Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Drög að stefnu almannavarna- og öryggismálaráðs til umsagnar

Drög að stefnu almannavarna- og öryggismálaráðs eru nú til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins og eru áhugasamir hvattir til þess að senda inn umsagnir. Unnt er að senda inn athugasemdir til 26. apríl og skulu þær berast á netfangið [email protected] og eru einstaklingar jafnt sem hópar hvött til að senda inn umsagnir.

Almannavarna- og öryggismálaráð markar stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára í samræmi við ákvæði 3. greinar laga nr. 82/2008 um almannavarnir um stefnumörkun í almannavarna- og öryggismálum en þar segir:

Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum skal mörkuð af Almannavarna- og öryggismálaráði til þriggja ára í senn. Í almannavarna- og öryggismálastefnu stjórnvalda skal gera grein fyrir ástandi og horfum í almannavarna- og öryggismálum í landinu, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnarstarf, nauðsynlega sam­hæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, sbr. VI. kafla laga þessara, nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar til þess að markmið laga þessara náist.

Í samræmi við ákvæði almannavarnalaga undirbýr innanríkisráðherra drög að stefnu ráðsins. Liður í því er að afla umsagna sem flestra. Að fengum athugasemdum verða svo drögin fullunnin í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir og lögð fyrir almannavarna- og öryggismálaráð sem lýtur formennsku forsætisráðherra.

Drög að stefnu almannavarna- og öryggismálaráðs fyrir árin 2013–2015 varða starfsemi viðbragðsaðila og opinberra stofnana og miðar stefnan að því að tryggja heildaryfirsýn yfir áhættuþætti og aðgerðir sem nauðsynlegar þykja á sviði almannavarna og málefna sem varða innra öryggi samfélagsins og stuðla að markvissum og samhæfðum aðgerðum. Það viðbúnaðarskipulag sem almannavarnalögin kveða á um miðar að því að allir þræðir liggi saman í einn punkt, svo að unnt sé að bregðast við á skjótan og markvissan hátt til bjargar mannslífum. Ríkislögreglustjóri og almannavarnadeild embættisins annast málefni almannavarna í umboði innanríkisráðherra.

Með hliðsjón af þeirri áherslu sem lögð er á samhæfingu og samþættingu áætlana í sóknaráætlun 2020 er á því byggt að stefna almannavarna- og öryggismálaráðs og markmið hennar taki til allra þátta almannavarna- og öryggismála og verði aðrar áætlanir á því sviði samþættar henni, svo sem gerð löggæsluáætlunar, landhelgisgæsluáætlunar og landamæraáætlunar, áætlunar um leit og björgun og aðgerðaáætlunar gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi.

Í drögum að stefnu almannavarna- og öryggismálaráðs er lögð áhersla á að viðbragðskerfi hér á landi sé vel skipulagt, sveigjanlegt og samhæft svo unnt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum vegna mismunandi ógna, staðbundinna sem hnattrænna, fyrirsjáanlegra sem ófyrirsjáanlegra. Í öðru lagi er lögð áhersla á vernd mikilvægra samfélagsinnviða og í þriðja lagi er lögð áhersla á löggæslu og öryggismál.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum