Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Minnisblað um komu bandarísku Alríkislögreglunnar til Íslands í ágúst 2011

Hér á eftir fer texti minnisblaðs sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í dag. Minnisblaðið var jafnframt lagt fram á sameiginlegum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem haldinn var í dag.

Innanríkisráðherra vísar til opinberrar umfjöllunar vegna þeirra mála er lúta annars vegar að réttarbeiðni sem ráðuneytinu barst frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna (U.S. Department of Justice) að beiðni Alríkislögreglunnar (FBI) og saksóknara New York-ríkis í Bandaríkjunum og hins vegar að rannsókn bandarískra stjórnvalda á málum tengdum Wikileaks.      

Líkt og fram kemur í sameiginlegri samantekt ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, dags. 4. febrúar 2013, má upphaf máls þessa hér á landi rekja til upplýsinga sem FBI kom á framfæri við ríkislögreglustjóra þann 20. júní 2011 um fyrirhugaða tölvuárás á tölvukerfi Stjórnarráðsins. Í kjölfar þessara upplýsinga hófu íslensk stjórnvöld samvinnu um viðbragðsaðgerðir innanlands ásamt því sem samvinna við bandarísk yfirvöld hófst til frekari upplýsingaöflunar.

Í lok júní 2011 barst innanríkisráðuneytinu réttarbeiðni frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna (U.S. Department of Justice), að beiðni FBI og saksóknara New York-ríkis í Bandaríkjunum þar sem óskað var eftir aðstoð og samvinnu vegna rannsóknar á sakamáli þar ytra sem laut að því að brjótast eða „hakka“ sig inn í tölvukerfi íslenskra stjórnvalda til að valda stjórnvöldum vandræðum.

IV. kafli laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum geymir ákvæði um réttaraðstoð í sakamálum. Meginreglan samkvæmt lögunum er að réttarbeiðni skal send innanríkisráðuneytinu nema annað sé ákveðið með samningi við annað ríki. Á árunum 2007-2012 bárust innanríkisráðuneytinu (áður dóms- og kirkjumálaráðuneyti og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti) samtals 203 réttarbeiðnir í sakamálum frá öðrum ríkjum. Á sama tímabili voru 54 réttarbeiðnir sendar út frá Íslandi til afgreiðslu hjá öðrum ríkjum. Í réttarbeiðni skulu vera upplýsingar um tegund afbrots og hvar og hvenær það var framið, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Óheimilt er að verða við beiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 5.–7. gr. laganna getur ekki verið grundvöllur framsals. Með vísan til 5. mgr. 22. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum var réttarbeiðnin frá Bandaríkjunum framsend ríkissaksóknara þann 6. júlí 2011. Ríkissaksóknara ber að hlutast til um að nauðsynleg rannsókn fari fram. Þegar efni réttarbeiðninnar hefur verið framkvæmt og rannsókn hefur verið lokið sendir ríkissaksóknari innanríkisráðuneytinu öll gögn málsins og álitsgerð um það. Ráðuneytið tekur síðan ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni, sbr. 6. mgr. 22. gr. laga nr. 13/1984. Að þessu sögðu er aðkoma ráðuneytisins að framkvæmd réttarbeiðna eingöngu í upphafi og lok máls. Almennt hefur ráðuneytið því ekki vitneskju um framgang réttarbeiðna, nánar tiltekið rannsókn og aðgerðir íslenskra löggæsluyfirvalda fyrr en þeim er lokið. Það skal tekið fram að í kjölfar þessa máls haustið 2011 tók ráðuneytið til endurskoðunar og væntanlegrar uppfærslu verklagsreglur og löggjöf um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum.

Í júlí 2011 gerðu fulltrúar ríkislögreglustjóra ráðuneytinu grein fyrir því að FBI hefði óskað þess að þeir kæmu til fundar í Bandaríkjunum vegna upplýsinga sem taldar voru tengjast málinu og vörðuðu Ísland. Eftir það fóru fulltrúar frá Ríkislögreglustjóra til fundar við fulltrúa FBI í Bandaríkjunum.

Að morgni 24. ágúst 2011 hafði ríkissaksóknari samband við innanríkisráðuneytið og gerði grein fyrir fyrirhugaðri komu bandarískra FBI fulltrúa ásamt saksókurum til Íslands þá um kvöldið. Gerði ríkissaksóknari ráðuneytinu jafnframt grein fyrir því að koma þeirra myndi vera í tengslum við að íslenskur maður hafði kvöldið áður gefið sig fram við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Kvaðst hann vita af lögreglurannsókn bandarískra og íslenskra stjórnvalda og sagðist hann vilja starfa með bandarískum yfirvöldum við að uppljóstra málið.

Samdægurs fór fulltrúi ráðuneytisins af þessu tilefni á fund sem ríkissaksóknari hafði boðað með fulltrúum ríkislögreglustjóra. Á fundinum var farið yfir þróun málsins frá því að réttarbeiðnin barst í lok júní 2011. Kom fram að erfitt væri að meta framhaldið og hvernig bregðast ætti við heimsókninni án þess að fá frekari upplýsingar um tilgang hennar. Þess ber að geta að skilningur ráðuneytisins var ekki sá að veitt hefði verið heimild fyrir komu fulltrúanna til Íslands. Fyrir lá að þeir höfðu óvænt boðað komu sína og voru á leiðinni til landsins. Þannig er skilningur ráðuneytisins á þessu atriði annar en sá sem fram kemur í sameiginlegri samantekt ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, dags. 4. febrúar 2013.

Að morgni fimmtudagsins 25. ágúst 2011 gerði ríkissaksóknari ráðuneytinu grein fyrir nánari tilgangi ferðar fulltrúa FBI. Hugðist FBI ræða við fyrrnefndan íslenskan ríkisborgara sem hafði gefið sig fram við bandaríska sendiráðið, fá frá honum upplýsingar og afla sönnunargagna vegna rannsóknar á því máli sem, að mati ríkissaksóknara, fyrirliggjandi réttarbeiðni laut að og að sú rannsókn væri hluti af sakamálarannsókn í Bandaríkjunum sem beindist  m.a. að Wikileaks.

Í ljósi þessara upplýsinga um tilgang komu bandarísku fulltrúanna hingað til lands yfirfór ráðuneytið að nýju réttarbeiðnina sem barst í lok júní. Að þeirri yfirferð lokinni, samdægurs, óskaði innanríkisráðherra eftir fundi með ríkissaksóknara þar sem hann gerði grein fyrir því, að eftir frekari athugun málsins væri það mat ráðuneytisins að fyrirhugaðar aðgerðir FBI hér á landi rúmuðust ekki innan efni réttarbeiðninnar frá því í lok júní 2011, enda vörðuðu aðgerðirnar rannsókn á öðru sakamáli en því sem réttarbeiðnin laut að. Réttarbeiðnin sem barst íslenskum stjórnvöldum í júní næði ekki til þeirrar aðstoðar, eða aðgerða, sem FBI vildi framkvæma í ágúst, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 13/1984. Til aðgerðanna þyrftu bandarísk stjórnvöld að leggja fram nýja réttarbeiðni, og yrði ákvörðun um réttaraðstoð tekin á grundvelli hennar, sbr. ákvæði laga nr. 13/1984. Jafnframt setti ráðherra sig í samband við fulltrúa ríkislögreglustjóra og gerði þeim grein fyrir framangreindri niðurstöðu og fór þess á leit að lögreglan tæki ekki lengur þátt í aðgerðum bandarískra yfirvalda.

Í framhaldinu upplýsti innanríkisráðherra m.a. utanríkisráðherra málið. Þegar í ljós kom síðar að fulltrúar FBI voru enn að störfum hér á landi þann 29. ágúst 2011 boðaði innanríkisráðherra til fundar með ráðuneytisstjórum utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis til að fara yfir stöðu málsins og ítreka athugasemdir við veru FBI hér á landi. Í kjölfar þessa kom utanríkisráðuneytið þeirri ósk á framfæri við sendiráð Bandaríkjanna að fulltrúar FBI ræddu ekki frekar við upplýsingaaðilann hér á landi og að ekki væri talið eðlilegt að þeir væru við lögreglustörf á Íslandi. Í framhaldi þess yfirgáfu þeir landið. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum