar á prestastefnu 2013

Prestastefna var sett í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum