Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Umhverfi vega skiptir máli þegar öryggi er annars vegar

Verndandi vegir var yfirskrift fundar sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda stóð fyrir í dag um öryggi á vegakerfum. Að fundinum með FÍB stóðu International Road Federation, IRF, innanríkisráðuneytið, Vegagerðin og Samtök fjármálafyrirtækja. Í ávarpi í upphafi fundar sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að brýnt væri að Vegagerðin og aðrir sem hönnuðu samgöngumannvirki hefðu í huga þá hugmyndafræði að umhverfi vega skipti máli þegar öryggi væri annars vegar og sagði hann Vegagerðina einmitt hafa lagt sig eftir henni.

Frá fundi um verndandi vegi sem haldinn var í dag.
Frá fundi um verndandi vegi sem haldinn var í dag.

Michael G. Dreznes, varaforseti IRF, flutti aðalerindi fundarins og fór þar yfir margs konar áhættu sem getur verið fyrir hendi í umhverfi vega og í umferðarmannvirkjum og sýndi fjölmörg dæmi um slíkt. Áður flutti Ögmundur Jónasson ávarp og sagði þar meðal annars að FÍB ætti þakkir skildar fyrir að eiga forgöngu um Eurorap, matið á vegakerfinu sem veitti samgönguyfirvöldum ákveðið aðhald og bendi á galla og brotalamir sem áhætta getur verið fólgin í. Sagði ráðherra sambýli hins opinbera og einkageirans væri stundum erfitt en nauðsynlegt og hann sagði Vegagerðina hafa sinnt vel hvers kyns öryggisstarfi á þessu sviði og þar væru menn vakandi fyrir slíkum verkefnum. Síðan sagði ráðherra:

Búnaður og umhverfið bjarga miklu

,,Með hugtakinu verndandi vegir erum við að horfa á hvaðeina í vegakerfinu sem getur orðið okkur til bjargar þegar eitthvað fer úrskeiðis. Og það kemur fyrir að eitthvað fer úrskeiðis. Búnaður í bílnum getur bjargað okkur að vissu marki, öryggisbelti, öryggispúðinn, helmalæsivörn, spólvörn og skrikvörn og hvað þessar góðu nýjungar nú allar heita.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp á fundinum í morgun.Það er ekki nóg að leggja góða vegi ef við setjum ekki upp vegrið þar sem það á við, ef við gætum þess ekki að öryggissvæðin séu fyrir hendi, ef ljósastaurar eru ekki af viðurkenndri gerð og ef ekki er dregið úr áhættu vegna hindrana við vegi svo ég nefni nokkur dæmi.

Vegagerðin og þeir aðrir sem hanna vegi og önnur samgöngumannvirki eru meðvitaðir um þessa hugmyndafræði. Við höfum kannski ekki lagt nógu mikla áherslu á hana fyrr en á allra seinustu árum og ég held að það megi að vissu leyti þakka það Eurorap matinu. Þar er dregin saman margs konar og ítarleg skráning upplýsinga um vegakerfið og þar er bent á veikleika sem oft er unnt að lagfæra með litlum tilkostnaði.

Vegakerfi okkar er hins vegar bæði víðfeðmt og ýmsir kaflar þess komnir til ára sinna þannig að á því eru ýmsir annmarkar sem við vitum af og vinnum skipulega að því að bæta úr. Margt er hins vegar í mjög góðu horfi þar sem eru þau mannvirki sem yngst eru í vegakerfinu.

Þá vil ég nefna að starfshópurinn um áratug aðgerða í umferðaröryggi, Decade of Action, er nú á sínu öðru starfsári og í vor á ég von á nýjum tillögum frá hópnum með enn fleiri ábendingum um hvar við þurfum að grípa niður í umferðarörygginu. Innan hópsins hafa starfað undirhópar um hin ýmsu svið og einn hópurinn hefur fjallað um innviðina, öryggi vegakerfa og hönnun og á ég von á að þar komi eitt og annað fram sem máli skiptir á þessum sviðum.”

Allir þurfa að leggjast á eitt

Michael G. Dreznes, varaforseti International Road Federation, flutti erindi á fundinum um verndandi vegi.Michael G. Dreznes ræddi síðan um efnið verndandi vegir. Hann minntist í upphafi á herferð Sameinuðu þjóðanna um áratug aðgerða í umferðaröryggi, Decade of Action, sem gengur út á að fá aðildarlönd til að grípa til sérstakra aðgerða í umferðaröryggismálum í því skyni að fækka banaslysum í umferðinni. Um 1,3 milljónir manna látast á ári hverju í umferðarslysum og sagði Michael G. Dreznes að ef ekkert yrði að gert myndi þessi tala hækka. Hann sagði mikinn meirihluta þessara banaslysa vera í þróunarlöndum og gætu önnur ríki aðstoðað við að skipuleggja umferðaröryggisaðgerðir.

Dreznes sagði þrjá þætti ráðandi í umferðinni, ökumanninn, bílinn og veginn. Á öllum þessum sviðum yrði að leggja áherslu á menntun og þjálfun, og kunnáttu í gerð umferðarmannvirkja. Allir yrðu að leggjast á eitt um að beita þekkingu sinni og nýta alla þekkingu og reynslu við hönnun og frágang vega og umhverfis þeirra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum