Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Bílastæðasjóði verður heimilað að flytja brott ökutæki

Innanríkisráðuneytið kynnir drög að reglum fyrir Reykjavíkurborg til að flytja brott ökutæki sem lagt hefur verið ólöglega og auglýsingu um heimild til slíks brottflutnings. Unnt er að senda inn umsagnir um reglurnar til 19. apríl næstkomandi á netfangið [email protected].

Forsaga málsins er sú að í bréfi borgarstjóra frá 21. mars 2012 var þess farið á leit við innanríkisráðuneytið að það heimilaði að Reykjavíkurborg og Bílastæðasjóður mættu flytja eða láta flytja á brott ökutæki skv. 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í 6. mgr. 110. gr. laganna er gert ráð fyrir að ráðherra geti að fenginni ósk sveitarstjórnar ákveðið að framkvæmd ákvæða 1.-5. mgr. 110. gr. laganna fari, eftir því sem við á, að öllu leyti eða að hluta fram á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt er tekið fram að ráðherra geti sett nánari reglur um framkvæmdina.

Ráðuneytið fór þess á leit við borgarráð í apríl 2012 að það sendi ráðuneytinu nánari útlistun á hugsanlegri framkvæmd brottflutnings ökutækja og gjaldtöku ásamt hugmyndum að verklagsreglum. Þau drög bárust ráðuneytinu 13. júní 2012 og voru í framhaldinu send lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til umsagnar. Gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki athugasemdir við að Reykjavíkurborg yrði heimilað að flytja burt ökutæki samkvæmt heimild í umferðarlögum.

Í samræmi við ofangreint eru nú kynnt drög að annars vegar auglýsingu um heimild Reykjavíkurborgar til brottflutnings ökutækja á grundvelli 110. umfl. og hins vegar að reglum um framkvæmdina sem unnin eru með hliðsjón af ofangreindum verklagsreglum og í góðu samstarfi við borgarráð. Borgarráð samþykkti  fyrir sitt leyti reglurnar á fundi 14. mars síðastliðinn.

Sú breyting sem eiga mun sér stað í framkvæmd mun ekki fela í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð eða skerðingu/breytingu á hagsmunum borgaranna.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum