Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Íslykill tekinn í notkun í innskráningarþjónustu Ísland.is

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í dag nýjan veflykil sem Þjóðskrá Íslands hefur þróað til að tryggja einfalda og örugga leið til auðkenningar inn á vefi og opnaði hann formlega. Lykillinn nefnist Íslykill og hann má nota til innskráningar á einstaklingsmiðaðar síður hjá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem nýta sér innskráningarþjónustu Ísland.is.

Ögmundur Jónasson opnaði formlega íslykilinn í dag. Hér er hann með Margréti Hauksdóttur aðstoðarforstjóra Þjóðskrár Íslands.
Ögmundur Jónasson opnaði formlega íslykilinn í dag. Hér er hann með Margréti Hauksdóttur aðstoðarforstjóra Þjóðskrár Íslands.

Margrét Hauksdóttir, aðstoðarforstjóri Þjóðskrár, kynnti íslykilinn en hann er eins konar nafnskírtini á netinu og samanstendur af kennitölu og leyniorði. Allir sem eiga lögheimili á Íslandi og hafa kennitölu geta fengið íslykil svo og Íslendingar búsettir erlendis. Frá og með deginum í dag geta einstaklingar og fyrirtæki pantað íslykil á http://www.island.is/.

Mikilvægur áfangi

Ögmundur Jónasson opnaði formlega íslykilinn í dag.Við athöfnina sagði Ögmundur Jónasson að tilkoma íslykils væri mikilvægur áfangi í rafrænni þjónustu og tengdist meðal annars umræðu um aukið lýðræði. Hann vitnaði til lagabreytinga sem nýlega hefðu verið samþykktar á Alþingi og gerðu sveitarfélögum kleift að láta fara fram íbúakosningar með rafrænum hætti og að kjörskrá sé rafræn.

Lagabreytingarnar tóku mið af tillögum nefnda á vegum innanríkisráðuneytisins, fyrst nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og síðan nefndar um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði. Í tillögunum kom fram að íbúakosningar með hefðbundnum hætti gætu orðið þungur baggi á sveitarfélögunum. Því lögðu nefndirnar til við innanríkisráðherra að hann beitti sér fyrir breytingu á sveitarstjórnarlögum þannig að íbúakosningar gætu verið rafrænar ef sveitarstjórn óskaði þess.  Jafnframt var því beint til innanríkisráðherra að tryggja að innskráningarþjónusta Ísland.is yrði í stakk búin til að sinna því hlutverki að auðkenna kjósendur í íbúakosningum sveitarfélaga. Ráðherra gerði hvort tveggja og fól Þjóðskrá Íslands, sem rekur innskráningarþjónustu Ísland.is, að gera viðeigandi ráðstafanir.

Ögmundur Jónasson opnaði formlega íslykilinn í dag.

Nafnskírteini á netinu

Þjóðskrá Íslands gefur út vegabréf og nafnskírteini. Íslykill frá Þjóðskrá Íslands er rökrétt framhald af þeirri útgáfu og má líta á hann sem eins konar nafnskírteini á netinu. Innskráningarþjónustu Ísland.is var hleypt af stokkunum fyrir fimm árum og hefur hún skapað góðan grundvöll fyrir rafræna stjórnsýslu. Boðið hefur verið upp á innskráningu með veflykli ríkisskattstjóra og rafrænum skilríkjum. Þessi þjónusta er nú nýtt á um 70 vefjum. Daglega skrá þúsundir sig inn á einstaklingsmiðaða vefi í gegnum innskráningarþjónustu Ísland.is. Auk þess hefur þjónustan nú verið notuð tvö ár í röð við kosningar um verkefni í hverfum Reykjavíkurborgar og með því verið tekin mikilvæg skref í þróun rafræns lýðræðis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum