Hoppa yfir valmynd
20. mars 2013 Dómsmálaráðuneytið

Opin bréf til innanríkisráðherra vegna umræðu um ofbeldisfullt klám

Innanríkisráðherra hefur borist bréf undirritað af 110 einstaklingum og samtökum víðsvegar að úr heiminum þar sem lýst er yfir stuðningi við hugmyndir íslenskra stjórnvalda um sporna gegn dreifingu ofbeldisfulls kláms á netinu. Er fagnað vilja íslenskra stjórnvalda til að takast á við þann skaða sem klám veldur með heildstæðum hætti, þar með talið sem lið í því að draga úr völdum klámiðnaðarins sem veltir gífurlegum fjárhæðum á hverju ári. Þá er sérstaklega áréttað mikilvægi þess að vernda börn fyrir skaðsemi kláms og að ófært sé að gera þá kröfu til foreldra og skóla einna. Þvert á móti beri samfélaginu skylda til að grípa til aðgerða til að verja börn.

Bréfritarar fagna því jafnframt að til standi að skilgreina klám með vísan til ofbeldis og vanvirðingar og er þeirri hvatningu beint til íslenskra stjórnvalda að missa ekki móðinn undir dómsdagsspám um alræðistilburði og neðanjarðarmarkað með klám. „Dirfska ykkar og frumkvæði í að vernda börn og viðurkenna rétt kvenna til öryggis og jafnréttis veita okkur innblástur,“ segir jafnframt í bréfinu og tilgreint er að þegar hafi kaup á vændi og starfsemi nektardansstaða verið bönnuð á Íslandi. „Sem hópur fræðimanna, aðgerðasinna og fagfólks um allan heim, sem vinnur að sama markmiði, stöndum við með ykkur og hlökkum til að sjá niðurstöður þessa starfs ykkar,“ segir í bréfinu.

Þetta er annað alþjóðlega bréfið sem innanríkisráðherra hefur borist vegna umræðu og tillögugerðar um leiðir til að sporna gegn ofbeldisfullu klámi. Hitt barst 28. febrúar sl. og var undirritað af 42 einstaklingum og samtökum sem lýstu áhyggjum af umræðu um mögulegar takmarkanir á dreifingu kláms á internetinu.

Í því bréfi sagði m.a: „Þetta er lítilsvirðing við grunnreglur samfélagsins, og um leið og við gerum okkur grein fyrir því að umræðan er á byrjunarstigi þá teljum við að nálgunin sé skaðleg.“ Vísað er til þess að alræðisríki geti notað aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn klámi sem grundvöll til réttlætingar almennri ritskoðun á internetinu.

Í bréfinu er jafnframt staðhæft að það sé tæknilega ómögulegt að „ritskoða“ efni á internetinu án þess að vakta um leið öll netsamskipti. „Slíkt ríkiseftirlit er á skjön við hugmyndina um frjálst samfélag,“ segir í bréfinu þar sem jafnframt er tilgreint að leiðin í þessum efnum sé að bæta kynfræðslu á heimilum og innan skóla og að foreldrar eigi þess kost að nýta tæknina til að auka öryggi barna á internetinu.

Innanríkisráðherra hefur nú brugðist við síðarnefnda bréfinu með svari sem birt er hér að neðan bæði á ensku og íslensku en þar segir m.a: „Að hafna því að klámiðnaðurinn eigi að hafa óheft aðgengi að börnum og ungmennum til að móta og stýra hugmyndum þeirra um kynlíf, kynhneigð og samskipti jafngildir ekki því að vilja ritskoða internetið, svo sem lesa má af því bréfi sem mér hefur borist. Ég legg hins vegar einnig ríka áherslu á að þær ráðstafanir sem kann að verða gripið til vegna dreifingar ofbeldisfulls kláms á netinu verði gagnsæjar og í samræmi við leikreglur réttarríkisins. Slíkar ákvarðanir verða einnig aðeins teknar að undangenginni lýðræðislegri umræðu sem nú stendur yfir. Ég tel ekki að ábyrg stjórnvöld sem vilja í senn gæta að velferð barna og hafna kynferðisofbeldi geti hjá setið þegar sérfræðingar vara við áhrifum ofbeldisfulls kláms.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum