Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2013 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðuneytið óskar eftir samráði

Stöðumat fyrir málaflokka innanríkisráðuneytisins liggur nú fyrir. Tilgangur­inn er að auðvelda og gera markvissara það samráð sem framundan er. Í stöðumatinu er að finna stutta greiningu á stöðu einstakra málaflokka. Grein­ingin er ekki tæmandi en veitir innsýn í umfang ráðuneytisins og málefni sem það og stofnanir þess vinna að.

Í þessu stöðumati er leitast við að gera grein fyrir málaflokkum ráðuneytisins og sýna hvar það er á vegi statt við skipulagningu, þróun verklags og mótun aðgerðaáætlana. Samráð við sam­félagið skiptir miklu máli svo móta megi framtíðarsýn sem flestir geta unað vel við. Eitt af meginverkefnum ráðuneytisins er að móta og koma í framkvæmd því sem kalla má innan­ríkisstefnu; stefnu sem mótuð er á Alþingi, á samráðsvettvangi sveitarfélaga og í samráði ráðuneytisins við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning.

Spyrja þarf um tilgang og verklag

Í formála að stöðumatinu segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra meðal annars: ,,Allar stofnanir og öll starfsemi, ekki síst á vegum hins opin­bera, þarf að spyrja sig ævinlega og öllum stundum um tilgang og verklag. Svo koma stjórnmálin, hinir lýðræðislegu straumar. Vitanlega er það svo að þeir straumar þurfa að ná inn í stjórnsýsluna. Þannig þurfa að leika saman kjölfesta faglegrar stjórnsýslu og lýðræðislegir vindar stjórnmálanna.”

Leiðarljós í þeim málaflokkum sem falla undir innanríkisstefnu taka að sjálfsögðu breytingum í tímans rás enda endurspegla þau mismunandi pólitískar áherslur. Í því stöðumati sem hér birtist er að finna ýmsa sögulega þræði sem nauðsynlegt er að halda til haga svo skilja megi betur þær forsendur sem byggt er á. Stefnumarkmið verða frekar útfærð í átta aðgerðaáætlunum sem verða endurskoðaðar reglulega með tilliti til þarfa samfélagsins.

Aðgerðaáætlanir eru nú þegar í gildi í nokkrum málaflokkum og má þar nefna samgöngu­áætlun og fjarskiptaáætlun. Fleiri aðgerðaáætlanir eru í vinnslu, svo sem landsáætlun í mann­réttindamálum, áætlun um upplýsingasamfélagið, almannavarna- og öryggisáætlun og áætlun um réttaröryggi. Samráð er lykilatriði við gerð aðgerðaáætlana á sama hátt og ráðuneytið kappkostar að hafa víðtækt samráð um alla þá þætti stefnumótunarvinnu sem það hefur aðkomu að.

Hægt að koma ábendingum á framfæri

Ráðuneytið gefur hér með áhugasömum tækifæri til að koma á framfæri ábendingum er varða málefni ráðuneytisins. Ábendingarnar óskast merktar málaflokki eða málaflokkum og er frestur til þátttöku til 5. apríl 2013 á netfangið [email protected]. Ráðuneytið óskar þess að samráðið sem framundan er verði árangursríkt og mun leggja sitt að mörkum til að svo megi verða.

Hér að neðan er að finna stöðumat málaflokka ráðuneytisins og mynd sem sýnir uppbyggingu stefnunnar.

Hér má sjá ferli stefnumótunarinnar og á hvaða stigi hún er:

Ferli-stefnumotunara

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum